22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Enginn af þeim, sem hér hafa rætt þetta mál, hefir mælt í gegn því, að rétt sé að setja löggjöf um hámarksaldur embættismanna. En hinsvegar hafa þeir fundið ýmislegt að frv. og bent á ýmsa galla, sem þeir telja að séu á því, bæði frá hagsmunasjónarmiði þjóðfélagsins og einstaklinganna, þ. e. embættismannanna.

Hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. Skagf. töluðu einkum um það, að embættismönnum væri illa séð fyrir eftirlaunum með frv. Það er alveg rétt, að eftirlaun íslenzkra embættismanna eru lág og að illa hefir verið séð fyrir þeim embættismönnum, sem hafa orðið að hverfa frá stöðum sínum sakir elli eða vanheilsu. En þó að við höfum með réttu næma samúðartilfinningu með þessum mönnum, ber þess líka að gæta, að öðrum þegnum þjóðfélagsins, sem margir hverjir hafa unnið alla æfi baki brotnu að alvel jafnnauðsynlegum störfum, er ekki af hálfu þjóðfélagsins séð fyrir neinum launum eða tryggingu í ellinni. En hugsunarhátturinn er nú einu sinni svo, að okkur finnst þetta harðneskjulegri meðferð á embættismönnum en öðrum, þótt svo sé í raun réttri ekki. Þetta er mikið mál, sem þarf að taka til athugunar allt í heild, en ég skal játa, að þörf er á að athuga eftirlaunakjör embættismanna sérstaklega, í sambandi við kjör starfsmanna annara stofnana, t. d. Landsbankans, og þyrfti þá að endurskoða lögin um lífeyrissjóð. En í sambandi við þetta frv. virðist mér þó ekki þörf á að taka til athugunar eftirlaun annara embættismanna en þeirra, sem verða að láta af embætti á aldrinum frá 65—70 ára. Sá, sem verður að fara frá embætti 63 ára, verður á tvennan hátt hart úti. Hann missir embættislaun sín og um leið tækifærið til að vinna sér rétt til hærri eftirlauna. Það væri því rétt, að þessum mönnum væri á einhvern hátt ívilnað með sérstökum ákvæðum. Það gæti líka orðið aðhald fyrir ráðh. um að neita ekki um undanþágur að óþörfu, ef hann vissi, að með því væri ríkissjóði sköpuð útgjöld í hærri eftirlaunum en annars tíðkast.

Þeim hv. þm., sem voru að finna að frv., þótti einnig aldurstakmarkið vera ákveðið of lágt og hölluðust að því, að það yrði 70 ár. Þeir sögðu, að það færi alveg eftir duttlungum ráðherra, hvort eða hvenær embættismaður væri látinn fara frá á þessu 5 ára tímabili, frá 65 árum til 70 ára. Þetta kann að vera rétt að nokkru leyti, en þess er að gæta, að ekki er hægt að setja svo almennar reglur, að ekki geti komið fyrir, að þær geti komið hart niður á einstökum mönnum. Því verður hér að miða við það aldurstakmark sem reynslan hefir sýnt, að bezt á við. Ef aldurstakmarkið er bundið við 70 ár, er það sama og að gefa undir fótinn um það, að menn geti setið í embættum eftir að þeir eru orðnir óhæfir.

Annars er það svo, að hægt er að láta svo að segja alla embættismenn fara úr embættum sínum á hvaða tíma sem er, án sérstakrar lagalegrar ábyrgðar fyrir ráðh. Sannleikurinn er sá, að réttur embættismanna til æfilangra embætta er ekki til í íslenzkri löggjöf. (MJ: Er þetta ekki ótímabundinn samningur?). En ef ráðh. færi að beita valdi sínu á þann hátt, væri auðvitað stefnt í fullkomnar ógöngur. Með þessu frv. er embættismönnum einmitt gefin trygging fyrir því, þótt óbein sé, að þeir eigi rétt til embætta sinna, ef þeir hafa rækt þau vel og samvizkusamlega, fram til þess aldurshámarks, sem lögin ákveða. Hvort þeir eru látnir fara frá á þessu 5 ára bili, frá 60 árum til 70 ára, er því engu fremur háð duttlungum ráðh. heldur en þeir eru nú alla sína embættistíð, undir hverri óhlutvandri stjórn, án annara afleiðinga en þeirra fyrir hana, að embættismaðurinn fær laun sín samkv. uppsagnarfresti.

Í stjskr. er ákveðið, að dómara í hæstarétti megi láta fara úr embætti, er þeir hafa náð 65 ára aldri. Þar með er viðurkennt, að embættismönnum sé farið að förlast, þegar þeir hafa náð þessum aldri. Ég get alls ekki fallizt á þá skoðun, að dómarar í hæstarétti hafi vandasömust störf allra embættismanna. Dómarar í undirrétti, sem auk rannsókna í málum hafa ýms önnur störf á hendi, hafa að mínu áliti fullkomlega eins vandasöm störf. Annars er ekki hægt að gera stigmun á mikilvægum störfum í þágu þjóðfélagsins.

Sama er að segja um bankastarfsmennina. Hv. 2. þm. Rang. vildi telja, að ákvæðið um hámarksaldur þeirra kæmi af því, að vinnuhraði væri svo mikill í bönkunum, að þeir gætu ekki unnið nógu hratt, er þeir væru komnar á þennan aldur. Það er rétt, að hraði við vinnu er hvarvetna að aukast, en ekki fremur í bönkunum en annarsstaðar. Og þeir tveir starfsmenn, sem látið hafa af embætti samkv. þessum ákvæðum, hafa einmitt báðir verið í bókfærsludeild bankans, þar sem engum afgreiðsluhraða er til að dreifa. Ályktun mín út af aldursmarkinu í Landsbankanum og hæstarétti er því alveg rétt.

Þá var talað um það, að rétt væri að taka starfsmenn sveitarfélaga undan ákvæðum laganna. Ég tel það litlu máli skipta, hvort það verður gert eða ekki, og legg því ekkert kapp á það atriði.

Ég tel því rétt, að halda 65 ára hámarkinu, en bæta hinsvegar þeim, sem láta af embættum samkv. ákvæðum laganna milli 65 og 70 ára, það upp með nokkru ríflegri eftirlaunum en annars tíðkast. Eftir að menn eru komnir yfir sjötugt, tel ég ekki ástæðu til að víkja frá því fyrirkomulagi um eftirlaun, sem nú gildir, en hinsvegar teldi ég rétt að taka lögin um lífeyrissjóð til athugunar.