03.10.1934
Sameinað þing: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Kosning til efrideildar

Forseti (JBald):

Það hefir verið hér nokkurt stríð milli flokka um skipun efri deildar. Sé ég ekki ástæðu til að leyfa frekari umr. um það efni, en tek málið til úrskurðar.

Við kosningar til efri deildar Alþingis hafa komið fram fimm listar. Á A-listanum eru 9 nöfn alþingismanna úr Alþfl. og Framsfl., en þeir flokkar, ásamt hv. þm. V.-Ísf., sem er utan flokka, hafa borið þennan lista fram. Á B-listanum, lista Sjálfstfl., eru 6 alþingismenn úr þeim flokki. Þingmannatala á hvorum þessara lista um sig er hlutfallslega sú, er þessir flokkar, er að listunum standa, geta eftir atkvæðamagni sínu í þinginu kosið til efri deildar Alþingis. Þessir listar eru því bornir fram í samræmi við úrslit kosninga og í samræmi við efni stjórnarskrárinnar frá 1934. — Úrskurða ég þá lista gilda.

Samkv. 2. gr. stjskr. frá 1934 á þriðjungur þingmanna að eiga sæti í efri deild, en sé ekki unnt að skipta til þriðjunga í deildirnar, eiga þeir þingmenn, einn eða tveir, sem umfram eru, sæti í neðri deild. Nú er tala alþingismanna 49, og ber því að kjósa 16 alþm. til að taka sæti í efri deild Alþingis. En samanlögð tala alþm. á áðurnefndum tveim listum er eigi nema 15.

Á fundinum í gær 1ýsti forseti eftir lista frá Bændaflokknum, en hv. 10 landskjörinn svaraði því, að Bændaflokkurinn óskaði ekki eftir því, að kjósa til efri deildar. Bar þá hv. 2. þm. Reykv. fram lista, er hlaut einkennið C og var á þeim lista nafn Þorsteins Briems. Eftir fundarhlé, er veitt var samkvæmt ósk hv. 10. landskjörins, kom eigi fram flokkslisti frá Bændaflokknum, en hv. þm. V.-Húnv. bar fram lista, er merktur var D og var á þeim lista nafn Héðins Valdimarssonar, og loks kom fram listi frá hv. 10. landsk., er hlaut einkennið E, með nafni Magnúsar Torfasonar.

Með þeirri breytingu á stjórnarskipunarlögum landsins, sem samþykkt var til fullnustu á auka-Alþingi 1933, og með nýjum kosningalögum, sem sett voru samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá, er gerð stórfelld breyting á öllu fyrirkomulagi kosninga til Alþingis, og stjórnmálaflokkum og sérstaklega þingflokkum veittur meiri réttur en áður. Þannig er það lögbundið, að það skuli standa á kjörseðli kosninga til Alþingis, í hvaða flokki frambjóðandi sé. Þó að mönnum sé einnig heimilt að bjóða sig fram til þings utan flokka, þá gerir stjórnarskrá og kosningalög aðallega ráð fyrir því að kosið sé um flokka.

Umbjóðendur þingmanna, kjósendurnir, hafa við síðustu alþingiskosningar hér á landi í raun og veru í fyrsta sinni kosið eftir flokkum. Á Alþingi eiga þingflokkar því að hafa þann rétt og þær skyldur, sem kosningarnar hafa veitt þeim, en hvorki meiri né minni. Bændaflokkurinn hefir atkvæðamagn til þess að kjósa einn alþingismann til efri deildar, en það hefir ómótmælt verið borið fram af einum alþingismanni úr Bændaflokknum, að sá flokkur óski ekki eftir því, að kjósa þingmann til efri deildar.

Ég tel ekki, að Bændaflokkurinn geti skotið sér undan því, að eiga einn alþingismann í efri deild, en heldur ekki, að einstakir þingmenn geti borið fram lista með nafni eða nöfnum alþingismanna úr öðrum flokki, sem hefir uppfyllt þá skyldu að leggja fram lista við kosninguna, með jafnmörgum nöfnum og sá flokkur á rétt á að kjósa til efri deildar, og ekki heldur með nafni eða nöfnum alþingismanna úr eigin flokki, ef það er ekki flokkslisti. Þá er komið út fyrir þau takmörk, sem stjórnarskrá og kosningalög gera ráð fyrir.

Háttvirtur 10. landsk. hefir svarað fyrirspurn um það, hvort E-listinn sé listi Bændaflokksins, að það muni sjást við atkvæðagreiðslu. — Verður því ekki hægt að líta svo á, að E-listinn sé listi Bændaflokksins. Heldur eigi verður D-listinn talinn listi Bændaflokksins, það er tvímælalaust ólöglegt að bera fram lista með nafni alþingismanns úr öðrum flokki, svo sem gert er með D-listanum, í því skyni að skjóta sér undan því, að koma fram með flokkslista.

Er það því úrskurður minn að vísa D-listanum og E-listanum frá, og koma þeir því eigi til atkvæða.

C-listinn er fram borinn af 2. þm. Reykv. í samráði við formenn tveggja meirihlutaflokkanna á Alþingi. — Hann kvaðst bera þennan lista fram í því skyni að fylla löglega tölu alþingismanna til efri deildar og stinga upp á alþingismanni úr Bændaflokknum, er eigi hafði komið fram með lista, þótt hann hefði atkvæðamagn til þess að kjósa einn mann, til efri deildar, og jafnframt lýsti hv. 2. þm. Reykv. yfir því, að hann myndi taka sinn lista aftur, ef Bændaflokkurinn bæri fram flokkslista.

Nú hefir það eigi orðið, svo sem áður er tekið fram. Verður að fallast á, að meirihlutaflokkum þingsins beri skylda til þess að sjá um, ef á brestur, að Alþingi verði starfhæft samkvæmt úrslitum alþingiskosninga. Það er og í samræmi við anda og tilgang hinnar nýju stjórnarskrár og hinna nýju kosningalaga og þá einnig í samræmi við þingsköp Alþingis.

Ég úrskurða því, að C-listinn sé löglega fram borinn.

Þar sem D-lista og E-lista hefir verið vísað frá, er eigi stungið upp á fleiri alþingismönnum til efri deildar Alþingis en kjósa á þangað samkvæmt stjórnarskránni og eru þá kosnir til efri deildar Alþingis þessir alþingismenn:

Af A-lista:

Jónas Jónsson,

Jón Baldvinsson,

Einar Árnason,

Ingvar Pálmason,

Sigurjón Á. Ólafsson,

Páll Hermannsson,

Bernharð Stefánsson,

Haraldur Guðmundsson,

Hermann Jónasson.

Af B-lista:

Magnús Guðmundsson,

Guðrún Lárusdóttir,

Pétur Magnússon,

Þorsteinn Þorsteinsson,

Jón Auðunn Jónsson,

Magnús Jónsson.

Af C-lista:

Þorsteinn Briem.

Á 2. fundi í Sþ., 4. okt., utan dagskrár, mælti