22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Ég get sagt það sem mína skoðun, að ég álít ekki neitt á móti því að setja löggjöf um hámarksaldur opinberra starfsmanna. En ég vil um leið láta þess getið, að ég get búizt við, að það verði nokkuð dýrt fyrir ríkið að setja hámarkið við 65 ára aldur. Ég fyrir mitt leyti teldi réttara að miða við 70 ára aldur, og þannig mun það vera t. d. í Danmörku. En jafnframt því að setja lög um þetta efni verður að athuga það, að hið opinbera getur ekki látið sig engu varða, hvað verður um þessa starfsmenn, ef þeir víkja úr stöðum sínum 65 ára gamlir, eða jafnvel þó að miðað væri við 71 ára aldur. Embættismönnum hefir verið gert að skyldu að leggja fé í lífeyrissjóð, og er það að vísu gott fyrirkomulag. En það stendur svo á nú, að þessi lífeyrissjóður er ekki búinn að starfa nema svo stuttan tíma, að þeir, sem nú nálgast 65 eða 70 ára markið, fá mjög lítið úr honum og geta því orðið í vandræðum með að sjá sér farborða, ef ekki er séð fyrir þeirri hlið málsins í tíma. Því lægra, sem aldurslágmarkið verður sett, því fleiri verða fyrir barðinu á þessum lögum og því meiri kostnaður ríkissjóðs við að hlaupa undir bagga með þeim. Eftirlaun þessara manna yrðu svo lág, 80—100 kr. á mánuði, að eignalausum mönnum, sem búið hafa við lág laun, yrði ókleift að komast af nema fá einhverja uppbót. Það væri mjög nauðsynlegt að fá upplýsingar um, hve margir eru nú í embætti eldri en 70 ára og hve margir eldri en 65 ára. Ég vænti þess, að n. geti útvegað skýrslur um þetta efni fyrir 2. umr., svo að hægt sé að athuga, hvaða byrðar yrðu þessu samfara fyrir ríkissjóð. Annars held ég, að margir 65 ára menn séu svo ernir, að ekki sé ástæða til að láta þá fara frá starfi, enda skilst mér á frv., að stj. geti látið þá fara, sem orðnir eru 65 ára, en sé skylt að láta sjötuga menn leggja niður störf. Það verður þá undir áliti stj. komið á hverjum tíma, hvort hún lætur þessa menn fara úr embættum sínum. Ef hér sæti óbilgjörn stj. gæti hún rekið þessa menn nær því fyrirvaralaust, svo að þetta 5 ára tímabil væri fremur ótryggt. Ég vildi gjarnan heyra umsögn hæstv. dómsmrh. um það, hvort hann ætlar sér, ef frv. verður samþ., að láta alla, sem orðnir eru 65 ára, fara þegar í stað. Ef hann svarar því játandi, þá er full ástæða til að taka málið til gagngerðrar athugunar, því að þá getur verið, að þessir menn verði að fara fyrirvaralaust um næsta nýár. Það væri lítil nærgætni af því opinbera, ef þessum mönnum, sem flestir eru eignalausir, væri ekki séð fyrir sæmilegum lífeyri, fyrst þeim er bannað að vinna á starfssviði sínu áfram.