22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (3497)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ástæðan fyrir því, að ég varð ekki meðflm. þessa frv., er ekki sú, að ég væri mótfallinn því, að sett væru lög um hámarksaldur embættismanna. Ég álít það alveg réttmætt. Ég gerði það ekki sökum þess, að í frv. er ákvæði, sem ég felli mig ekki við, og auk þess vantar í það ákvæði, sem ég tel nauðsynlegt að hafa.

Ég tel ákvæði frv. um hámarksaldurinn ekki fullnægjandi. Ég álít 65 ára aldurshámark of lágt. Að vísu segi ég ekki, að þess séu engin dæmi, að gamlir embættismenn hafi verið orðnir svo hrumir, að þeir hafi átt bágt með að rækja embætti sín á viðunandi hátt. Hinsvegar er það undantekning, að menn á þessum aldri séu ófærir um að gegna störfum sínum, og þess vegna álít ég, að ef það kemur fyrir, að þeir séu búnir að missa starfsþrek sitt, þá sé hægt að fara aðra leið en þá, að setja lög, sem skylda þá til þess að hætta störfum á þessum aldri. Þess ber að gæta, að á þessu máli eru tvær blíðar. Önnur snýr að þjóðfélaginu, en hin að mönnunum sjálfum.

Það liggur í augum uppi, að það er ekki svo lítill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð að gera það að almennri reglu, að embættismenn láti af störfum 65 ára að aldri. Vitanlega er það ekki meiningin, að ríkið sleppi alveg af þeim hendinni og ætlist til, að þeir sjái fyrir sér sjálfir að öllu leyti. Menn á þessum aldri eru yfirleitt ekki færir um að byrja nýja starfsemi. Þeir eru flestir eignalausir og verða því að leita fátækrahjálpar, ef ríkið hugsar ekkert um þá. Og það er hæpinn vinningur fyrir ríkissjóð.

Hvað þeirri hlið þessa máls viðvíkur, sem snýr að embættismönnunum sjálfum, þá má segja, að flestir séu búnir að koma upp börnum sínum á aldrinum 65—70 ára, en þó eru þess mörg dæmi, að embættismenn á þessum aldri eigi fyrir óuppkomnum börnum og auk þess stórri fjölskyldu að sjá. Af þeim ástæðum er ómögulegt að ætlast til þess, að þeir geti komizt af með það fé, sem gera má ráð fyrir, að þeim sé ætlað úr lífeyrissjóði.

Hæstv. forsrh. benti á það, og vildi telja það hliðstætt ákvæðum þessa frv., að samkv. lögum um hæstarétt væri ráðh. heimilt að láta dómara þar fara úr embætti, þegar þeir eru 65 ára að aldri. En hér ber mikið á milli. Í fyrsta leiga er hér aðeins um heimild að ræða fyrir ráðh., en samkv. frv. eiga allir embættismenn að láta af störfum, þegar þeir hafa náð þessum aldri, nema ráðh. veiti þeim sérstaka undanþágu. Í öðru lagi er svo ákveðið, að dómarar í hæstarétti haldi fullum launum, er þeir láta af embætti. Og loks er á það lítandi, að dómarar í hæstarétti gegna einhverjum allra ábyrgðarmestu stöðum í landinu, og því hefir þótt rétt að gæta hinnar ýtrustu varúðar um það, að starfskraftar séu ekki á nokkurn hátt farnir að þreytast eða sljóvgast áður en þeir láta af embætti. Þó sýnir reynslan, að svo hefir verið litið á, að ekki væri ástæða til að beita þessari heimild að jafnaði, því að ekki mun nema einn dómari í hæstarétti hafa farið úr embætti samkv. henni.

Um bankastarfsmennina stendur einnig sérstaklega á. Þó sjaldnast sé nokkur hætta á, að menn séu farnir að sljóvgast á þessum aldri, eru þeir samt oft farnir að stirðna, en í allri bankastarfsemi er það einmitt hraðinn, sem mest veltur á. Því hefir þetta ákvæði um aldurshámark starfsmannanna verið sett í reglugerð bankans.

Hinsvegar skiptir það litlu máli um allflesta embættismenn, þótt nokkuð dragi úr starfshraða þeirra með aldrinum. Fæstir þeirra eru svo störfum hlaðnir, að þeir geti ekki annað embætti sínu án mjög mikils vinnuhraða.

Ég verð því að líta svo á, að hvort sem litið er á málið frá sjónarmiði embættismannanna eða þjóðfélagsins, sé varhugavert að setja aldurshámarkið svo lágt sem gert er í frv. Ég gæti sætt mig við, að það væri miðað við 70 ár, og gilti þá undantekningarlaust.

Þá þykir mér það og mjög hæpið, að draga bæjar- og sveitarfélög undir ákvæði frv. Í sveitunum eru þeir, sem gegna ábyrgðarmestu störfunum, oddvitarnir, valdir til þeirra starfa með kosningum, og falla því ekki undir ákvæði frv. En að fara að láta þessi ákvæði ná til sáttamanna og stefnuvotta, er a. m. k. alveg meiningarlaust og þarflaust og á því ekki að ná lögfestu. Vildi ég því leggja til, að þetta yrði fellt burt úr frv.

Hinsvegar vantar algerlega í frv. öll ákvæði um það, hversu búið skuli að þessum embættismönnum, eftir að þeir hafa orðið að láta af embætti. Það er ekki einu sinni tekið fram, að þeir skuli njóta eftirlauna úr lífeyrissjóði, sem þó er vafalaust tilætlunin. En eins og hv. 1. þm. Skagf. hefir bent á, yrðu þessi laun úr lífeyrissjóði svo ófullkomin, að menn gætu alls ekki lifað á þeim einum saman. Hann sýndi fram á það, að menn, sem gegnt hefðu embættum áratugum saman, fengju aðeins 80—100 kr. á mánuði úr sjóðnum. Það er því óhjákvæmilegt að setja inn í frv. bráðabirgðaákvæði um eftirlaun þeirra manna, sem láta verða af embætti samkv. ákvæðum frv., þangað til lífeyrissjóður er orðinn þess megnugur að geta innt þessar launagreiðslur af hendi.

Ég hefi þá skýrt frá því, hvað olli því, að ég varð ekki meðflm. að frv. þessu. En ég tel víst, að hv. n. taki það til meðferðar milli umr. og geri á því nauðsynlegar endurbætur.