18.12.1934
Sameinað þing: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

1. mál, fjárlög 1935

Guðrún Lárusdóttir:

Það er ekki rétt að teygja tíma þingsins með aðgerðarleysi og þögn, og ég mun ekki hafa þetta mál mitt svo langt, að mér dugi ekki sú stund, sem eftir er af þessum fundi. En ekki er það uppörvandi að flytja ræðu nú á miðnætti, þegar margir hv. þm. eru gengnir af fundi. Ég mun samt fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem ég á við fjárlagafrv. að þessu sinni.

Það er þá fyrst brtt. mín við 14. gr., að þar bætist við nýr liður: 500 kr. styrkur til Helgu Thorlacius, til þess að kenna matreiðslu úr íslenzku grænmeti. Menn hafa komizt upp á það hér á landi á síðari árum að nota grænmeti meira til fæðu en áður tíðkaðist, og hefir garðrækt farið mjög vaxandi, bæði í kringum Reykjavík og úti um land. Fleiri og fleiri komast að þeirri skynsamlegu niðurstöðu, að „fleira sé matur en feitt kjöt“. Ennþá kemur þó þessi skoðun mönnum ekki að verulegum notum, þar sem mjög skortir á þekkingu húsmæðra til að matbúa grænmeti á margvíslegan og ljúffengan hátt. Þessi kona, Helga Thorlacius, hefir stuðlað mjög að því að auka þekkinguna á meðferð grænmetis. Hún hefir haldið nokkur námsskeið, en að þeim hafa ekki nema fáar konur komizt; ennfremur hefir hún haft nokkrar konur í aukatímum. Að þessi kennsla hefir ekki náð víðar, stafar af því, að konan er fátæk, og getur því ekki staðið straum af stórum námsskeiðum. En hún hefir nú aflað sér svo mikillar þekkingar á þessu sviði, að engin önnur íslenzk kona mun standa henni þar jafnfætis. Ýmsir hafa átt kost á því að athuga þetta af eigin reynd. T. d. var það einn liður í „íslenzku vikunni“, þegar hún var haldin hér fyrst, að mönnum var sýndur og boðinn matur, sem Helga Thorlacius hafði framreitt, allt úr íslenzkum efnum. Ég minnist þess, að bæði blaðamenn og aðrir málsmetandi menn, sem smökkuðu þá þessa rétti, töldu það hreinustu galdra, hvernig hægt hefði verið að matbúa þessa ljúffengu fæðu úr íslenzku grænmeti aðallega, fjallagrösum, sölum, hvönnum, njóla o. s. frv. Síðan hefir frk. Helga gengizt fyrir námsskeiðum í smáum stíl eins og áður er sagt. Ég teldi það mikinn skaða fyrir íslenzku þjóðina, ef hún færi á mis við það, að geta orðið þátttakandi í þekkingu þessarar konu. Ég skal geta þess, að Helga Thorlacius byggir matreiðslu sína ekki hvað sízt á grasafræði Eggerts Ólafssonar. Hún hefir sagt mér það eftir frönskum matreiðslumanni, sem kynnt hafði sér efnið í grasafræðibók Eggerts Ólafssonar, að Eggert væri einmitt orðinn hámóðins núna, með samsetningu sína á jurtaréttum, — það sem hann prédikaði þar fyrir löndum sínum, væri einmitt nú að komast í tízku. Helga Thorlacius hefir einkum lagt stund á notkun íslenzkra grasa; ég vil t. d. benda á eitt atriði, sem ég hygg, að sé algert nýmæli. Hún hefir búið til konfekt úr íslenzkum fjallagrösum. Ég hefi bragðað þetta konfekt, og það er verulega gott; hún hefir líka sent ýmsum það hér í bæ til athugunar, og kemur öllum saman um, að hér sé um merkilega nýjung að ræða. Heilnæmi fjallagrasa er nú almennt viðurkennt, og væri ekki ónýtt, ef tækist að matbúa þau svo, að börnin okkar borðuðu þau með góðri lyst. En sjálf eru grösin römm og fremur óaðgengileg. Frk. Helga hefir líka búið til fleiri slíka rétti úr fjallagrösum, t. d. ágætt marmelaðe, sem stendur fyllilega á sporði því erlenda, sem búið er til úr appelsínuberki. Þá hefir henni og tekizt að búa til ágæta rétti úr njóla, en sú jurt vex, sem kunnugt er, í kringum flesta bæi á landinu. Sennilega mætti nota njóla í stað kartaflna fyrri hluta sumars. Eftir því sem þeir Eggert Ólafsson og Oddur Hjaltalín lýsa njólanum, þá er þar ekki um óverulega matjurt að ræða. — Áhugi Helgu Thorlacius fyrir þessum efnum er því lofsverðari, sem hún hefir átt við mikla erfiðleika að stríða; fyrir nokkru síðan fékk hún aðkenning af heilablóðfalli. Ég væri ekki að taka þetta fram, ef ég vildi ekki koma því að, að þegar hún komst á fætur aftur, nærðist hún nær eingöngu á jurtaréttum sínum, og ég er sannfærð um, að það hefir ekki sízt hjálpað henni til að ná styrk og heilsu sinni aftur. Það er því ekki sagt út í bláinn, að kona þessi ætti skilið að fá lítinn styrk frá því opinbera; ég teldi það blátt áfram raunalegt, ef þjóðin gæti ekki hagnazt af reynslu hennar og þekkingu í þessum efnum. En til frekari stuðnings máli mínu ætla ég (með leyfi hæstv. forseta) að lesa upp ummæli tveggja merkra lækna um þessa viðleitni hennar. Dr. Gunnlaugur Claessen lætur svo um mælt í sambandi við brtt. mína um 500 kr. styrk til frk. Helgu:

