28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

150. mál, fiskimálanefnd

Bergur Jónsson:

Það er eigi ástæða til þess að hafa langar umr. um þetta, en ég verð að mótmæla þeim orðum hv. 3. þm. Reykv., að það sé brot á þingvenjum að vísa eigi þessu máli til n. Það er þvert á móti brot á þingvenjum að vísa því til n. Ég get nefnt mörg dæmi þess, að mál, sem borin eru fram af n., eru eigi látin ganga til n. aftur. Því að ef meiri hl. n. flytur eitthvert frv., hefir hann athugað það svo og gengið svo frá því, að eigi er ástæða til, að fram komi nál.

Ég skil ekki annað en að menn geti verið ánægðir með þá yfirlýsingu, sem form. sjútvn. hefir gefið hér, að n. taki málið til athugunar og gefi minni hl. n. tækifæri til þess að koma fram með brtt., ef honum þykir þörf á því.

Mér hefir virzt það vera samkomulag hér, að ræða ekki efni frv., en ég verð þó að gera aths. við nokkur ummæli hv. 3. þm. Reykv. um frv. Hann sagði, að frv. væri illa undirbúið, og að í því væri haldið fram sem síðasta neyðarúrræði saltfiskeinkasölu.

Ég efast nú ekki um það, að hv. þm. sé svo glöggur, að honum blandist ekki hugur um það, að í 12. gr. er þessa getið sem ýtrasta neyðarúrræðis. Áður en einkasala kemur til greina verður reynt, hvort félag framleiðenda getur ekki skipulagt fisksöluna. Ég skil þess vegna ekki, hvernig þessi hv. þm., sem er með gleggstu þm., getur haldið því fram, að hér sé um hreina einkasölu að ræða. Hv. þm. veit sjálfur, að þetta er rangt. Það er ekki minnzt á einkasölu fyrr en í 12. gr. og þá með því fororði, að öll önnur sund séu lokuð. Það er því ástæðulaust að deila um það. Hitt má deila um, hvort rétt sé að koma hér á samvinnuskipulagi, eins og frv. ætlast til.

Ég vona svo, að hv. þm. fari ekki aftur að láta prenta í þingtíð, rangsnúninga sína í þessu efni.