28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

150. mál, fiskimálanefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er rétt hjá hæstv. forseta, að blandazt hafa saman umr. um þingsköp og málið sjálft, en ég sé ekki hvað hægt er að gera við því, enda umr. um málið sennilega heimilar.

Hv. þm. Barð. er fljótsvarað. Hann sneri hlutunum alveg við, er hann taldi sig hafa meiri trú á framleiðendum en mig. Frv. fer og í þveröfuga átt við þessa trú hv. þm., því að það fer fram á að taka ráðin af fiskútflytjendum. Þeir hafa sitt skipulag, sem þeir, er þetta frv. flytja, virðast enga trú hafa á.

Hv. þm. Barð. talaði um, að þetta frv. væri byggt á samvinnugrundvelli. Flm. þurfa sannarlega að athuga frv. betur. Hver hefir nú talið þeim trú um þessa vitleysu? Í samvinnufél. er það algild regla, að hver aðili sé einráður um sín málefni. Kaupfélög úti um land ráðstafa sínum afurðum hvert fyrir sig, eða hafa a. m. k. rétt til þess að gera það. Kjötinu mun reyndar ráðstafað undir stjórn Sambandsins, en öðrum afurðum ráðstafa fél. sjálf, og innflutningur þeirra er t. d. óháður Sambandinu. Engar slíkar skorður er að finna í þessu frv.

Það má segja um hv. þm. Barð., „að litlu verður Vöggur feginn“, er hann gleðst svo yfir því, að ég skuli viðurkenna, að eigi sé beinum orðum talað um einkasölu fyrr en í 12. gr., því að ég tók það fram, að með 5. gr. væri þetta í raun og veru gert að hreinni einkasölu, þar sem útflytjendur fengju engu að ráða, nema samþ. n. kæmi til. Ég held, að meiri hl. sjútvn. hefði gott af að taka málið til meðferðar í n., þar sem flokkarnir ræddu það ekki aðeins hver fyrir sig, heldur allir flokkar saman. Ég hygg, að ef tækifæri gefst til þessa, þá muni ýmislegt skýrast fyrir meiri hl., sem nú er óljóst fyrir honum.