12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

77. mál, áfengislög

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

N. hefir ekki gefizt tími til þess að athuga þær brtt. sameiginlega, sem fram eru komnar við þetta frv. Þar af leiðandi hefir n. óbundin atkv. um hverja einstaka af þessum till. Það, sem ég kann því að minnast á þessar till., geri ég fyrir eigin reikning.

Ég ætla þá að minnast á sumar af þessum brtt., en mun ekki telja mér skylt, þar sem, eins og ég sagði áðan, n. hefir ekki tekið þær til meðferðar, að minnast á þær allar, þó að ég sé frsm. n. Þá verður fyrst fyrir mér brtt. á þskj. 770, frá þeim hv. 2. þm. S.-M. og hv. 4. þm. Reykv. Fyrri brtt. á því þskj. er um það, að setja megi í reglugerð ákvæði um hámark þess áfengis, sem áfengisverzlun og útsölur hennar megi afhenda hverjum einstakling mánaðarlega eða árlega. Svo á að setja nánari reglur um meðferð áfengis. Flm. þessarar till. komu með svipaða till. þessari við 2. umr. málsins, en tóku hana þá aftur, ef til vill og sennilega vegna orða, sem ég hafði látið um þetta falla. Eins og ég sagði þá, finnst mér það töluvert annað mál, þó að þetta sé lögtekið, að setja þannig hámark þess, sem selja megi mönnum á mánuði eða ári, heldur en að hafa það eins og þessir hv. þm. lögðu hér til við 2. umr. málsins, sem sé, að sett væru ákvæði um það, hvað mætti selja mönnum í hvert skipti, sem þeir keyptu áfengi, því að eins og ég sýndi fram á, þá var sú till. algerlega þýðingarlaus og gagnslaus. Hvað þessa till. snertir, þá virðist mér þó, að það þyrfti að bæta við hana ákvæði, því að það er nú svo, að á meðan leyfð er sala á áfengi í landinu, þá eru það vissir menn, sem stöðu sinnar vegna geta ekki komizt af með þann áfengisskammt, sem allur almenningur ætti að geta komizt af með. Það eru menn, sem þurfa vegna hins opinbera að halda uppi risnu. Mér finnst, að þeir verði að verða undanþegnir a. m. k. þessari skömmtun. Þessir menn, sem ég á hér við, eru fulltrúar landsins, og ef til vill fulltrúar kaupstaða, eins og t. d. borgarstjórinn í Reykjavík. Ég skal reyndar ekki segja um það, hver risnuskylda hvílir á honum; ég þekki það ekki. Svo eru það sendiherrar erlendra ríkja, sem þyrftu að vera undanþegnir þessu, og ef til vili fleiri. Það nær ekki nokkurri átt að fara að skammta þessum mönnum áfengi, og það kannske mjög takmarkað. Þess vegna mun ég leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við brtt. á þskj. 770, þess efnis, að reglugerð þessi skuli þó ekki ná til þeirra, sem sökum stöðu sinnar verða að halda uppi risnu.

Þá kem ég að 2. brtt. þessara hv. þm., sem er á sama þskj. og er um það, að banna að neyta áfengis í bifreiðum, sem flytja farþega. Það er nú ekki vel ljóst, við hvað hv. flm. eiga með þessu. Ef þeir ættu við þær bifreiðar einar, sem flytja farþega þannig, að þær selja viss sæti, og það er því undir tilviljun komið, hverjir eru samferðamenn í þeim, þá gæti ég samþ. slíkt ákvæði sem þetta. En mér virðist þetta ákvæði eiga að taka til allra bifreiða, sem farþegar eru í, og ef ég t. d. leigði mér bifreið til Akureyrar, og væri aðeins einn með bifreiðarstjóranum í bifreiðinni, þá sýnist mér, að ég megi ekki súpa á flösku í henni. Þetta þykja mér nokkuð hörð ákvæði og vil ekki undir það gangast. Hitt getur verið eðlilegt, að þar sem fólk af hreinni tilviljun lendir saman í svona farartækjum, sé rétt að banna notkun áfengis. Um það, að áfengisnotkun farþega í bifreiðum geti leitt til þess, að bifreiðarstjórar drekki líka, er það að segja, að þeim er algerlega bannað að neyta áfengis við akstur, svo að það ætti ekki að koma að sök. Hv. flm. munu ef til vill segja sem svo, að bifreiðarstjórar muni brjóta þessi ákvæði, ef vín sé haft um hönd í bifreiðunum. En úr því að þeir eru þarna að gera ráð fyrir lagabrotum bifreiðarstjóranna, því má þá ekki alveg eins búast við lögbrotum farþeganna? Annaðhvort er að búast við því, að lagaákvæðum sé hlýtt eða ekki hlýtt.

