17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Mér finnst, að hv. þdm. hafi tekið afgreiðslu þessa máls skynsamlega og hófsamlega. Það má búast við, að eitthvað verði samþ. af því, sem n. er sammála um, en hitt verði þá látið bíða.

Ég minntist ekki á brtt. á þskj. 499. Ég hélt, að hv. þm. N.-Þ. myndi láta sér nægja það, sem meiri hl. n. hefir tekið upp, og myndi taka hina brtt. aftur. En það hefir hann ekki gert, þó að landssímastjóri hafi lagt á móti þessu. Það er hafinn undirbúningur undir það, að koma þessum bæjum í samband við þá stöð, sem næst er, en það er Þverá, því þar er landssímastöð. Ég efast ekki um, að þörf er á því, að símasamband náist þarna. Það háttar svo til, að Sandfellshagi liggur að vissu leyti í þjóðbraut, á stað, þar sem ferðamenn þurfa oft að koma við á, og er því fullkomin sanngirni, að lína komi þarna, hvort sem það verður landssímalína eða ekki. Má vera, að þess verði ekki langt að bíða, að lína komi þarna, þó að n. hafi ekki mælt með því.

Mér er það fullljóst, að símalögin með breyt. þeim, sem á þeim eru gerðar svo að segja árlega, eru komin í öngþveiti. Ég minntist á það við 2. umr. og vil láta það koma skýrt fram núna, að það er nauðsynlegt, að löggjöfin sé endurskoðuð og sett í samfellda heild og landssímastjóri og þeir aðrir, sem hér koma til greina, kæmu sér saman um, hvernig hin nýju lagaákvæði skyldu vera og hvernig l. ættu að vera í heild. Þá mætti svo fara, að miklu betri regla yrði, og að t. d. sumir línuspottar, sem nú er hnoðað inn í l., yrðu teknir sem sérstök grein af l. Yfirleitt er það svo, að það þarf að koma samræmi á símalöggjöfina, eins og gert hefir verið með vegakerfið, svo að hún komi fram sem ein heild, en það sé ekki alveg undir hælinn lagt, hvar lína er lögð og hvernig hún stendur af sér gagnvart öðrum línum. Hins er líka að gæta, að mikið getur skort á samræmi í einstökum héruðum, og þarf að halda áfram að umbæta löggjöfina og gera hana betri og aðgengilegri en hún er nú. Ég get nefnt sem dæmi það, sem hv. 7. landsk. hefir bent á, að landssímastjóri sjálfur hefir ekki áttað sig á till., sem fram hefir komið hér, en þar er sama línan, sem er í l. frá 1929. Það var því ekki þörf að koma með brtt. um þessa línu í Skagafirði, þar sem það er sama línan og áður, en þrátt fyrir það tel ég réttara að láta orðalagið haldast eins og það er nú, þó það sé að efni til sama og áður, því nú er það öllu víðtækara, enda telur landssímastjóri, að það sé nú meira svigrúm til þess að bæta við línum innan sveitarinnar en áður.

Þó að enginn úr hæstv. landsstj. sé hér viðstaddur til þess að taka upp þetta mál um samræmanlega símalöggjöf, þá býst ég samt við, að landssímastjóri fái að vita um þessi tilmæli n.