19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

1. mál, fjárlög 1935

Sigurður Kristjánsson:

Þrátt fyrir það, þó ýmsir hv. þm. hafi tjáð mér, að þeir væru nokkuð bundnir með atkv. sín, þykir mér ekki annað hlýða en að segja nokkur orð, a. m. k. um þær brtt., sem ég hefi flutt.

Ég verð að segja, að ég tel ekki vonlaust, þó menn séu handjárnaðir, að járnin kunni að bila. Því hefir verið hvíslað að mér, að afgreiðsla fjárl. hafi verið dregin fram á síðustu stundu, þar til komið væri að jólahelginni, svo menn sættu sig betur við krossfestinguna.

Ég get skilið þetta. En þegar dregur nær jólahelginni, muna menn einkum eftir því, að frekar ber að hlýða guði en mönnum, og handjárnin eða böndin halda þá væntanlega síður. — Hv. þm., sem síðast talaði, sagði, að við sjálfstæðismenn mundum sætta okkur við, þó eitthvað yrði fellt af okkar tillögum. En ég verð að taka það fram, að ég verð mjög óánægður, og kynni jafnvel að gleyma að biðja fyrir óvinum mínum um jólin, ef nokkur till. mín verður felld. Og það stafar af því, að þær eru svo réttmætar og sanngjarnar, að ómögulegt er að greiða atkv. gegn þeim nema bíða um leið tjón á sálu sinni. Þar að auki eru þær ekki nema þrjár og fara ekki fram á hærri fjárveitingu úr ríkissjóði en 1200 kr. samanlagt. Þess vegna hljóta menn að sjá, að ég hefi ekkert ofmælt, enda meinti það allt.

Fyrsta till. af þremur, sem allar eru á þskj. 815, er við 15 gr. fjárl. og er nýr liður, um að veittar séu 600 kr. til Margeirs Jónssonar, bónda á Ögmundarstöðum í Skagafirði, til að halda áfram rannsóknum sínum og söfnun á torskildum bæjarnöfnum. Af því allir þm. eru prýðilega læsir og eru smekksamir á bækur, munu þeir allir hafa lesið bækur Margeirs. Hann er félítill bóndi norður í landi og hefir því haft öðru að sinna en starfa að rannsóknum og ritstörfum, sem hæfileikarnir vísa honum til. En það er svo með þá menn, sem hæfileikarnir vísa á verkefnin, að þeir vinna fleira en beint til að afla sér brauðs. Margeir Jónsson er hneigður mjög til fræðslustarfa, prýðilega greindur maður með ágæta dómgreind. Þetta hefir orðið til þess, að hann hefir farið að fást við fræðistörf. En hann hefir gert ýmislegt fleira fyrir íslenzkar bókmenntir — þó að það sé ekki í stórum stíl — en að safna, skrásetja, rannsaka og skýra örnefni og bæjanöfn. Hann hefir einnig safnað íslenzkum alþýðukveðskap, þeim er honum hefir fundizt beztur, en hinsvegar óttazt að mundi glatast og gleymast, ef ekki væri safnað saman. Hefir hann gefið út talsvert safn af alþýðukveðskap, sem að mínu viti hefir tekizt vel og er smekklega valið. Hefir hann tekið eftir nokkra hagyrðinga í hvert sinn, og lítur út fyrir, að það verði gott safn. En hitt, sem er merkilegra starf og hann hefir lagt meira verk í, er að skýra torskilin bæjanöfn á Norðurlandi. Ég held, að hann hafi byrjað á Húnavatnssýslu og sé nú í Þingeyjarsýslu. Fróðir menn, sem hafa meira vit á þessu en ég, hafa sagt, að verk þetta sé merkilegt og hafi tekizt prýðilega vel, sé mjög vandvirknislegt. Mér er kunnugt um, að það er áhugi á þessu efni, sem kom honum til að rannsaka þetta, en hann hefir aldrei fengið neinn styrk til þess, svo ég viti. Þó hefir hann eytt í þetta miklum tíma, og fé óbeint, þó ekki hafi hann varið til þessa miklu fé beint. Finnst mér, að þessi viðleitni sé vel þess verð, að hún sé launuð. Ég verð að taka það fram, að hann hefir ekki farið fram á það við mig að flytja þessa till. hér, og ég, veit því ekki, hvort hann telur, að sér sé með þessu nokkur greiði ger. Býst ég þó við, að þessi litli styrkur mundi koma sér vel fyrir hann. Hitt er mér einnig ljóst, að ef hann vill halda áfram þessu starfi, er enginn vafi á því, að það er til mikilla nytja fyrir þjóðina. Þessi styrkur er svo lítill, að ég geri ekki ráð fyrir, að þm. felli hann af þeim ástæðum, að hér sé um svo mikil fjárútlát að ræða; það er þá af því, að þeir telja þetta ekki nytsamt verk.

