08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (3525)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst það koma í ljós, að eitthvað muni vera athugavert við frv., þó að hæstv. forsrh. segði, að aðfinnslur mínar væru ekki svaraverðar, því að nú rignir niður skrifl. brtt. Annars get ég sagt honum það, að mér er nákvæmlega sama, hvort hann svarar mér eða ekki. En hann ætti þó að finna þörf hjá sér til að svara, þegar hans eigin stuðningsmenn koma með aðfinnslur. Hæstv. forsrh. var að kvarta yfir harðvítugri andstöðu í deildinni. Mér sýnist ástæðulítið fyrir hann að vera að bera fram kveinstafi út af því. (Forsrh.: Slúður!). Já, það er nú siður hans, þegar eitthvað er rekið ofan í hann, að kannast ekki við að hafa sagt það. En hann sagði, að ekki væri til neins að bjóða samvinnu vegna þess, hve andstæðingarnir væru illir viðskiptis. Nú neitar hann auðvitað að hafa sagt það.

Að því er snertir starfhæfni þeirra manna, sem náð hafa 65 ára aldri, þá hygg ég það ekki nærri sanni, sem hann sagði, að þeir væru venjulega orðnir óhæfir til starfs. Það mun oftar, að menn á þeim aldri séu sæmilega starfhæfir, þó að auðvitað séu til undantekningar.

Hæstv. forsrh. vitnaði í hegningarlögin frá 1869, um að þar væri talað um minni háttar sýslunarmenn. En eins og hv. 1. þm. Eyf. benti á, hafa hugmyndir manna um þessi efni mjög breytzt síðan þau lög voru sett. Þá var litið á suma menn sem minni háttar, sem nú kemur alls ekki til greina. Ég er samdóma hv. 1. þm. Eyf. um, að þetta orðalag sé ekki hæfilegt, og auk þess of óákveðið. Það er nú svo um sum þau störf, sem hér koma til greina, að það væri blátt áfram hlægilegt að halda því fram, að 65 ára maður gæti ekki innt þau af hendi fyrir aldurs sakir. Um bréfhirðingastörf t. d. er það svo, að þau verður að fela húsbóndanum á heimilinu, og ég held, að það þætti broslegt, ef því væri haldið fram, að 65 ára bóndi uppi í afdal gæti ekki haft þau störf á hendi og yrði að fela það vinnukonunni, ef hann hefði hana þá nokkra. Ég hygg, að það sé nægilegt, eins og hv. 1. þm. Eyf. benti á, að kveða svo á um þetta, að lögin nái ekki til annara en þeirra, sem hafa opinbera sýslan að aðalstarfi. Það er nú í sjálfu sér heldur kátlegt, að alþingismenn og ráðherrar mega eftir frv. vera svo gamlir sem verkast vill. Það gerir ekkert til, þó að þeir séu orðnir hálfvitlausir af elli. En ef bréfhirðingamaður í sveit er við starf sitt eftir að hann er orðinn 65 ára gamall, þá á að vera einhver voði á ferðum fyrir landið.

Þá vil ég lýsa brtt., sem ég ber fram við 3. gr. frv., um að í staðinn fyrir 1. jan. 1935 komi 1. jan. 1936. Finnst mér rétt að gefa þeim starfsmönnum, sem hér eiga hlut að máli, nokkurt svigrúm, sérstaklega af því, að ekki hefir verið gerður neinn undirbúningur til að útvega þessum mönnum launaviðbót eða eftirlaun. Það mun varla verða gert á þessu þingi, því að fjárl. eru komin svo langt áleiðis, að ég hefi ekki trú á, að fært þyki að taka slíkt upp.