12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (3349)

77. mál, áfengislög

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja 5 brtt. við frv. þetta. Þær eru allar á þskj. 773, og vil ég með fáum orðum gera grein fyrir þeim. — Fyrsta brtt. er við 2. gr. Hún er þess efnis, að síðari málsl. gr., sem gengur út á bann á innflutningi öls, falli burtu, m. ö. o., að innflutningur öls verði heimilaður.

Með frv. þessu virðist eiga að hætta að gera mun á hvaða áfengi flytjist til landsins. Hingað til hefir ekki verið leyft að flytja inn áfengi með meira alkoholi en 21%, en eftir að frv. þetta hefir öðlazt lagagildi, má flytja inn áfengi með ótakmörkuðum styrkleika. Þetta er skynsamleg breyt., því að það virðist tæplega hægt að heimila mönnum að drekka sig ölvaða af linu áfengi, en banna hið sterkara, sem hefir alveg sömu áhrif. En þegar nú, að búið er að leyfa að flytja inn sterka drykki, þá fæ ég ekki skilið, hvers vegna ekki á að vera heimilt að flytja inn það áfengið, sem minnstan hefir styrkleikann, eins og ölið, því eins og vitað er, þá hefir það ekki nema 5% styrkleika. Það er því hollur drykkur, enda í sumum sjúdómstilfellum talið heppilegt læknislyf, þó að það sé ekki talið á íslenzkri lyfjaskrá. Það tekur sig því óneitanlega hálfeinkennilega út, þegar búið er að heimila að flytja inn áfengi, sem hafir kannske allt að 60% styrkleika, þá skuli vera bannað að flytja inn þennan meinlausa og heilsusamlega drykk.

Þá er og þess að gæta, að þetta gæti haft töluverða fjárhagslega þýðingu fyrir okkur, t. d. með því að leyfa tilbúning öls í landinu, og að ríkissjóður tæki einkasölu á því. Ég skal ekki neita því, að tilbúningur á óáfengu öli myndi eitthvað minnka við þetta, en ríkissjóður hefir hvort sem er frekar litlar tekjur af því, svo það út af fyrir sig ætti ekki að muna miklu. Hitt vita allir, að það er ekki nema lítill hluti af hinn áfenga öli, sem menn nota til þess að drekka sig ölvaða af, því að reynslan er líka sú, að þegar menn fara að venjast öldrykkju, þá verða þeir ekki ölvaðir af öli. Það kannast allir við söguna um vökumanninn hjá Carlsberg, sem aldrei sagðist hafa verið drykkjumaður, en þegar farið var með hann til læknis, þá leiddu rannsóknir í ljós, að hann hefði drukkið 70–80 bjóra á dag.

Þá hefir því verið haldið fram, að ölið væri hættulegt sakir þess, að menn vendust á áfengisnautn, við neyzlu þess. Það er kannske ekki hægt að neita því, að finna megi einstaka tilfelli, sem bendi til þess, að menn hafi leiðzt út í víndrykkju vegna ölneyzlu, en þau munu sannarlega vera fá. Annars er reynslan sú, að þeir menn, sem í raun og veru vilja drekka, ná sér alltaf í eitthvað. Það ætti reynsla okkar í áfengismálunum nú síðustu 20 árin að vera búin að færa okkur heim sanninn um.

Þegar búið verður að samþ. frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., og það orðið að lögum, þá er um leið búið að losa þjóðina við þá móðursjúku skoðun, að hægt sé að venja fólk af áfengisnautn með lögbanni. Það er því undarlegt að vera um leið að neita um innflutning á öli, sem er meinlausast allra áfengra drykkja. Það væri því mjög æskilegt, að hv. þm. gætu fengið þær firrur út úr höfðum sér nú þegar á þessu þingi.

Önnur brtt. mín á þessu sama þskj., sem er við 6. gr. frv., er bein afleiðing af 1. brtt. Í 6. gr. er bannað að brugga á Íslandi eða búa til á fenga drykki eða áfengisvökva. Við þessa grein vil ég bæta, að ráðh. geti þó veitt innlendum ölgerðarhúsum leyfi til ölbruggunar, enda hafi þau til þess fullkomin tæki. Ástæðan fyrir því, að ég flyt þessa brtt., er sú, að eigi að leyfa hér sölu á áfengu öli, þá er hagfræðilega rétt að draga þann iðnað inn í landið. Við höfum líka hér starfandi ölgerð, sem virðist búa til frekar gott öl, enda þótt það hafi ekki nema 2½% styrkleika. Það er því sennilegt, að hún myndi fljótlega geta komið til með að búa til áfengt öl. Yrði nú horfið að því að leyfa hvorttveggja, að flytja inn áfengt öl og brugga öl í landinu, þá mætti vernda hina innlendu framleiðslu með því að hafa tollinn á innfluttu öll nokkuð háan. Annars má vera, að samhliða þessu þyrfti að breyta tollaákvæðunum eitthvað.

