22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Ég efast um, að lögin um lífeyrissjóð þurfi endurskoðunar við um annað en það, hvort hann þoli skellinn af því, að þetta frv. verði að lögum. En ef auka á greiðslur úr honum, er auðvitað með öllu rangt, að þeir fái meira úr honum, er skemur hafa lagt í hann, en hinir, sem meira hafa lagt fram eins og hæstv. forsrh. virtist leggja til.

Það er auðsætt, að aldursmarkið 65 ár er of lágt, enda eru margir í fullu fjöri á þeim aldri, og ef þessir menn eiga ekki að fá neitt í elli sinni nema styrk úr lífeyrissjóði, sem enn er ekki nema 13—14 ára og því tiltölulega smávaxinn ennþá, þá er illa frá þessu máli gengið.

Hæstv. forsrh. sagði áðan, að frv. ætti ekki að ná til þeirra, sem kosnir væru, og væri slíkt í samræmi við lýðræðisreglur. En hvernig er það þá um prestana? Á frv. ekki að ná til þeirra?

Það er rétt, að starfsmenn Landsbankans láta af störfum 65 ára gamlir. En halda þeir ekki margir fullum launum á eftir og hinir háum eftirlaunum? Og hvernig eru laun þeirra í samanburði við laun embættismanna ríkisins á meðan þeir starfa?

Ég skal ekki fara að meta gildi embætta. Það má vel vera, að einhver önnur embætti séu eins mikilvæg og embætti dómara í hæstarétti. En það er sá munur á ákvæðum stjskr. um hæstaréttardómara og ákvæðum frv., að dómara í hæstarétti má láta fara úr embætti, en samkv. frv. eiga allir embættismenn að fara úr embætti á þessum aldri, nema ráðh. veiti sérstaka undanþágu. Auk þess er dómurum í hæstarétti tryggð sérstaklega góð elli með fullum launum. Svo skildist mér hæstv. ráðherra halda því fram, að embættismenn, sem komnir eru á þennan aldur, væru ekki háðir duttlungum viðkomandi ráðh., ef frv. yrði samþ. En þar er ég á öðru máli. Ef frv. verður samþ. eins og það er, þá á hver maður, sem er í embætti og er orðinn 65 ára, undir högg að sækja til hlutaðeigandi ráðh. um það, hvort hann fær að vera í embættinu áfram. Hvort orða má það þannig, að hann sé háður duttlungum ráðh., læt ég liggja á milli hluta, en það er á valdi ráðh., hvort hann verður áfram í embættinu eða ekki, því að í frv. stendur ekkert annað en það, að starfsmenn, „sem þykja til þess nógu ernir til líkama og sálar, séu látnir halda störfum sinum þar til þeir eru fullra 70 ára.“ Það á að fara eftir því, hvað viðkomandi ráðh. þykir vera. Það er skýrt og greinilegt. Ef hér ætti að vera einhver annar dómari heldur en pólitískur ráðh., þá liti málið öðruvísi út, því að þá gæti maður búizt við, að rannsakað yrði í hverju tilfelli óhlutdrægt, hvort viðkomandi embættismaður sé hæfur til að gegna sinn embætti áfram eða ekki. En það er ekki hægt að búast við því af öllum ráðh. a. m. k., að þeir rannsaki það óhlutdrægt. Svo af þessum sökum getur reglan um það, hvenær mönnum er vikið úr embætti orðið mismunandi, eftir því, hvaða stjórn situr, og meira að segja getur komið fyrir, að ráðherrar í sama ráðuneyti fylgi mismunandi reglum.

Ég get ekki gengið inn á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að embætti séu ekki æfistarf. Að sönnu er það rétt, að það er hvergi tekið fram í lögum neitt um þetta beinlínis, en það er helguð sú regla með aldagamalli venju, að embætti séu lífstíðarstarf. Það hafa ekki fallið dómar um það, svo mér sé kunnugt, en þessi venja er ákaflega gömul, og það hefir verið lítið svo á, að þeim embættismanni, sem vel hefir staðið í stöðu sinni, sé rangt að víkja frá. Það er vitaskuld ekki rétt, sem hæstv. ráðh. gaf í skyn, að embættismaður, sem ekki stendur sæmilega í stöðu sinni, af hvaða ástæðum sem er, verði ekki að fara frá hvenær sem er. (Forsrh.: Ég sagði aldrei neitt í þessa átt). Þá hefir hæstv. ráðh. talað svo ógreinilega, að ekki hefir verið hægt að skilja hann, því að hann hélt því fram öðrum þræði, að embættismenn væri hægt að láta fara hvenær sem ráðh. vildi, en á hinn bóginn að þeir ættu ekki að fara fyrr en aldurstakmarkið væri komið.

