20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að deila mikið við háttv. þm. G.-K. um það, hve skaðlegt það er, að útflytjendur saltfiskjar keppi hver við annan. Ég er ánægðari en svo yfir því, að hann skuli vera farinn að komast inn á þá skoðun, sem virtist örla fyrir í síðustu ræðu hans. Ég hefi lengi verið að reyna að koma honum inn á hana, en þrátt fyrir það þori ég ekki að fullyrða, að það hafi verið ég, sem hefi fengið hann inn á hana öllu frekar en rás viðburðanna.

Hann sagði, háttv. þm., að það gæti freistað manna, ef útflytjendurnir væru aðeins fáir, og væri því meiri hætta á, að sölusamlagið springi. Setjum nú svo, að ýmsir fiskiframleiðendur vilji ekki vera í fiskisamlaginu, t. d. Kveldúlfur o. fl., á þá að neita þeim um að flytja út sinn fisk? Fyrir þessu má aldrei loka augunum, að sölusamlagið getur tapað sínum viðskiptamönnum. Það má að vísu segja, að sú rannsókn í fiskmarkaðslöndunum muni hvorki sanna neitt né afsanna um það, hvort heppilegt kunni að vera að stofna til einkasölu á saltfiski, en hún getur gefið nokkra vísbendingu um það.

Þá vil ég benda hv. þm. á, að samkv. frv. er það ekki ráðh. að ákveða stofnun einkasölunnar, nema að fengnu samþykki meiri hl. fiskimálan. og ég geri ráð fyrir því, að eftir þeim ákvæðum, sem getið er í frv. um skipun manna í nefndina, þá sé ekki ástæða til að ætla, að meiri hl. þessarar n. verði sérstaklega hvetjandi þess, að ríkisstj. taki einkasölu á saltfiski, nema hún hafi sannfærzt um, að með þeirri skipun fáist betri skilyrði fyrir útflutningi og sölu fiskjarins í markaðslöndunum. Og það er a. m. k. víst, að Alþfl. hefir ekki ráð á meiri hl. í n., ef þau ákvæði, sem nú eru í frv. um nefndarskipunina, verða að lögum.