Svo er 3. brtt., við 8. gr., í raun og veru aðeins afleiðing af þessum 2 brtt., sem ég hefi nú talað um. Þar er sem sé gert ráð fyrir því, að ríkið annist ekki einungis sölu þess áfengis, sem flutt er inn, heldur og þess, sem bruggað kynni að verða í landinu löglega, þ. e. a. s. þess öls, sem innlend bruggunarhús fengju leyfi til að brugga. Ég tel eðlilegt, að áfengisverzlun ríkisins hefði sölu á þessari áfengistegund, þar sem af því mundi leiða mikill fjárhagslegur hagnaður fyrir ríkissjóð. Ég tel sjálfsagt, að það séu ekki nema ákveðin ölgerðarhús, sem fengju þetta leyfi, og að ráðh., sem áfengisverzlunin heyrir undir, verði falið að veita þau. Það verður vitanlega að vera trygging fyrir því, að hver og einn, sem við bruggun fæst, hafi ekki heimild til þess að brugga áfengt öl og því síður að hann hafi heimild til að verzla með það sjálfur, fyrst og fremst af því, að nauðsynlegt er að tryggja, að þau tæki, sem notuð eru, og hin faglega kunnátta sé í bezta lagi, og í öðru lagi af því, að annars væri hætt við, að þetta yrði misnotað. Hinsvegar hefi ég ekki ákveðið tölu þeirra, er leyfi mættu fá til að brugga áfengt öl. Ég býst ekki við, að það sé nema um eitt ölgerðarhús að ræða nú sem stendur, en fleiri gætu vitanlega risið upp, og þá gæti komið til álita, hvort ætti að veita þeim leyfi, ef þau fullnægðu settum skilyrðum.

Þessar 3 brtt., sem ég hefi nú talað fyrir, eru í raun og veru allar sama efnis, ganga allar út á að breyta frv. í þá átt að leyfa innflutning og tilbúning á áfengu öli og setja reglur um, hvernig skuli fara með sölu þess.

4. brtt. mín er við 9. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að ríkisstj. sé heimilt að setja á stofn nýja útsölustaði áfengis, en þó aðeins í kaupstöðum og kauptúnum, en áður en útsala er sett á stofn skal fara fram atkvgr. um það í því bæjar- eða sýslufélagi, sem í hlut á, og þarf 2/3 greiddra atkv. til þess að útsalan sé leyfð. Ég sé enga ástæðu til að gera greinarmun á þeim sýslufélögum, þar sem kauptún eru, og hinum, þar sem engin kauptún eru. Það hagar nú svo til í mínu kjördæmi, að það er eina kjördæmið á landinu, þar sem ekkert kauptún er, og ég vil segja það, að ef ástæða er til að leyfa öllum öðrum sýslum á landinu að setja á stofn útsölustaði áfengis, þá sé engin ástæða til að undanskilja þessa einu sýslu réttinum til þess. Þar með er vitanlega ekkert um það sagt, hvort sá réttur yrði notaður eða ekki. Þessi sýsla er ein af þeim mörgu sýslum á landinu, sem hefir átt við mikla örðugleika að stríða út af heimabrugginu, og það væri því ekki óhugsandi, að hún vildi til þess að reyna að vinna á móti því setja upp áfengisútsölu, a. m. k. um stundarsakir. Ég get ekki séð neina skynsamlega ástæðu til þess, að þessi sýsla mætti ekki nota þessa heimild eins og aðrar sýslur á landinu. Það eru verzlanir í sýslunni, fleiri en ein og fleiri en tvær, svo það ættu ekki að vera neinir erfiðleikar með það fremur en annarstaðar að fá menn til þess að annast útsöluna. Þó þetta sé að vísu ekkert höfuðatriði fyrir mér, þá álít ég það heldur galla á frv., og vildi ég því vænta, að hv. þd. gæti fallizt á þessa brtt. mína.

