10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að taka það fram út af þessu, sem síðasti ræðumaður kom með um minni hl. þings og meiri hl. þjóðarinnar, sem er nú svo algengt, að talað sé um. Jafnvel þó að Sjálfstfl. gæti talið Bændafl. með sér, sem sýnist þó ekki vera hægt hér á þingi, nema nokkurn hluta hans, þá hafa Sjálfstfl. og Bændafl. ekki meiri hl. kjósenda.

Annars var ýmislegt, sem hv. þm. sagði, athugunarvert, og þess eðlis, að ég get fallizt á það, en það er tilgangurinn með þessu frv., og sá eini tilgangur, að reyna að koma á fót öruggu eftirliti með þessum stofnunum, og það er komið undir því, hvernig tekst með mannval í þessi ráð, og ég geri ráð fyrir, að af því að í þau verða settir menn úr hverjum flokki, þá hafi þeir aðhald hver af öðrum. Hitt hefir ekki mikið að segja, hver þar er í minni hl., því að allir hafa þeir aðgang að fá þá sömu vitneskju, sem þeir eiga að fá viðvíkjandi þessum rekstri. Þar getur sá, sem er í minni hl., komið með sín ráð, en það eina, sem hægt væri að segja, að minna tillit væri tekið til hans, væri þá það, að hans ráð væru síður tekin til greina af stj., en sem opinber starfsmaður hefir hann þar jafnan rétt og þeir, sem kosnir eru af hinum flokkunum.

Hefði það verið meiningin með þessu að taka upp einhverja bitlinga, þá hefði verið hér talað um hærri laun en hér er gert ráð fyrir, enda virðist mér mest fundið að því, hvað launin séu lág móts við starfið. Ég hefi áður skýrt frá því, hvernig þetta væri skoðað frá minni hálfu; það væri miðað við þau laun, sem menn fengju í milliþm., og þyrfti ekki að gera ráð fyrir, að þeir þyrftu að halda fleiri fundi en það. En ég hefi ekki á móti því, að athugað sé til 3. umr., hvort ekki eigi að breyta þessum launagreiðslum þannig, að þessir menn hefðu 10 kr. fyrir hvern fundardag, sem þeir hafa, og þá færi það eftir því, hve mikið þetta starf væri, hvað þeir fengju úr býtum borið.

Ég hefi áður bent á það, að það sé alls ekki einskorðað í frv., að það eigi aðeins að halda einn fund í hverjum mánuði, heldur, að þeir skuli ekki vera sjaldnar en þetta. Þetta er einmitt vegna þess, að 8. landsk. benti á það, sem ég hygg, að sé rétt, að a. m. k. stjórn landssmiðjunnar hafi ekki haldið fundi svo oft. Þess vegna er sjálfsagt að setja eitthvert ákvæði um það, og því er það ákveðið í frv., að fundir skuli vera minnst einn sinni í mánuði.

Ég hefi svo ekki meira um þetta að tala, en vil aðeins bæta því við, að undir stjórnareftirliti eru ekki nema tvær af þeim stofnunum, sem hér er um að ræða, og þar sem nú er t. d. útvarpsstjóri aðskilinn frá dagskrárnefnd, þá er heppilegt að hafa svona stjórn ásamt útvarpsstjóra. Sama má segja um póst og síma. Þær tvær greinar hafa nú verið sameinaðar, og er þar um mjög víðtækt starf að ræða, og þó að það séu störf, sem falla vel saman, þá er það mikið verkefni fyrir eina stofnun og því rétt að hafa sem nánast eftirlit með því.