Næsta till. er ekki um bein fjárframlög úr ríkissjóði. Þetta er líka brtt. við 15. gr. fjárlfrv. og er á þá leið, að Kristjáni Magnússyni málara verði veitt 5 þús. kr. lán. Ég bar hér fram þá till. við 2. umr., að honum væri veitt þessi upphæð sem styrkur til að koma upp vinnustofu, en það var þá fellt með eins atkv. mun hér í Sþ. Þessi atkvgr. sýndi, að menn voru þeirrar skoðunar, eða nálega helmingur þm. viðurkenndi, að rétt væri að veita Kristjáni Magnússyni þennan styrk, en það mun hafa valdið úrslitum, að þm. mun hafa þótt varhugavert að ganga lengra í styrkveitingum en orðið var, eða réttara sagt, sparnaðarástæður hafa valdið ákvörðun þingmeirihl. Ég hefi nú breytt þessu svo, að veitt yrði lán með þeim skilyrðum, að það yrði endurgreitt með málverkum eftir hann, og verð þeirra ákveðið eftir mati menntamálaráðs. Láni þessu á að verja til hins sama og ég tók fram áður, að koma upp vinnustofu. Ég vil ekki endurtaka það sem ég sagði við 2. umr., aðeins vil ég segja það, að hann hefir ekki beðið um né þegið neinn styrk úr ríkissjóði áður. Sem drengur milli fermingar og tvítugs brauzt hann til náms við skóla í annari heimsálfu án nokkurs styrks eða hjálpar í 6 ár. Síðan hann kom hér heim hefir hann unnið fyrir sér með málarastörfum, og það vita nú allir þm. eins vel og ég, að hér er ekki mikill markaður fyrir listina, og þess vegna hefir Alþ. oft verið hugulsamt við listamennina. Nú hefir ríkisstj. ekki einu sinni sýnt þessum manni þá velvild og nærgætni að kaupa af honum málverk, sem þó er gert, að ég ætla, í styrktarskyni við aðra málara, eldri sem yngri. Ég vildi því mega vænta þess, að hæstv. Alþ. vildi veita honum þetta lán, með því skilyrði um endurgreiðslu, sem ég hefi lýst, því með því fær málarinn meiri vinnufrið og afkastar meiru en ella, ef hann fær vinnustofu, heldur en ef hann hefir enga, eða litla og dýra eins og hann hefir nú. Ég læt mér nú ekki annað til hugar koma en að þessi breyting á till. úr styrk í lán vinni þetta eina atkvæði. Ég sé á hæstv. fjmrh., að hann hefir ákveðið sig, hann situr hér beint á móti mér og andlitið á honum er eitthvað svo vingjarnlegt og listrænt. (Fjmrh.: Valt er nú að treysta því).

