28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

150. mál, fiskimálanefnd

Bergur Jónsson:

Ég skal ekki verðu langorður. Ég vil bara benda á það, að það eru sérstaklega mörg mál, sem meiri hl. n. hefir flutt, sem farið hafa gegnum þá d., er þau eru borin fram í, án þess að þeim væri vísað til n. Ég býst við, að þó að þessu frv. verði ekki vísað til n. í þessari hv. d., þá verði því vísað til n. í Ed. Ég get í því sambandi bent á áfengislagafrv., sem er allmerkilegt frv. og umdeilt, en eigi var vísað til n. hér í d., en hinsvegar í Ed. Ég get ekki fallizt á, að málið sé óathugað. Eins og hv. þm. Vestm. mun geta borið um, þá fékk minni hl. nægan tíma til þess að athuga málið áður en það var sett fram og tækifæri til þess að gerast flm. frv. með meiri hl. n. Ég fæ ekki séð, að frv. muni taka neinum bótum, þótt það fari til n. aftur, þar sem meiri hl. n. er flm. þess, en minni hl. hefir þegar gefizt kostur á að athuga það.

Það þýðir ekki að deila um það við hv. 3. þm. Reykv., hvernig þessi l. muni reynast. Hann gekk inn á það, að rétt væri, að einkasalan kæmi aðeins sem ýtrasta neyðarúrræði.

Annars virðumst við hafa mismunandi mikla trú á fiskframleiðendum. Ég er svo bjartsýnn, eða kannske barnalegur, að ég trúi því, að þeir hafi næga skynsemi til þess að ganga undir heilbrigt og gott félagsskipulag. Og ég er m. a. s. svo bjartsýnn, að ég held, að fiskframleiðendur sjálfir muni sjá, hve mikil réttindabót þetta er fyrir þá, og hve miklu heilbrigðari grundvöllur það er til að starfa á.