08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Rang. var að tala um, að eðlilegra væri, að brtt. við frv. kæmu úr annari átt en frá minni hl. n. Ég verð að segja, að mér finnst hitt eðlilegra, að brtt. komi frá þeim, sem eru óánægðir með frv. Annars hefi ég lýst því yfir áður, að þó að ég telji aðalatriði frv. rétt og sanngjörn, þá er ég fús til samkomulags um breytingar á smærri atriðum. En aðalatriði frv. hafa þegar verið viðurkennd bæði að því er snertir Hæstarétt og Landsbankann. Því hefir þegar verið slegið föstu um báðar þessar stofnanir, að starfsmenn þeirra skuli ekki vera eldri en 65 ára. Með því er viðurkennt; að menn á þeim aldri séu farnir að tapa starfskröftum. Viðvíkjandi þeirri skýrslu, sem minni hl. n. óskaði eftir, að lögð yrði fram, skal ég segja það, að ég sé ekki, að á því sé svo mikil þörf. Pétur Zóphóníasson hefir nú lagt fram skýrslu í Morgunblaðinu, sem er góð á sinn hátt. Sumir, sem þar eru taldir, eru að vísu dánir, sumir komnir úr embættum vegna elli og lasleika, sumir láta aðra menn gegna störfum sínum af því að þeir eru sjálfir orðnir blindir o. s. frv. Í raun og veru er skýrslan ágætt sönnunargagn þess, að aðalreglan í frv. er rétt. Kunnugir geta bent á marga í þessum hóp, sem eru orðnir illa færir til að gegna störfum sínum, þó að vitanlega séu ýmsar undantekningar. Ég hafði haldið, að hægt væri að ná samvinnu um þetta frv. og að ekki þyrfti að gera það að flokksmáli fremur en ákvæðin um Hæstarétt og Landsbankann. En í stað samvinnunnar fara nú andstæðingarnir út í hatrammar ádeilur, þó að þeir í öðru orðinu þykist vera sammála um grundvallaratriði málsins. Blærinn yfir andstöðu þeirra er alltaf sá sami.