Þá kem ég að 3. og síðustu till. Það stendur svo einkennilega á um hana, að það er till. um að hækka skáldalaun Guðm. Friðjónssonar upp í 3 þús. kr. Þegar þing kom saman í haust, skrifaði ég hv. fjvn. bréf um þetta, og er það eina erindi mitt til hennar, annað ónæði gerði ég ekki þeirri hv. nefnd. Fjvn. tók þessari málaleitun vel, en það hefir vissulega orðið einhver misskilningur í þessu, því form. hennar tjáði mér, að málaleitun mín hefði verið samþ. Ég sagði nú, að það hefði ekki verið gert. Hann sagði jú, að styrkurinn hefði verið hækkaður um 300 kr., en það, sem ég fór fram á, var, að hann yrði hækkaður upp í 3 þús. kr. Þetta hefir því ruglazt eitthvað hjá n. Þykist ég vita, að fjvn. muni taka þetta til greina. Ég þarf ekki að gera grein fyrir, hvað þessi till. er sjálfsögð. Það er öllum kunnugt, hvílíkur Guðm. Friðjónsson er sem skáld og hverra vinsælda hann nýtur. Ég held, að enginn muni neita því, að hann sé annað mesta núlifandi skáld þessa lands. Hann er fátækur bóndi norður í afskekktu héraði, og hefir þó afrekað eins og hann hefir gert, sem er dæmalaust afrek, ekki einasta á þessu sviði, heldur hefir hann afrekað mikið á öðrum sviðum. Hann hefir verið, eins og ég sagði, fátækur alla æfi, og þar að auki þjáðst af langvarandi heilsuleysi, en samt hefir hann komið upp 11 börnum, menntað þau og komið þeim til manns, og er það eitt talið mikið starf út af fyrir sig, þó menn séu hraustir og sæmilega efnaðir. Hann hefir og unnið fleira til gagns að ég tel. Hann hefir setið allan sinn búskap á föðurleifð sinni, bætt hana og prýtt. Hann er maður ofarlega á sjötugsaldri, og mundi því vitanlega ekki þjá ríkissjóð lengi hér eftir.

Eins og vitanlegt er, hafa þeir ekki miklu safnað til elliáranna alþýðustéttarmenn eins og Guðm. Friðjónsson. Væri það sérstök minnkun fyrir þjóðfélagið, ef þessi maður þyrfti síðustu ár æfi sinnar að strita fyrir brauði sínu með líkamlegri vinnu, einkanlega af því, að því fylgja miklar þjáningar, vegna heilsubrests hans. Því hefir verið fleygt, að menn væru hér dregnir í dilka eftir pólitík eða þjóðmálaskoðunum, þegar útbýtt er náðarbrauðinu, og Guðm. Friðj. hefir verið svo ógætinn að láta í ljósi sína pólitísku skoðun. En menn eiga nú að vera sýknir af þessum hlutum, þegar maður eins og Guðm. Friðjónss. á í hlut og hvað frekast eiga þm. að vera upp yfir það hafnir að láta sér til hugar koma, hvaða skoðun slíkir menn hafa á landsmálum. Ég ætla ekki að ræða þessa till. meira í sambandi við G. Fr., en vil aðeins bæta þessu við. Alþingi hefir nú, eins og áður, hætt sér inn á þá hálu braut að meta bókmenntaafrek manna. Úthlutun skáldastyrkja er í sjálfu sér ekki annað en dómur þm. um skáldskap, en þó þm. séu ekki ábyrgir orða sinna, eiga þeir að vera ábyrgir gerða sinna. Þegar þm. leyfa sér að leggja dóm á bókmenntir, verða þeir að gæta þess, að ekki verði þeir í því fundnir að koma fram — ég vil ekki segja eins og bjánar, en eins og flón í þessum hlutum. Því það hefir óneitanlega komið í ljós, að hv. þm. hafa sumir lítið vit á bókum. Ef þessi till. verður því ekki samþ., er ekki hægt annað en leggja þann dóm á, að þingið sé ekki sem bezt skipað að því leyti, sem snýr að bókmenntum og skáldskap. Mér finnst rétt, að þingið varpaði af sér ábyrgðinni af að úthluta styrkjunum, en léti valda menn fá umráð yfir upphæðinni og jafna henni niður. Eflaust eru skáldalaun ekki eingöngu veitt vegna þess, sem maðurinn hefir skrifað, heldur einnig tekið tillit til hvaða verðleikar eru að öðru leyti hvaða þjóðnytjastarf maðurinn hefir unnið að öðru leyti og hvað hann hefir fyrir sig að leggja til að lifa af eða bjargast. Ef tillit er tekið til þessa, þá verður því ekki neitað, að þá ættu skáldalaun Guðm. Friðjónssonar ekki að vera 3000 kr., heldur ef til vill 6000 kr., því að hann er kominn á sjötugsaldur, og ástæður hans eru og hafa verið mjög erfiðar. Það verður að gæta þess, að menn, sem slíkt upplag hafa sem skáld og listamenn, þurfa raunverulega meira til lífsviðurværis heldur en fólk almennt. Það er ekki hægt að bera þeim í fingurbjörg, því að það misþyrmir upplagi þeirra.