„Í tilefni af umsókn ungfrú Helgu Thorlacius um opinberan fjárstyrk til áframhaldandi leiðbeininga um hagnýting matjurta, leyfi ég mér að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að starfsemi ungfrú Th. á þessu sviði sé mjög gagnleg. Fyrir áeggjan hennar og fræðslu munu margar húsmæður hér á landi læra að matbúa íslenzkar matjurtir, sem annars hafa verið lítið notaðar. En vafalaust hefir hagnýting þessarar jurtafæðu mikið gildi fyrir heilbrigði almennings. Ég vil því leyfa mér að mæla hið bezta með umsókn ungfrú H. Thorlacius“.

(Sign.) Gunnl. Claessen. Annar læknir, Þórður Edilonsson, lætur svo um mælt um jurtarétti frk. Helgu:

„Frk. Helga Thorlacius hefir haldið hér námsskeið í tilbúningi matar úr íslenzku grænmeti, fjallagrösum og sölum.

Við vorum boðnir á námsskeiðið nokkrir menn, til þess að bragða matinn. Mér var sérstaklega forvitni á að bragða á réttum úr fjallagrösum og sölum. Mér til mikillar undrunar og gleði var þetta ágætur matur, samboðinn hverju veizluborði. Aðrir réttir, sem fram voru bornir, tilbúnir úr íslenzku grænmeti, voru einnig góðir.

Það er virðingarvert að vekja áhuga almennings fyrir matreiðslu úr íslenzku grænmeti; það hefir verið of lítið notað að undanförnu. Þessi kona á miklar þakkir skildar fyrir áhuga sinn á þessum málum, og væri æskilegt, að konur notuðu sér almennt slík námsskeið. Væri vel til fallið, að hún fengi einhvern styrk frá hinu opinbera til þess að kenna almenningi að notfæra sér gæði landsins á þessum sviðum“.

(Sign.) Þ. Edilonsson.

Sem sagt, frk. Helga er öll af vilja gerð til að fræða fólkið um þessar aðferðir sínar, og þar stendur ekki á öðru en fjárskorti. Ég vona því, að Alþ. sjái sér fært að verða við beiðni hennar um þennan litla styrk. Og ég er sannfærð um, að þessi litla upphæð kæmi aftur með margföldum rentum, þó ekki væri nema með því móti, að hægt yrði að kenna þjóðinni að notfæra sér fjallagrös.

