08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Út af því, sem hæstv. forsrh. vitnaði í hegningarlögin frá 1869, skal ég taka það fram, að það hefir engin áhrif á mig. Ég hneykslaðist ekki á því, þó að konungur og ráðgjafar þeirra komist svo að orði sem þar segir. Það mun hafa þótt eðlilegt á þeim tímum, að þeir herrar skiptu mönnum í flokka. Ég vil benda á, eins og ég þóttist gera í fyrri ræðu minni. að till. byggist ekki eingöngu á því, að mér sé illa við orðalagið, heldur er hér um efnisbreyt. að ræða. Aðalatriðið er, að eftir till. n. eiga ákvæði frv. ekki að ná til minni háttar starfa, en eftir minni till. eiga þau ekki að ná til þeirra sýslana, sem eru alger aukastörf. Eftir till. n. eiga ákvæði frv. t. d. ekki að ná til skrifara í stjórnarráðinu, þó að þeir hafi náð þessum hámarksaldri, en samkv. minni till. má leysa þessa menn frá starfi, af því að þeirra starf er ekki aukastarf. Þetta tel ég alveg rétt og í fullu samræmi við hugsun og tilgang frv. Þó að starf sé kallað minni háttar, getur það verið erfitt og ofætlun gömlum mönnum, svo að full ástæða sé að leysa þá frá því, ef það er aðalstarf. Gamlir menn geta oft verið færir um að annast létt aukastörf, þó að þeim sé ofætlun að vinna fullt verk. Ég ber því þessa till. ekki eingöngu fram vegna metnaðar fyrir hönd hreppstjóra og annara heiðursmanna, heldur til þess að lagfæra frv. að þessu leyti. — Ég skal taka það fram út af ummælum, sem hafa fallið, að ég er ekki að verja minn metnað, því að ég hefi aldrei verið hreppstjóri né annað slíkt, og ég býst alls ekki við, að ég verði nokkurntíma hreppstjóri.