19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2655 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Garðar Þorsteinsson:

Ég vil gera fyrirspurn til forseta um það, hvort hann sjái ástæðu til þess að skilja þá gr. þingskapanna, sem um þetta fjallar og hann vísar til, á þann veg, að það beri að svipta þá menn orði, sem um það hafa beðið. Ég vil benda hæstv. forseta á það, að ég er meðflm. að till., og ég hefi setið í þeirri n., sem um málið fjallaði. Ég hefi ennfremur ekki haft neitt óþarfa málæði um þetta mál, þar sem ég hefi aldrei tekið til máls í umr. um það. Að þessu athuguðu þykir mér það ákaflega hart, ef nú á með ofbeldi í þessu, eins og svo mörgu öðru, að svipta þm. rétti til þess að lýsa afstöðu sinni til þeirra till., sem þeir sjálfir flytja. Ég hefi aldrei vitað slíka afstöðu tekna, né heyrt getið um annað eins. Mér þykir ákaflega undarlegt, ef hæstv. forseti vill leyfa atkvgr. um þetta, þegar honum er það kunnugt, að flm.till. hafa ekki fengið að taka til máls, eins og hér er um að ræða. Ég hefi kvatt mér hljóðs og tel það hreint og beint ofbeldi, ef ég fæ ekki að lýsa minni afstöðu til þeirra till., sem ég hefi flutt.