Ég á aðra brtt. á sama þskj., 815, við 18. gr., og er um skáldalaun Einars H. Kvarans, að þau hækki um 2000 kr. Ég þarf ekki að lýsa þessum manni, allir Íslendingar þekkja hann og hafa haft ánægju og glaðningu að lestri rita hans. Og óhætt er að fullyrða, að hann hefir aldrei boðið þjóð sinni annað í ritum sínum en það, sem fagurt er og göfgandi. Nú stendur svo á; að hann hefir nýlega átt 75 ára afmæli, og hefir nú yfir að líta hálfrar aldar rithöfundarskeið, og allan þann tíma hefir hann verið trúr list sinni, aldrei hætt að vanda sig. Mér fyndist því vel til fallið, að honum væri sýnd þessi viðurkenning á þessum tímamótum æfi hans. Ég er sannfærð um, að Einar H. Kvaran á engan óvin með íslenzku þjóðinni, og varla sé hægt að benda á vinsælli mann en hann. Mér finnst ekki sæma að láta hann sitja skör lægra en unga manninn, Halldór Kiljan Laxness, sem á nú að veita 5000 kr. rithöfundarlaun. Annars ætla ég mér ekki að bera þessi skáld saman, svo mikið djúp er staðfest milli þeirra, bæði í þroska og frágangi verka sinna. Þó tel ég mér skylt að játa, að Halldór Laxness er að lagast. Þó get ég ekki stillt mig um að bera saman það síðasta, sem þessir rithöfundar hafa sýnt þjóð sinni á leiksviði. Ekki alls fyrir löngu var sýnt hér í leikhúsinu leikrit Halldórs Laxness, Straumrof, og fyrir ári síðan áttum við kost á að sjá leikrit eftir Einar H. Kvaran, Hallstein og Dóru, og Jósafat. Í þessum leikritum eru leiddar fram mæður, og beri menn saman mynd mæðranna, sem Einar H. Kvaran sýnir okkur, og mynd móðurinnar, sem Halldór Kiljan Laxness hefir fram að bera, þá held ég, að öllum verði ljóst, hvílíkt djúp er staðfest milli þessara tveggja skálda. Bak við þessar myndir tel ég, að liggi skilningur skáldsins á móðurhugtakinu, og lotning þeirri og virðingu, sem við höfum talið okkur skylt að sýna því. Og ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það, hvor skáldanna ristir dýpra í skilningi á móðureðlinu eða auðsýnir því meiri lotningu. Og ég skora á hið háa Alþ. að rétta nú okkar aldurhnigna skáldi Einari Kvaran þessa viðbót við skáldalaun hans á 75 ára afmælinu, sem vott þess, að við séum ekki búin að gleyma öllum þeim ánægjustundum, sem hann hefir veitt okkur með snilld sinni fyrr og síðar.

Þá hefi ég flutt brtt. við styrkinn til Kvenfélagasambands Íslands. Ég gat þess við 2 umr., að ég teldi þörf á, að sá styrkur yrði hækkaður. Í síðustu fjárl. var þessi styrkur 1200 kr., en nú hefir hann verið færður niður í 1000 kr. Ég skil ekki, hvernig á þessu stendur, þar sem aðrir styrkir til kvenfélagasambanda hafa verið látnir óskertir. Kvenfélög eru mörg í landinu, víst 110 alls, og starfsemi þeirra er mjög merkileg. Innan Kvenfélagasambands Íslands eru allmargar smærri deildir, sem njóta styrks frá sambandinu, en minnki tillagið, sem sambandið fær, getur það auðvitað ekki rétt deildum sínum hjálparhönd eftir sem áður. Ég vil því skora á hv. þm.samþ. brtt. mína um hækkun á þessum styrk úr 1000 kr. upp í 1500 kr.

Við 18. gr. á ég litla brtt., um 300 kr. styrk til aldraðs vegavinnustjóra, sem lengi hefir unnið að vegavinnu. Ég hefi hugsað mér að taka þá till. aftur, þar sem ég hefi heyrt, að þeim styrk verði öðruvísi hagað og öruggt sé, að þessi maður fái styrk.

Ég get þá látið máli mínu lokið að sinni, en bið hv. þm. að skoða huga sinn vel áður en þeir greiða atkv. gegn þessum smástyrk til frk. Helgu Thorlacius, sem ég fer fram á, og einnig um viðurkenninguna til hins aldraða þjóðskálds Einars H. Kvarans.