08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Mér er óskiljanlegt, hvernig hv. frsm. gat skilið orð mín þannig, að ég hefði verið að ásaka hann um, að ég hefði ekki átt kost á að flytja brtt. í hv. n. (IngP: Hv. þm. minntist á það, að gagnslaust væri fyrir hv. minni hl. að koma með brtt.). Ég talaði aðeins um þá fjárveitingu, sem yrði að leggja fram úr ríkissjóði, ef bæta ætti kjör þessara manna, sem hér um ræðir. Vitanlega gat ekkert staðið í veginum fyrir því, að ég flytti brtt. við frv., þar sem ekki þurfti að ganga inn á þær. Ég hefi ekkert kvartað yfir hv. nm. í allshn.

En það var annað atriði, sem hv. þm. minntist á, er ekki var rétt með farið. Hann sagði, að svo virtist, sem ég áliti rétt að sporna við því, að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi. Ég hefi nú tvívegis lagt spurningu fyrir hv. þm. þessu viðvíkjandi, fyrst í n. og svo síðast í morgun. Í fyrra skiptið var svar hans mjög óákveðið, en samt skildist mér á honum, að hann byggist ekki við, að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi. Hann var líka óviss um þetta í morgun. Ég minntist á þetta atriði í fyrri ræðu minni, en sást þá yfir að geta um þær ástæður, sem raunverulega mæla mest með því, að þetta mál verði látið bíða. Þær ástæður eru, að almennt er gert ráð fyrir, að lagt verði frv. til nýrra launalaga fyrir næsta þing. Milliþn. hefir setið á rökstólum á annað ár, til þess að íhuga þetta vandamál, og heyrt hefi ég, að þessi n. sé langt komin með störf sín. Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því, að hún verði búin að ljúka störfum fyrir næsta þing, og þá, má gera ráð fyrir, að frv. til almennra launalaga liggi fyrir næsta þingi.

Það er enginn ágreiningur um það, að það eru viss atriði í frv., sem þarfnast meiri athugunar en þau hafa enn fengið. Það er vafasamur „mórall“ hjá hæstv. forsrh., að hætta að sýna sanngirni fyrir það eitt, að hann telur sig hafa orðið fyrir aðkasti frá einhverjum í þessu máli. Það er óheppileg stefna og starfsaðferð.

Enda þótt það sé aukaatriði, vil ég samt geta þess, að ég er ósammála hv. 1. þm. Skagf. um það, að sama regla gildi um alþm. og ráðh. Það eru vitanlega kjósendur og þingið, sem eiga að dæma um, hvort hlutaðeigandi frambjóðandi sé svo heilsugóður, að hann sé starfhæfur. Annars getur almenn regla, eins og um embættismenn, ekki komið til greina í þessu efni.