08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Mér fannst það nú satt að segja koma úr hörðustu átt, þegar hæstv. forsrh. var að varpa sökum á mig út af því, að ekki hafi verið gerðar nauðsynlegar breyt. á frv. hér í d. (Forsrh.: Þetta er rangt með farið). Hæstv. forsrh. talaði um það, að ekki hefðu komið fram till. um nauðsynlegar lagfæringar á frv., og að mér hefði verið boðin samvinna um þetta mál í n., og ég hefði ekki þegið hana. Ég skal játa það, að þó að leitt sé, þá hefi ég ekki getað rækt störfin í allshn. eins vel og skyldi upp á síðkastið. því að það vildi svo til, að einn bankastjóri Búnaðarbankans veiktist, og ég hefi orðið að vera til viðtals í bankanum á þeim tíma, sem n. kemur saman á. Það kom ósk um, að ég kæmi með brtt. eða léti í ljós, á hvern hátt ég teldi bezt séð fyrir lífeyri handa embættismönnum. Ég segi eins og er, að ég var ekki við því búinn þá, og ég hélt líka, að heppilegra væri, að slík till. kæmi úr annari átt. Það er jafnan viðkvæðið hér, þegar minni hl. kemur með till., sem hafa einhver útgjöld í för með sér, að hann verði þá að sjá um öflun tekna á móti. Virðist því eðlilegast, þar sem stj. stendur að þessu máli, að till. um þetta atriði komi frá henni eða meiri hl. n. Hinsvegar skal ég játa, að það getur verið, að ég hefði reynt að bera fram till. um þetta, ef mér hefði ekki skilizt frá öndverðu, að málið ætti ekki að ganga fram fyrr en á næsta þingi. Mér hefir verið gefið það í skyn og mér hefir fundizt það einhvernveginn liggja í loftinu, enda hefir verið hægagangur á málinu. Ég verð líka að segja, að ég álít heppilegra að láta málið bíða næsta þings, sem væntanlega kemur saman eftir þrjá mánuði, heldur en að hraða því af lítt undirbúnu. Það hefir verið bent á hér áður, að allmikinn kostnað mundi af því leiða að lækka embættisaldur embættismanna niður í 65 ár, því að óhjákvæmilegt væri að láta þessa menn njóta einhvers lífeyris eftir að þeir fara úr embættum sínum. En um það munu vera skiptar skoðanir, hvernig því skuli fyrir komið. Ég var að hugsa um að bera fram rökst. dagskrá í þessu máli, en það er nú orðin venja stjórnarflokkana í þessari hv. d. að standa saman um að drepa allar till. frá okkur sjálfstæðismönnum, jafnvel þó að ekki sé nema um lítilfjörlega lagfæringu að ræða og að því er virðist án tillits til þess, hvort verið er að gera rétt eða rangt, svo að ég vil ekki vera að tefja deildina með því að bera hana fram.