08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (3520)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það var verið að beina því til hv. allshn. og mín, að það væri óviðkunnanlegt orðalag á brtt. þeirri, sem n. hefir borið fram við frv. þetta, að kalla suma starfsmenn ríkisins minni háttar sýslunarmenn. Ég vil nú benda hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. Eyf., sem eru svona móðgaðir fyrir hönd hreppstjóranna, á það, að þeir verða þá að fá breytt líka 101. gr. hegningarl., því að þetta er vitanlega jafnmóðgandi í henni eins og í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þessa gr. upp:

„Sýni maður sig í nokkurri þesskonar mótgerð, sem vikið er að í 99. gr., við minni háttar réttarþjóna, eða lögregluþjóna, tollþjóna, hreppstjóra, stefnuvotta eða þess háttar sýslunarmenn hins opinbera,“ o. s. frv.

Þetta býst ég við, að n. hafi haft til hliðsjónar, þegar hún var að skilgreina, við hvað hún átti. Það hefir ekki hingað til verið talið særandi fyrir hreppstjórana, þó að þetta orðalag væri notað um starf þeirra. Vitanlega er átt við það, með því að tala um minni háttar sýslanir, að sú sýslan, sem maðurinn hefir með höndum, er umfangsminna starf en önnur störf kunna að vera, en ekki það, að fara í manngreinarálit eftir því, hve virðuleg staðan er, sem maðurinn hefir með höndum. Ég býst við, að n. hafi skilgreint þetta alveg rétt, því að það hefir alltaf verið átt við þetta með þessari skilgreiningu í hegningarl.