Þá er brtt. á þskj. 771, frá hv. 5. landsk., og er um það fyrst og fremst, að tekjur, sem inn koma vegna lögbrota, vegna þessara l., renni beint í ríkissjóð, en ekki í Menningarsjóð. Það má nú búast við því, að einmitt þegar þessi nýju áfengislög koma, þá tapi Menningarsjóður tekjum, sem hann hefir nú, og ég hygg, að honum veiti ekki af þessum tekjum, sem honum eru ætlaðar samkv. þessu frv., enda mun það ekki vaka fyrir þessum hv. þm. að svipta Menningarsjóð tekjum, heldur skilst mér það vaka fyrir hv. þm., að þannig fengið fé vilji hann ekki þiggja fyrir hönd Menningarsjóðs, en vilji aftur á móti, að ríkissjóður leggi honum fé í fjárl. Ég er náttúrlega ekki eins viðkvæmur í þessu efni eins og hv. þm., og ég vil líka benda á það, að það er alltaf undir hælinn lagt, hvað ríkissjóður mundi leggja fram til Menningarsjóðs, og ég sé ekki annað en að það sé a. m. k. hætta á því, ef þessi till. verður samþ., að Menningarsjóður missi við það tekjur. (GL: Getur ríkissjóður ekki lagt fram sömu upphæð til Menningarsjóðs?). Það gæti hann náttúrlega, en það er bara ekki víst, hvort hann gerir það.

Þá er önnur brtt. á sama þskj. frá sama þm. um það, að þar, sem útsölur hafa verið leyfðar samkv. atkvgr., skuli endurtaka atkvgr. á þriggja ára fresti. Mér virðist það óþarft, nema því aðeins, að komið hafi fram krafa frá hlutaðeigandi mönnum. En að vera að viðhafa slíka atkvgr. þriðja hvert ár, þó að ekki sé um það beðið, virðist mér vera óþarfi. Þá er á sama þskj. brtt. við 13. gr. frv., og skal ég játa, að það er lagfæring á frv., því að eins og 13. gr. er orðuð nú, þá er bannað að selja mönnum áfengi, sem sekir hafa gerzt um ólöglega sölu. Nú er ekki alveg augljóst, hvað er átt við með þessu, því að það gæti alveg eins átt við það, að bannað væri að selja öllum þeim áfengi, sem sekir hefðu gerzt um óleyfilega sölu á einhverju, t. d. mjólk samkv. mjólkurl., og það er náttúrlega ekki meining l. Þess vegna er rétt að laga þetta, og það mundi vera gert að nokkru leyti með 3. brtt. á þskj. 771, því að þar er skýrt tekið fram, hvað átt er við. En við 2. umr. málsins hér í d. var það fellt, að láta það varða þessu, þó að maður gerðist sekur um bruggun til eigin notkunar, og þess vegna er ég ekki viss um, að till. eins og hún er orðuð nú, geti komið til atkv. hér í d., því að þó að hún sé að vissu leyti lagfæring á frv., þá er í till. atriði, sem hér er búið að fella. (IngP: Gr. er allt öðruvísi orðuð). Að vísu er það öðruvísi orðað. Ég leyfi mér því að bera fram skrifl. brtt. við 13. gr. frv., og hún er þannig, að við fyrri málsgr. gr. sé aðeins bætt orðinn „áfengis“. Þá kemur full meining í gr.

Þá er hér till. frá hv. 2. þm. Rang. á þskj. 773. 3 fyrstu brtt. fjalla allar um það sama, sem sé, að leyfa innflutning á áfengu öli til landsins og ennfremur að leyfa að brugga það í landinu. Ég verð nú að segja það, að samkv. þjóðaratkvæðinu, þá hefði mér fundizt það miklu eðlilegra, að þau upprunalegu ákvæði frv. hefðu fengið að standa, sem yfirleitt leyfðu innflutning á öllu áfengi, en Nd. hefir sett þetta ákvæði inn í frv., að banna innflutning á öli., og ég get ekki neitað því, að ég hefi verið dálítið hissa á því, vegna þess, að Nd. veitti málinu mjög skynsamlega meðferð á margan hátt. Ég skil það ekki, að þegar áfengi á annað borð er leyft í landinn, þá skuli einmitt meinlausasta tegundin tekin út úr og bönnuð. Hinsvegar skal ég játa það, að ég legg ekki mjög mikla áherzlu á þetta atriði. Ástæðurnar fyrir því, að það hefir verið fellt niður úr frv., að öl mætti flytja til landsins, munu líklega vera þær, — eða svo hefir mér heyrzt á þeim, sem halda því fram, að slíkt beri að banna, — að menn læri einna helzt að drekka áfeng vín á því að byrja á öli, eða m. ö. o., að þeir byrji þá á ölinu, taki svo Spánarvínin og endi á sterkum drykkjum. Ég held, að þetta sé ekki rétt. Ég man vel þá tíma, áður en bannl. gengu til fulls í gildi, en ég man alls ekki eftir því, að unglingar sætu þá við öldrykkju.

