20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Ég tel ekki miklu varða að gagnrýna ræðu hv. þm. Ísaf., en ber fram þá ósk, að hæstv. atvmrh. lýsi nú þegar við þessa umr. afstöðu sinni til þessa máls, sem svo er stórvægilegt, að telja má, að afkoma þjóðarinnar velti á því, hvernig það leysist. Lastmæli hv. þm. Ísaf. um starfsemi sölusambands ísl. fiskframleiðenda sýna, að hann ber kaldan hug til þeirrar þörfu stofnunar. Það, sem hann sagði, var bæði rangt með farið og órökstutt. Þetta sannar, að það er rétt til getið hvað snertir þátttöku hans í flutningi þessa frv., að hann ætlar að reyna að koma þessari stofnun fyrir kattarnef.

Þessi þm. sagði, að ég hefði ætlað að skipa þessum málum, þ. e. a. s. saltfisksölunni, með því að stofna ráðgefandi n. Þetta ber þess ljósan vott, að hv. þm. hefir enga hugmynd um hvað hann er að segja í þessu efni. Ég ætlaði ekki að skipa þessum málum með fiskiráðinu. Þvert á móti var ætlazt til þess, að sölusambandið hefði saltfisksöluna með höndum, en svo var fiskiráðinu aftur á móti ætlað að hafa forustu á hendi um breyttar aðferðir í framleiðslu og meðferð fiskjar.

Vil ég svo vona, að hæstv. atvmrh. skýri sína afstöðu til þessa máls.