10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) óyfirl.:

Frv. þetta er samið af hinni svonefndu skipulagsn. atvinnuveganna, og er einn ávöxturinn af hennar lélega starfi. Minni hl. allshn. hefir ekki viljað vera með í flutningi þess og skilað sérstöku nál. á þskj. 419. Svo sem sjá má af því nál., er minni hl. ekki mótfallinn því í principinu að haft sé sem bezt eftirlit með starfsemi ríkisstofnana. En hann telur, að eins og frv. þetta er orðað, sé engin réttarbót að því, og tilgangi þess verði ekki náð með ákvæðum frv. Í 1. gr. frv. er mælt svo fyrir, að ríkisfyrirtækin skuli flokkuð niður í þrjá aðalflokka. Í fyrsta flokknum á að vera póstmálakerfið, landssíminn, ríkisútvarpið og skipaútgerð ríkisins. Í öðrum flokki tóbakseinkasala ríkisins, áfengisverzlun ríkisins, viðtækjaverzlun ríkisins og áburðareinkasala ríkisins. Í þriðja flokki skrifstofa vegamálastjóra, skrifstofa vitamálastjóra, skrifstofa húsameistara ríkisins, ríkisprentsmiðjan og landssmiðjan. — Svo sem sjá má af þessari upptalningu, hlýtur eftirlitið með stofnunum í hverjum flokki að vera allmikið verk. Starfsemi ráðanna er svo nánar tiltekin í 2. málsgr. 3. gr. Þar segir: „Forstjórum stofnana þeirra, sem ræðir um í 1. þessum, skal skylt að leggja fyrir ráð það, sem stofnunin heyrir undir, öll mikilsvarðandi mál, sem starfræksluna varða, gera grein fyrir innkaupum, starfsmannahaldi, kaupgjaldi og tilhögun starfs, fjárhag, álagningu á vörum og öðrum meginreglum, sem starfrækslan miðast við.“

Eins og sjá má af þessu, eiga ráðin að taka til athugunar allan rekstur hverrar ríkisstofnunar fyrir sig, fylgjast með innkaupum á vörum, starfsmannahaldi, kaupgjaldi o. s. frv., í stuttu máli sagt, fylgjast með öllum rekstri stofnunarinnar í stóru og smáu. Hinsvegar samræmist þetta illa 5. gr., sem fjallar um launakjör þeirra manna, sem í ráðunum sitja; þar er gert ráð fyrir, að hver þeirra fái 400 kr. þóknun á ári. — Í 3. gr. er ákvæði um það, að ráðin þurfi ekki að halda fundi nema einu sinni í mánuði hverjum. Varla er þó hægt að ætlast til þess, að ráðin komist yfir sitt mjög svo víðtæka verksvið með ekki meiri fundarhöldum, og held ég satt að segja, að ákvæði 3. gr. séu sett til þess að sýnast. Það eigi að telja mönnum trú um, að hér sé um raunverulegt eftirlit að ræða. — Ég get upplýst það í þessu sambandi, að við ríkisprentsmiðjuna Gutenberg er auk framkvæmdarstjóra þriggja manna stjórn, og hefir hver þessara manna 500 kr. laun. Þessari stj. er svo ætlað að koma einstöku sinnum á fund ríkisstj. og gefa ráð. Þess er ekki getið í frv., hvort þessi stj. á að starfa áfram með sömu launum eða falla undir ráðin sbr. 1. gr. Ég get ennfremur upplýst, að í stjórn landssmiðjunnar sitja 5 menn með 600 kr. þóknun hver á ári. Það hefir ekki heldur verið tekið fram, hvort þessi stjórn eigi að leggjast niður og færast undir ráðin samkv. frv. eða vera jafnframt á sínum 600 kr. launum. Kannske hæstv. forsrh. geti upplýst um þetta, því hann hefir víst verið einn í þessari stjórn. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. kalli ráðin saman og ráðgist við þau um samræmingu á störfum ríkisstofnananna. En það er ekki fullljóst, hvað átt er við; hvort ætlazt er til, að reksturinn verði færður saman og framkvæmdastjórum fækkað og skrifstofuhald sameinað, eða hvort átt er við eitthvað annað. Ég skal t. d. benda á, að ég veit ekki betur en útvarpsstjóri hafi 2000 kr. á ári fyrir eftirlit með viðtækjaverzluninni. Er það tilætlun hv. 2. þm. Reykv. að leggja þetta eftirlit niður? Það er kannske svo, að það verði lagt niður og útvarpsstj. fái ekki áfram þessar 2 þús. kr. fyrir að gera ekki neitt. En ég held, að frv. komi ekki að neinn liði, því það er ekki hægt að búast við, að 3 manna ráð geti að gagni sett sig inn í allan rekstur þeirra stofnana, sem undir þau heyra. Hvernig eiga t. d. 3 menn, sem koma á fund einn sinni í mánuði, að geta sett sig inn í rekstur tóbakseinkasölunnar, vínverzlunar ríkisins og viðtækjaverzlunar ríkisins, og áburðareinkasölu ríkisins, hvert er innkaupsverð, hvert útsöluverð, hver eru laun starfsmanna o. s. frv., samkvæmt því sem talið er upp í 3. gr.? Ég get ekki búizt við, að ráðin geti innt þetta af hendi, heldur mun tilgangurinn vera sá einn, að koma með nýja bitlinga fyrir stuðningsmenn hæstv. stj. Frv. er bara kák, sem aldrei kemur að gagni. Í stað þess ætti heldur að ráða fastan starfsmann, sem væri vel launaður og hefði krítiska gagnrýni og eftirlit með þessum stofnunum, heldur en að fela pólitískum gæðingum stj. að koma á 12 fundi á ári til þess að rabba saman, án þess að gera nokkurt gagn.