17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Bjarni Bjarnason:

Hv. 1. þm. Árn. og ég eigum brtt. á þskj. 814,II. A-liður ræðir um símalínu frá Minni-Borg í Grímsnesi að Sólheimum. Stendur líkt á um þennan síma og þann, sem um getur í brtt. á þskj. 311, frá hv. 6. þm. Reykv. Er í báðum tilfellum um skóla að ræða. Sólheimar eru sjúkrahús og skóli í senn, sem sé fávitaskóli. Þó að landssímastjóri hafi ekki mælt með upptöku þessarar línu, þá er það ósanngirni. Þetta er mikil stofnun, sem hér um ræðir, og getur orðið langt að bíða þess, að bændur stofni með sér einkasímafélag. þannig að skólinn geti tekið línu frá þeim síma.

Ég skal geta þess, að ég er alveg samþykkur till. á þskj. 511, og vil ég óska þess, að báðar þessar till. verði samþ., auk þeirra, sem landssímastjóri og n. hafa lagt til, að samþ. yrðu.

Þá er b-liður brtt. okkar, um línu frá Minni-Borg að Búrfelli. Svo hagar þarna til, að þeir, sem vilja tala frá Minni-Borg að fjórum stöðvum vestar í sveitinni, t. d. Búrfelli, verða fyrst að hringja niður að Ölfusá til þess að fá samband og kostar það 1 kr. En þetta myndi ekki kosta nema 35 aura, ef þarna væri bein símalína. Auk þess er línan frá Minni-Borg að Ölfusá svo mikið notuð, að hún getur hvergi nærri fullnægt þörfunum.

Enda þótt ég vilji forðast allt óhóf um framburð brtt., vona ég, að hv. d. fallist á þessar brtt.