22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2604 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Það, sem ég sagði um núv. hæstv. stj., var það, að ég vildi ekki undanþiggja hana hlutdrægni, og af því varð hæstv. forsrh. svo reiður sem raun varð á. Þetta hefir stungið hann svona illa, rétt eins og ég hafi komið við holgrafið kýli. Út af því fór hæstv. forsrh. að tala um mínar embættaveitingar og að ég hefði verið hlutdrægur í því efni.

Viðvíkjandi því, að bæjarfógetaembættinu á Ísafirði var ekki slegið upp, er það að segja, að því embætti hafði verið slegið upp fáum mánuðum áður, því að það losnaði fáum mánuðum eftir að það var veitt. Þetta var ástæðan til þess, að því var ekki slegið upp aftur.

Ég viðurkenni alls ekki, að ráðh. hafi rétt til þess að setja hvern embættismann frá embætti sínu hvenær sem er, fyrir engar sakir. Það er algerlega óleyfilegt. Jafnvel þó að ekki séu til bein lagáákvæði, sem tryggi embættismenn gegn þessu, þá er það af öllum talið algerlega rangt, og það kemur í bága við reglur, sem fylgt hefir verið hér á landi um aldir. Þess vegna er það algerlega villandi, þegar hæstv. ráðh. heldur því fram, að með því að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði engu breytt frá því, sem nú er, því að ráðh. hafi hvort sem er rétt til að setja menn frá embættum. Ef frv. breytti ekkert afstöðu embættismanna gagnvart ríkisvaldinu, þá væri það líka algerlega óþarft.

Ég nefndi presta í minni ræðu, af því að um veitingu embætta þeirra hefir hér á landi verið farið eftir lýðræðisreglum, þannig, að þeim hefir verið veitt embættið, sem flest atkv. hefir hlotið við kosningu í söfnuðum. Verði frv. samþ., þá á, skilst mér, að láta presta fara frá embættum sínum, jafnvel þó að söfnuðir kynnu að vilja hafa þá áfram, þegar þeir eru búnir að ná vissum aldri. Frv. fer því alveg í bága við það, sem hæstv. forsrh. sagði vera tilgang þess.

Um lífeyrissjóð embættismanna er það að segja, að ef á að fara inn á þá leið að láta þá menn, sem við þessi 1. missa embætti sín fyrr en annars mundi vera, fá nægilegt fé úr lífeyrissjóði, án tillits til þess, hvort sjóðurinn stenzt það eða ekki, þá má þeim vera sama, en öðrum embættismönnum ekki, því þeir eiga sjóðinn. Þeir hafa tekið af sínum launum, eftir lagaboði, til þess að mynda þennan sjóð, sem nú er orðinn um 1 millj. kr. Sjóðurinn er eingöngu myndaður á þennan hátt, að því undanteknu, að ríkið hefir lagt fram 50 þús. kr., sem það gaf sjóðnum í byrjun. Að fara svo að skerða þennan sjóð með sérstöku lagaboði, fram yfir það, sem samþykktir sjóðsins ákveða, er algerlega óheimilt.