Ég hefi þá mælt fyrir þessum till, sem að sönnu mæla með sér sjálfar, því að þær voru gerðar af réttsýni, sem nægði til þess að leiða þær til sigurs. En nú stendur svo á, að ég er með nokkur skilaboð til hv. þm. Svo er mál með vexti, að hv. þm. Vestm. er veikur, og hann bað mig fyrir þessi skilaboð til hv. þm. Hann á hér 2 brtt., sem ég lofaði að minnast á.

Fyrri till. er við brtt. hv. meiri hl. fjvn. um ræktunarveg í Vestmannaeyjum. Þetta hefir einhvernveginn fallið niður af fjárlfrv., en hv. meiri hl. fjvn. hefir borið fram till. til breyt. við 16. gr. og leggur til, að ræktunarvegi í Vestmannaeyjum verði ætlaðar 6000 kr. Hv. þm. Vestm. fer fram á, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 12000 kr., og til vara 10000 kr. Ég verð að vera fáorður um þetta, sökum þess að ég er þessu máli ekki eins kunnugur og hv. þm. sjálfur. En samt er mér kunnugt um, að Vestmannaeyjakaupstað er þessi ræktunarvegur mjög mikils virði. Árið 1926 var fyrst veittur slíkur styrkur, en síðasta Alþ. synjaði um styrkinn. Mér er tjáð, að árið 1926 hafi fengizt um 4000 hestar af töðu í Eyjum, en síðan hefir ræktuninni fleygt svo fram, að þrátt fyrir það, þótt landið sé illa fallið til ræktunar, að nú fást þar 9000 hestar af töðu.

Það er óþarft að taka það fram, að það er mjög þýðingarmikið fyrir þetta fjölmenna fiskiver og kaupstað, að ræktunin aukist sem mest, því að áður voru mjög litlar grasnytjar, svo að fólkið átti við mikinn mjólkurskort að búa. Það er eitt af allra mestu menningarmálum Eyja, að allt ræktanlegt land í Eyjunum verði ræktað. Það er líka heilbrigðismál, að fá nóga mjólk fyrir allan þann mannfjölda, sem í Eyjum býr. Auk þess er þessi ræktunaraukning einhver bezta atvinnubótavinna, sem um er að ræða í þessum kaupstað. En þessari ræktun verður ekki haldið áfram, nema ræktunarvegurinn verði fullgerður. Alþingi hefir í raun og veru gengið inn á það fyrir nokkru síðan, að það sé ein af lífsnauðsynjum eyjaskeggja að fá þennan ræktunarveg, og vitanlega er ekki ætlazt til þess, að ríkið leggi þarna aðra vegi en ræktunarveg, svo að það virðist vera sanngjarnt, að styrkur þessi sé hækkaður a. m. k. eitthvað upp úr 6000 kr.

