08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (3541)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hæstv. forsrh. hefir minnzt á, að í raun og veru greinir okkur ekki á í kjarna málsins, því, að það sé rétt að setja eitthvert aldurshámark fyrir embættismenn, og þess vegna finnst mér undarlegt, að það skuli ekki vera hægt að ná samkomulagi í málinu. Hinsvegar virðast mér undirtektir hæstv. ráðh. undir till. okkar benda til þess, að erfitt hefði verið að ná samkomulagi í n., því við höfum nú borið fram margar brtt., en engin þeirra finnur náð fyrir augum hans nema sú eina, sem flokksbróðir hans stendur að. Það er eins og jafnan hefir verið, að undirtektir þessa hæstv. ráðh. fara ekki eftir till., heldur flm. þeirra. Þetta bendir til þess, að það hafi verið yfirskin eitt, að óska eftir eða lofa samvinnu um málið.

Það hefir verið játað, að heppilegt væri að geta sett svona aldurshámark, og það má vel vera, að heppilegt væri að geta sett það nokkuð lágt. Ég er hæstv. ráðh. sammála um, að full ástæða sé til þess, að hinir eldri embættismenn rými úr stöðunum fyrir hinum yngri, sem búnir eru að búa sig undir slíkar stöður og þurfa að fá atvinnu. En það verður að gera sér ljóst, að þetta kostar nokkuð. Í frv. er gert ráð fyrir að leggja kostnaðinn á lífeyrissjóð, án þess nokkuð hafi verið athugað, hvort hann stenzt nándar nærri svo mikil útgjöld. Það er þó ekki nema einfalt reikningsdæmi, sem n. hefði átt að leysa úr. Svo verða menn að gera sér það ljóst, að þó ekki sé sérstaklega gert ráð fyrir því í frv., þá hlýtur þetta einnig að valda ríkissjóði kostnaði beinlínis. Það hafa sumir hv. þm. játað hér, að þeir sjái sér ekki annað fært en bæta sumum starfsmönnum ríkisins það upp, sem verða að láta af starfi sínu, í 18. gr. fjárl., og vísa, að því er mér skilst, á þá aðferð. En mér finnst hún óheppileg. Þetta verður alltaf eins og styrkur, og ekki er fyrir það að synja, að þar geti komizt að hlutdrægni. Ég man svo langt, að ekki kostaði lítið stapp að koma einum uppgjafapresti inn í 18. gr. fjárl. með venjulegan styrk, af því að á honum var óheppilegur pólitískur litur, að því er mönnum skildist, í augum þáv. valdhafa. Þetta er mjög óheppilegt, að uppgjafaembættismenn þurfi að sækja það undir þá flokka, sem þá og þá ráða lögum og lofum á Alþ., hvort þeir fá uppbót á eftirlaun sín; það væri betra að ákveða í l. sjálfum, hvaða þóknun þeir skuli hafa.

Það má nú e. t. v. segja, að í minni brtt. sé nokkuð freklega í þetta farið, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir, sem láta af embætti vegna þessara laga, fái full laun til hámarksaldurs, eða þangað til þeir eru 70 ára. Ég skal játa, að af þessu gæti leitt allmikinn kostnað, ef það ætti að vera regla að láta alla fara frá embætti 65 ára og halda fullum launum í 5 ár. En ég ætlast til, að þetta verki sem hemill gegn því, að verið sé að víkja embættismönnum frá starfi 65 ára, nema sérstök nauðsyn beri til, og þá hygg ég, að þetta verði ekki mikill kostnaður. Það má vel vera, að það hefði mátt orða þetta betur. Maður hefir lítið ráðrúm haft; ég átti von á, að n. mundi koma með talsvert mikið af brtt., en svo verður ekkert úr því, þegar til kemur. við erum svo hér að semja okkar brtt. undir umr., og má vel vera, að þær hefðu orðið öðruvísi, ef tími hefði verið til að athuga málið. Mér hefir t. d. verið bent á af einum hv. þm., að heppilegra hefði verið að orða till. þannig, að þessir starfsmenn skyldu fá hámarkslífeyri, sem mun vera 3/4 launa; það mundi láta betur í eyrum og e. t. v. vera sanngjarnara. Það er ekki þægilegt að ráðgast mikið um þetta, en það er líklega hér um bil sama, því að tal hæstv. forsrh. um samvinnu er sýnilega ekki annað en fyrirsláttur, þar sem hann leggur á móti öllum brtt., sem fram koma. Ég vildi aðeins láta þessa aths. fylgja till. minni, sökum þess, að menn gætu haldið, að hér væri verið að fara fram á ákaflega mikið fé, en ég ætlast til, að reglan verði sú, að 70 ára aldurinn sé látinn gilda, og mundi ég hiklaust ganga með frv. í þá átt.