Hvað snertir þessa undantekningu um þm. og ráðh. er ég ekki viss um við hvað mikil rök hún hefir að styðjast. Ég skil ekki, að þm. og ráðh. megi vera hálfærir af elli frekar en embættismenn. Og ef það er nauðsynlegt vegna ríkisins að ákveða aldurshámark embættismanna 65 ár, þá finnst mér það líka nauðsynlegt um þm. og ráðh., sérstaklega þó ráðh.

Hæstv. ráðh. nefndi, að ekki væri hægt að setja reglur, sem hittu nákvæmlega á það rétta. Það kann vel að vera. En það er fjarri því að vera nákvæmlega rétt, þegar aldurstakmarkið er sett við 65 ára aldur, af því að margir menn eru svo hraustir andlega og líkamlega 65 ára, að þeir geta vel gegnt embætti, og hvers vegna á þá að lögbjóða, að þeir láti af embætti á þeim aldri?

Hæstv. ráðh. nefndi, að verkamenn hefðu enga tryggingu fyrir að hafa vinnu áfram eftir 65 ára aldur. En það er ekki rétt, því að ýmsir verkamenn hafa það, vegna þess að vinnuveitendur telja slíkt skyldu, og auk þess er nú verið að undirbúa tryggingar fyrir verkafólkið þessu viðvíkjandi.

En hvar sem aldurstakmarkið er sett, þá eru ákvæði frv. ósanngjörn að því er snertir embættismenn, sem eiga að fara frá nú þegar. Það er engin sanngirni að ætlast til þess, að þeir embættismenn, sem hafa búizt við að vera eitthvað áfram í sinu embætti, fái ekki einhvern frest til þess að undirbúa sig undir þá breyttu lifnaðarháttu, sem þeir verða að búa við, fari þeir úr embætti. Segjum t. d., að maður hefir ráðið sér húsnæði eftir þeim embættistekjum, sem hann hefir, en svo á hann að fara frá 1. janúar næstkomandi, en hann getur ekki losnað við húsnæðið fyrr en í vor. Það verður að sýna þessum manni einhverja sanngirni, hann verður að fá frest til þess að undirbúa sig, hann má ekki vera verr settur en vinnukona, sem ekki e, skyldug að fara úr vistinni hvenær sem er.

Ég vil ennfremur undirstrika, að ég vil, að það komi fram skýrslur um það, hvað margir þessir menn eru, svo hægt sé að mynda sér skoðun um, hvað mikið fé þurfi til þess að bæta þessum mönnum til. Og ennfremur til ég fá skýrslur um það, hvað mikið þessir menn eiga að fá úr lífeyrissjóði og í eftirlaun, svo hægt sé að mynda sér skoðun um, hvaða fjárhagsleg áhrif þetta mál kann að hafa. Það er alls ekki mikið verk að búa til þessar skýrslur, það getur fjármálaráðuneytið gert á fáum dögum.

Ég skal ekki ræða mikið um þá pólitísku hlutdrægni, sem mætti beita í þessu efni, en til munu þær stjórnir, og dettur mér ekki í hug að undanskilja hæstv. núv. stjórn, sem kannske mundi þykja gott að fá tækifæri til þess að veita fjölda embætta í einn.

Því er náttúrlega ekki að neita, að ýmsir embættismenn eru smeykir við þetta frv., þar sem þeirra líkamlega velferð getur verið undir meðferð þessa máls komin, það er alls ekki undarlegt, þó að þeir séu dálítið hikandi og hræddir, þegar mál eins og þetta kemur hér fram.

Ég skildi ekki, hvað hæstv. ráðh. átti við, þegar hann var að tala um, að sumir embættismenn væru komnir af lögaldri sakamanna. Ég þekki það ekki eftir okkar löggjöf, að nokkurt aldurshámark sé til, sem losi menn algerlega við refsingu. Slíkt á sér ekki stað fyrir aldurinn einan. Ég kalla þetta því ekki nein rök í málinu.

Það er sagt í grg. fyrir þessu frv., að það sé í ýmsum löndum ákveðið 65 ára aldurshámark. Ég vildi fá að vita, í hvaða löndum það er. Ég þekki til í tveimur nágrannalöndum okkar, þar sem aldurshámarkið er ekki ákveðið undir 70 ára aldri. Í Danmörku er aldurshámarkið yfirleitt miðað við 70 ár, og það er algengt, að menn séu lengur í embætti, og í Englandi er gagnvart sumum embættismönnum ekkert aldurshámark. Í Danmörku þekki ég t. d. hæstaréttardómara, sem hafa gegnt embætti til 80 ára aldurs. En 65 ára aldurshámarkið þekki ég ekki sem aðalreglu hjá neinu ríki, og vildi ég gjarnan fá að heyra, í hvaða ríkjum það er.