08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Ég verð nú að taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að ég veit ekki vel, hvað átt er við með því, þegar talað er um „minni háttar sýslunarmenn“, eins og gert er í brtt. á þskj. 717. Nú á dögum er, að ég held, allmikið hætt að gera greinarmun á mönnum, eftir því, hvað embættin, sem þeir hafa, eru göfug, og kalla þá „meiri háttar“ og „minni háttar“ embættismenn. Eftir þessari brtt. að dæma, þá virðist það vera meginreglan, að minni háttar sýslunarmenn séu undanþegnir þessum l., og aukaatriði, að starfið sé ekki aðalstarf. Mér virðist réttara, að þetta ákvæði sé eingöngu bundið við það, að starf þeirra sé ekki aðalstarf. Það er líka alveg nægilegt, að l. nái til þeirra starfsmanna ríkisins, sem hafa sýslanina að aðalstarfi, en ekki til hinna, sem hafa hana sem aukastarf. En t. d. störf eins og að vera bréfhirðingamaður eða stöðvarstjóri í sveit eru alveg bundin við það, að vera húsbóndi á ákveðnu heimili, og a. m. k. hvað símann snertir, þá er það starf, sem ákveðinn maður verður að hafa með höndum, hvað gamall sem hann verður, og ef hann verður ófær til þess að gegna því sjálfur, þá verður hann að láta annan á heimilinu gera það.

Það er gert ráð fyrir því, að þetta eigi líka við hreppstjórana. Það eru svo margir ágætir heiðursmenn hreppstjórar, að ég kann ómögulega við að kalla þá „minni háttar“ starfsmenn. Það er ekkert minni háttar starf, sem þeir hafa. (MG: Kannske n. vilji þá kalla þá meiri háttar starfsmenn?). Ég veit ekki, hvað n. álítur um það, en ég vil, að þessu athuguðu, leyfa mér að bera fram brtt. við brtt. hv. n., þannig, að l. nái þá ekki til þeirra sýslunarmanna ríkisins, sem ekki hafa sýslanina að aðalstarfi, og leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. um það atriði.