28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (3455)

150. mál, fiskimálanefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð. mótmælti því, að það væri rétt hjá mér, að það væri brot á þingvenjum að vísa ekki máli þessu til n.

Ég þekki dæmi þess, að ástæðulaust hefir verið að vísa málum, sem flutt eru af n., til n. aftur, en það stendur sérstaklega á um þetta mál. Það hefir yfirleitt ekki fengið neina meðferð í n.

Hæstv. atvmrh. sagði, að minni hl. n. hefði fengið frest til þess að athuga, hvort þeir vildu gerast flm. frv. með meiri hl. n. Þetta þýðir engan veginn, að málið hafi fengið venjulega meðferð í n., enda er það staðhæft af hv. 6. þm. Reykv., að málið hafi aldrei verið rætt í n. og ekki fengizt rætt þar. Ég álít það brot á þingvenjum að láta slíka meðferð nægja.

Ég vil þá víkja að því, hvað felst í þessu frv., en hv. þm. Barð. taldi, að ekki væri minnzt þar á einkasölu fyrr en í 12. gr., og þá sem ýtrasta neyðarúrræði. Við því er það að segja, að með 5. gr. er þessi löggjöf gerð að einkasölulöggjöf. Því að þó fyrirkomulagið sé þannig, að einstakir útflytjendur séu löggiltir, þá eru hendur þeirra bundnar með 5. gr., þar sem þeir verða að lúta boði og banni fiskimálanefndar og geta ekki gert samninga um sölu nema með leyfi n. og ekki hægt að kaupa af þeim nema með hennar leyfi.

Munurinn á hreinni einkasölu og þessari er aðeins sá, að útflytjendur hafa hér sérstakar skrifstofur. Það, sem breytist, þegar hrein einkasala kemur, er aðeins það, að þessar skrifstofur verða lagðar niður, en einkasalan er hér frá upphafi. Þetta verða hv. flm. að gera sér ljóst, ef þeir eru hræddir við einkasöluna.