20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Ég skal með ánægju verða við tilmælum hæstv. atvmrh., að lengja ekki umr. um of.

Mér er nú, eftir að hafa hlustað á ræðu hans, ljósara en áður, hvað fyrir hv. flm. vakir. En ég verð að láta það í ljós, að ræða hæstv. ráðh. hefir ekki létt af mér þeim kvíða, sem flutningur þessa frv. hefir fyllt mig. Ég er enn jafnsannfærður um, að þetta mál getur haft hinar skaðlegustu afleiðingar fyrir fisksölu okkar. Get ég flutt að þessu sterk rök og skal sjá til, að þau komist á framfæri í hv. sjútvn. fyrir tilstilli flokksmanna minna þar.

Fyrsta afleiðing þessara l. verður sú, að fisksölusamlagið verður lagt niður, og verður sennilega upp úr því ekki um annað að ræða en leggja út á einkasölubrautina. Er ég sannfærður um, að hefði frv. ekki verið flutt, þá hefði allt farið fram með góðu móti. Og það verð ég að kalla undarlega hjartveiki hjá hæstv. ráðh., er hann skýtur því til hv. d., að sig hafi brostið kjark til að sitja í ráðh.stóll og eiga ekki stoð í löggjöfinni til að sjá við þeim voða, sem að hans dómi er framundan. Ég er viss um, að hér var ekki neinn voði á ferðum. Ég segi „var“, því að ef þetta frv. nær framgangi, má búast við, að allt raskist í því efni.

Hæstv. ráðh. þurfti engan kvíðboga að bera fyrir því, að eftir áramót myndi leita til hans fjöldinn allur af mönnum með beiðni um að mega selja fisk til Suðurlanda. Hann veit, að fisksölusamlagið hefir nú umboð langsamlega mests hluta fiskframleiðenda til að selja fiskinn. Hann veit líka, að ekki getur verið um að ræða nýjan, húsþurrkaðan fisk fyrr en 3—4 mán. eftir áramót, en ný, sólþurrkuð framleiðsla kemur ekki á markað fyrr en í maí eða júní. Og á vetrarþinginu í febrúar-apríl ætti að vera nægur tími til að skipa þessum málum, ef það sýnir sig, að fiskframleiðendur hafi ekki borið gæfu til að koma þeim í viðunandi horf með frjálsum samtökum, eins og þeir hafa áður gert. Ég ber ekki hæstv. ráðh. á brýn, að hann hafi ekki eftir föngum sett sig inn í þessi mál. Hitt fullyrði ég, að ef hann hefði verið þeim nægilega kunnugur, þá hefði hann talið hyggilegra að láta ekkert uppi um, hvað hann hefði í hyggju í þessum efnum fyrr en búið væri að skera úr því, hvernig framleiðendur sjálfir skipuðu sínum málum. Vitneskjan um, að ráðh. sé þess albúinn að veita þeim sérréttindi, sem taka sig út úr samtökunum, veikir að sjálfsögðu samtökin. Hitt er ég honum sammála um, að girða þarf fyrir, að framleiðendur hópist til að verka meira en hægt er að selja til Spánar og Portúgals. Af því að mér og mínum flokksbræðrum var þetta ljóst, hófumst við handa um að girða fyrir þennan háska. Og hefði fiskiráðið verið lögfest, þá hefði þeim voða verið bægt frá dyrum.

Allt annað, sem ég hefi skrifað upp eftir hæstv. ráðh., snertir einstök atriði í frv., og til þess að vera trúr loforði mínu til hans, skal ég leiða hjá mér að svara því nú.

Því miður verð ég að segja það, að upplýsingar hæstv. ráðh. gáfu mér ekki nýjar vonir í sambandi við þetta mál. Ég er enn sannfærður um, að þetta er ægilegt óhappamál, sem verða mun fisksölusamlaginu að fjörtjóni og leiða til böls fyrir þjóðina.