Þá er 4. brtt. á sama þskj., þar sem lagt er til, að áfengisútsölur megi vera utan kaupstaða og kauptúna, og hefir það komið í ljós, að þetta er flutt með sérstöku tilliti til einnar sýslu, þar sem ekkert kauptún er til, en það er Rangárvallasýsla. Ég verð nú að segja það, að mér finnst óþarfi að setja áfengisútsölur annarsstaðar en í kauptún, og hvað Rangárvallasýslu snertir, þá er þaðan ágætt vegasamband til Rvíkur og svo miklar ferðir þar á milli, að ég held, að það sé tiltölulega litlum vandkvæðum bundið fyrir þá menn, sem þar búa, að eignast áfengi, að fá það á löglegan hátt héðan úr Rvík. En ef till. þeirra hv. 2. þm. S.-M. og hv. 4. þm. Reykv. um að banna að flytja áfengi um landið hefði verið samþ. hér við 2. umr. málsins, þá hefði vitanlega verið óhjákvæmilegt að samþ. þessa till. En hún var nú felld, og þess vegna finnst mér óþarfi að samþ. þessa till. Ef eitthvað væri samþ. í þessa átt, þá vildi ég heldur ganga inn á það, að komizt væri svo að orði, að það mætti selja áfengi utan kauptúna í þeim sýslum, sem ekkert kauptún væri í, en annars ekki, og þessi sýsla mun vera sú eina, sem svo stendur á um.

Þá vill hv. 2. þm. Rang. einnig fella niður úr 13. gr. frv. það ákvæði, að setja bann við því, að þeim sé selt áfengi, sem gerzt hafa sekir um ólöglega sölu áfengis. Þessu er ég fyrir mitt leyti alveg mótfallinn, en veit þó ekki, hvernig meðnm. mínir líta á það. Mér finnst, eins og ég gerði allrækilega grein fyrir við 2. umr. málsins, að það eigi að gera skýran greinarmun á því, hvort menn hafi á einhvern hátt orðið brotlegir við l. vegna þess, að þeir hafi freistazt til þess að útvega sér áfengi til að drekka sjálfir, eða hvort þeir hafi notað það í gróðaskyni. Auðvitað er ekki hægt að neita því, sem þessi hv. þm. benti á, að það má búast við, að þeir, sem hafa gerzt sekir um ólöglega sölu áfengis og eru þar með sviptir réttinum til þess að fá það keypt, hafi öll spjót úti til þess að ná í það samt. En þetta verður nú alltaf, að maður vonar, tiltölulega fámennur hópur manna. En ef leyft er að selja þessum mönnum áfengi áfram, sem gerzt hafa sekir um óleyfilega sölu áfengis, þá má náttúrlega ganga út frá því, að þeir kaupi áfengi í þessum sama tilgangi áfram, sem sé til þess að selja það. (MJ: Þetta nær líka til þeirra, sem brugga til þess að selja). Það er líka bannað samkv. frv. að selja þeim áfengi, sem hafa bruggað til þess að selja, og ég álít það alveg réttlátt, að auk annarar refsingar sé þeim mönnum, sem hafa bruggað áfengi til þess að selja það, refsað með því að fá áfengi ekki keypt. (PM: Því á þá ekki að banna að selja þeim kaffi, sem hafa smyglað kaffi inn í landið? Er það ekki rökrétt afleiðing af hinu?). Það er ekki hægt að neita því, að það sé að nokkru leyti rökrétt afleiðing, en það er bara svo, að það er lítið öðrum augum á kaffið en á áfengið, þó að kaffið geri óneitanlega meiri skaða en af er látið, og sé ekki eins mikil nauðsynjavara og fram er haldið, og áfengi aftur á móti geri minni skaða en fram er haldið, þá er það samt svo, að áfengi er svo miklu skaðlegra neyzlulyf heldur en kaffi, að ég held, að rétt sé að gera greinarmun á þessu tvennu.

Ég ætla þá að leyfa mér að afhenda forseta þær tvær skrifl. brtt., sem ég hefi getið um í ræðu minni.