Hv. þm. N.-Ísf. hefir borið hér fram greinilega samkomulagstill., um að hafa aldursmarkið 68 ár. En það er sama, hæstv. ráðh. berst á móti henni líka. (JÁJ: Hann hefir ekki sérstaklega minnzt á hana). Hún var komin fram er hann talaði, og hann lagði yfirleitt á móti þeim brtt., er fram voru komnar. Mér finnst það líka bera vott um ákaflega lítinn samkomulagsvilja, að geta ekki fallizt á till. hv. 1. þm. Skagf., um að þegar lögin koma fyrst í gildi, fái menn nokkurt ráðrúm áður en þeir fara úr embætti. Ýmsir 70 ára gamlir embættismenn hafa fulla starfskrafta og munu flestir svo stæðir, að þeir verða að útvega sér einhverja aðra atvinnu, ef þeir eru sviptir embætti. En það gefur að skilja, að enginn hefir ráðrúm til að útvega sér atvinnu á hálfum mánuði. Það veit enginn um, að þessi lög eiga fram að ganga, fyrr en allt í einu að þau eru samþ. með þeim hörðu ákvæðum, að menn eigi að vera farnir úr embættum innan hálfs mánaðar. Hæstv. ráðh. sagðist að vísu ætla að framkvæma þetta öðruvísi heldur en gert er ráð fyrir í frv. En það er undarlegt, að hann skuli þá ekki vilja hafa lagaheimild til þess. Í 3. gr. frv. segir, að allir embættismenn, sem náð hafa tilteknum aldri, skuli víkja úr stöðum sínum 1. jan. 1935 eða 1. næsta mánaðar eftir að l. öðlast gildi. Þetta er eins skýrt eins og nokkurt lagaákvæði getur verið.

Í 1. gr. segir, að heimilt skuli vera að draga að láta menn fara frá þangað til þeir eru fullra 70 ára, en enginn opinber embættismaður má vera í stöðu sinni lengur en til 70 ára aldurs. Ég er hissa, að hæstv. ráðh. skuli þá ekki gangast fyrir því að fá inn í frv. ákvæði til bráðabirgða, um að fyrst þegar l. koma til framkvæmda geti menn fengið að hafa embættið t. d. hálfu ári lengur, ef sérstakar ástæður mæla með því. Hitt er annað mál, að menn verða stundum að grípa til þess, þegar eitthvað óvænt kemur fyrir, að framkvæma ekki bókstaf laganna út í yztu æsar, heldur láta heilbrigða skynsemi ráða. En að ráðh. lýsi því yfir, þegar verið er að semja lög, að hann ætli að breyta á móti þeim, í stað þess að fá þau lagfærð, það er ekki afsakanlegt.

Mér finnst alveg sjálfsagt að samþ. brtt. hv. 1. þm. Skagf., því það er það minnsta, sem hægt er að ætlast til, að menn fái ofurlítið ráðrúm til að útvega sér aðra atvinnu, þegar þeim er vísað úr þjónustu ríkisins. Það verður svo framvegis, þegar menn vita, við hverju þeir mega búast, og skil ég ekki, hvers ætti að láta þá gjalda, sem svo hittist á, að eru orðnir 70 ára þegar l. koma í gildi.