Þá kem ég að 5. brtt. minni. Ég verð að segja eins og er, að ég er í ákaflega miklum vafa, hvort ekki sé farið inn á ranga stefnu með þessu frv. með því að setja jafnstrangar skorður með sölu áfengis eins og gert er ráð fyrir. Ég býst við, að allir óski þess, að þessi nýju áfengislög geti orðið til þess að losa landið undan því þjóðarböli, sem heimabruggunin er. Það hefir oft verið minnzt á það hér, hvert stefndi í því máli, og ég veit, að öllum þdm. er það ljóst, að hin síðustu ár hefir stefnt til hreinna vandræða með þetta, þar sem heimabruggunin hefir færzt út frá ári til árs. Það eru sennilega ekki margar sveitir á landinu, sem eru lausar við heimabruggið í einni eða annari mynd, og sú mikla hætta, sem stafar af þessum nýja atvinnuhætti, er einmitt sú, að þegar menn hafa komizt upp á lagið með að brugga áfengi sjálfir, þá fá þeir það svo miklu ódýrara heldur en þeir annars eiga kost á. En ég held, að það sé viðurkennt af öllum, að ein sterkasta hvötin til þess að halda mönnum frá áfengi sé einmitt það, hvernig það kemur við pyngju þeirra. Auk þess er það augljóst mál, að því víðar sem áfengi er framleitt í landinu, því auðveldara er fyrir menn að ná í það. Ég held því, að það sé mjög varhugavert að setja nokkur þau ákvæði í frv., sem geti gert það að verkum, að síður verði náð einum af þessum aðaltilgangi löggjafarinnar, sem sé að stöðva heimabruggið. Vitanlega er enginn svo bjartsýnn að halda, að heimabruggið hverfi í einni svipan, þó þessi löggjöf verði samþ.; það tekur kannske marga áratugi. En samt sem áður ættu ákvæði áfengislaganna að geta haft mikil áhrif í þessu efni. Ég vil segja það, að því frjálslegri sem áfengislögin eru, því meira sem verðinu er stillt í hóf og því léttara sem mönnum er gert fyrir að ná í löglega innflutt áfengi, þess minni eru líkurnar til þess, að menn geti í framtíðinni gert sér að atvinnu að brugga áfengi til sölu. En í þessu frv. kennir þess mjög, sem kennt hefir í áfengislöggjöfinni undanfarin ár, að keppzt er við að setja sem allra mestar hömlur á möguleika manna til þess að ná í áfengi. Að þessu miða ákvæði 12. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að áfengissölubúðir skuli lokaðar frá hádegi á laugardögum og aðfangadögum stórhátíða, sem ég hefi annars ekkert við að athuga, og að óheimilt skuli að afhenda áfengi nema gegn staðgreiðslu, og hefi ég heldur ekkert við það að athuga. En svo kemur ákvæði í 13. gr., sem ég álít vera hreint og beint hættulegt, sem sé, að bannað skuli að selja manni áfengi, sem sekur hefir gerzt um óleyfilega sölu. Þegar ég segi, að þetta ákvæði sé hættulegt, miða ég vitanlega við það, að því sé framfylgt, en ég býst við, að það verði erfitt. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að áfengisverzlanirnar heimti hegningarvottorð af hverjum manni, sem inn kemur, og jafnvel þó þær fengju tilkynningu um það, hverjir það væru, sem hefðu gerzt sekir við áfengislögin, þá gæti það skolazt í minni þeirra, sem áfengið ættu að láta úti. Það er mjög hætt við því, að þetta verði ekkert annað en bókstafurinn tómur, og þá er engin ástæða til að lögfesta þetta. En ef þessu ákvæði yrði framfylgt, mundi gangurinn verða sá, að þeir, sem sekir væru fyrir ólöglega áfengissölu, mundu bara fá aðra fyrir sig til þess að kaupa áfengið, og mundu því geta haldið áfram hinni ólöglegu sölu, ef þeir vildu. Hættan við þetta er sú, að sá maður, sem þannig hefir gerzt lögbrjótur fyrir annan, færi að vakna til umhugsunar um, hvort ekki væri betra fyrir hann að reka þessa verzlun á eigin spýtur. Afleiðingin gæti því orðið sú, að sá maður, sem upphaflega byrjar á þessum viðskiptum í greiðaskyni við annan mann, fær freistingu til þess að brjóta l. sjálfur og fellur fyrir henni, og því vil ég segja, að þetta sé hættulegt ákvæði. Auk þess er það að athuga, að í raun og veru er ekkert samband í milli þess brots, sem refsað hefir verið fyrir, og þess verknaðar, sem verið er að banna, því þó maður hafi einhvern tíma gerzt sekur um óleyfilega áfengissölu, þá hefir hann í raun og veru siðferðislegan rétt til þess að fá keypt áfengi til neyzlu, því það er einungis áfengi til sölu, sem eðlilegt er að banna. Þetta væri það sama og að manni, sem staðinn væri að því að smygla inn tóbaki, væri bannað að fá keypt tóbak í tóbaksverzlunum. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt og er ekkert rökrétt samband milli þessa tvenns, sem þarna er sett í samband hvað við annað. Ég hefi því flutt þessa brtt., um að þetta ákvæði verði fellt niður.

Ég hefi þá gert grein fyrir mínum brtt. og skal ekki tefja málið frekar að þessu sinni.