Önnur till., sem ég hefi sjálfur veitt sérstaka athygli og vildi mæla sem bezt með, er till. á þskj. 815 um styrk, 6000 kr. að upphæð, til sundlaugarbyggingar í Vestmannaeyjum. Það er stutt síðan menn fundu upp á því að byggja sundlaugar með kolaupphitun. Þetta var fyrst reynt í Bolungavík með svo góðum árangri, að nú lærir svo að segja hvert mannsbarn, bæði ungir og gamlir, að synda þarna á staðnum. Sund getur aldrei orðið almenn íþrótt, nema sundlaugar séu byggðar á fjölmennum stöðum. Það er svo dýrt fyrir fólk að þurfa að kosta sig að heiman til sundnáms í fjarlæga staði, að það verða aldrei nema örfáir, sem það gera. Nú læra kringum 70 unglingar og fleiri fullorðnir að synda á sumrin í Bolungavík. Allir sjómenn þar eru nú syndir að heita má. Þó yrði tvímælalaust meiri aðsókn að lauginni, ef staðarbúar hefðu ráð á því að byggja yfir laugina. Vestmannaeyingar hafa tekið þetta upp eftir Bolvíkingum. Strax í upphafi var gert ráð fyrir því, að ríkið styrkti þetta fyrirtæki. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp skjal, sem mikill meiri hl. hv. þm. hefir skrifað undir. Þar er farið fram á, að ríkið veiti helming kostnaðar, en þó ekki minna en 12000 kr. Skjalið hljóðar svo:

„Við undirritaðir alþm. úr báðum deildum Alþ. mælum með því, að ríkissjóður styrki sundlaugarbyggingu þá, sem nú er hafin í Vestmannaeyjum og verður eign bæjarfélagsins, með fjárframlagi, allt að helmingi kostnaðar, en þó ekki minna en 12000 kr. Áætlað kostnaðarverð er 38000 kr.

Pétur Magnússon, Jón Ólafsson, Jakob Möller, Héðinn Valdimarsson, Gísli Sveinsson, Finnur Jónsson, Tryggvi Þórhallsson, Jón Baldvinsson. Ingólfur Bjarnarson, Jón Sigurðsson, Jón Pálmason, Vilmundur Jónsson, Bernharð Stefánsson, Eysteinn Jónsson, Bjarni Ásgeirsson, Bergur Jónsson, Jörundur Brynjólfsson, Jóhann Jósefsson, Guðbrandur Ísberg, Þorleifur Jónsson, Haraldur Guðmundsson, Jónas Jónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Páll Hermannsson, Ólafur Thors, Björn Kristjánsson, Kári Sigurjónsson, Eiríkur Einarsson, Guðrún Lárusdóttir, Þorsteinn Þorsteinsson.“

Hugmynd hv. þm. virðist vera, að styrkurinn yrði um 19000 kr., en ekki minni en 12000 kr. Ég vil upplýsa það, að búið er að verja til sundlaugarinnar 32000 kr. og ríkið hefir lagt fram 6000 kr. Talið er, að allur kostnaður við sundlaugarbygginguna muni verða um 40000 kr. Það er víst, að það var vilji meiri hl. þingsins, að þessi styrkur yrði veittur. Nöfn undirskrifenda eru 30 að tölu, eins og ég er þegar búinn að lesa upp. Nöfnin eru því hvorki fá né heldur smá, og vil ég því halda, að þessu máli sé vel borgið, þar sem því er fylgt úr hlaði af þessum mönnum, enda þótt þeir sitji ekki allir á þessu þingi. Nú hefir ríkisstj. greitt 6000 kr., og ég tel víst, að hún muni a. m. k. vilja greiða þessa 12000 kr. lágmarksupphæð. Og þm. Vestm. fer fram á það, að bætt verði við 14. gr. 6000 kr. greiðslu til viðbótar við það, sem búið var að greiða.

Ég get engu við þetta mál bætt, því að ég get ekki gefið þessu nauðsynjamáli betri meðmæli heldur en það hefir þegar fengið. Þau eiga að geta verið fullkomin líftrygging fyrir till. Ég vona því, að báðar þessar till. fái samþykki hér á hv. Alþingi.

Að endingu vil ég taka það fram, að fyrir hendi eru nokkrar aðrar till., sem ég er ekki flm. að, en varða nauðsynleg málefni, er ég vildi styðja. En þar sem ég hygg, að hv. flm. þeirra hafi betri rök fram að færa þeim til meðmæla heldur en ég mun ég ekki taka þessar till. með og læt ég máli mínu lokið.