19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég á örfáar brtt. Um tvær þeirra þarf ég ekki að vera margorður, því að ég flutti samskonar till. við 2. umr. — Á þskj. 815,IX á ég till. um 2500 fjárveitingu til Vesturhópsvegar. Við 2. umr. var fellt 3000 kr. framlag. Hér er um að ræða að koma á sambandi milli tveggja stórra vegakafla. Það hefir alltaf verið talin nauðsyn að leggja fram fé, þegar svo stendur á, að ekki þarf nema nokkur þús. til þess að stórir vegakaflar komist í samband hvor við annan. Það væri óforsvaranlegt af þinginu að hlaupa hér ekki undir bagga, og það því fremur, sem héraðið hefir lagt mikið á sig í sambandi við þennan veg. Ég vænti því, að þessi upphæð verði samþ.

Þá á ég till. á þessu sama þskj, við 18. gr., að þar komi nýr liður, 300 kr. styrkur til Friðriks Halldórssonar fyrrum vegavinnuverkstjóra. Ég þarf ekki að rökstyðja þetta nú, því að ég gerði það við 2. umr., og vænti ég, að hv. þm. sé það í fersku minni. — Út af þessari till. vil ég geta þess, að ég hefi átt tal við hæstv. fjmrh. og góðvini mína jafnaðarmennina, og þeir telja betra að fá þetta fram með hækkun á styrk þeim, er vegamálastjóri fær til útbýtingar meðal slíkra manna. Ég hefi átt tal við vegamálastjóra um það, hvort F. H. mundi geta fengið eitthvað af þeim 1000 kr., sem áætlaðar eru í þessu skyni, en hann sagði, að ef þessi fjárveiting yrði samþ., þá væri henni þegar ráðstafað. Ég hefi því borið fram brtt. á þskj. 911 við brtt. á þskj. 894, um það, að í stað 1000 kr. komi 1300 kr., og mun ég þá taka aftur till. á þskj. 815.

Þá á ég brtt. á þskj. 815, LXVI, um að greiða til bráðabirgða úr ríkissjóði styrk, er nemi allt að ¼ af stofnkostnaði mjólkurbúanna í Eyjafirði, Borgarfirði, Ölfusi og Reykjavík, þar til Mjólkurbú Flóamanna hefir lokið þeim greiðslum, sem ákveðnar eru með l. nr. 95 19. júní 1933, um mjólkurbúastyrk o. fl., og heimilast ríkisstj. að taka lán til þessarar greiðslu, ef nauðsyn krefur.

Þessi l., sem vitnað er í frá 1933, fela í sér heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða til mjólkurbúanna viðbótarstyrk, er nemi allt að ¼ af stofnkostnaði þeirra. Þessi styrkur er þó nokkuð bundinn í 3. gr. l., þar sem gert er ráð fyrir því, að greiðslu á þessum viðbótarstyrk skuli þannig hagað, að Búnaðarbankinn taki við skuldabréfi því eða bréfum, sem Mjólkurbú Flóamanna gefur út fyrir skuld sinni við ríkissjóð, en þó ekki fyrir hærri upphæð en nemur niðurfærslu þeirri á viðlagasjóðslánum hinna búanna, er samsvara viðbótarstyrknum. Mjólkurbú Flóamanna kostaði 400 þús. kr. Framlag ríkissjóðs 100 þús. kr. og viðbótarstyrkur 100 þús. kr. Eftir verða þá 200 þús. kr., sem Mjólkurbú Flóamanna skuldar ríkinu, því ríkið lagði fram allan stofnkostnað búsins í upphafi.

Á þinginu 1933 var gert ráð fyrir því, að þessar 200 þús. kr. ættu að skiptast milli hinna búanna. Nú hefir Mjólkurbú Flóamanna hinsvegar ekki getað greitt ríkissjóðsskuld sína og er það varla von á þeim erfiðu tímum, sem nú eru, en það hefir haft í för með sér, að mjólkurbúin hafa ekki fengið þennan viðbótarstyrk. Nú ætlumst við, sem flytjum þessa till., til þess, að stj. fái heimild til lántöku til þess að inna þessa greiðslu af hendi. Það er ástæðulaust að bíða eftir Mjólkurbúi Flóamanna. Ríkið þarf ekki annað en að komast í samband við Búnaðarbankann og láta yfirfæra viðlagasjóðslán búanna yfir á ríkissjóð. Fyrrv. og núv. stj. hafa ekki séð sér fært að gera neitt í þessu máli fyrr en skil væru komin frá Mjólkurbúi Flóamanna. Það er því sjálfsagt að taka í taumana, svo að búunum verði veittur sá sjálfsagði stuðningur, er l. frá 1933 ætlast til. Bæði í grg. frv. og í öllum umr. um það á þinginu 1933 er það skýrt tekið fram, að ekki er ætlazt til, að beint fé sé lagt fram í þessu skyni fram yfir það, sem áður er fest í Mjólkurbúi Flóamanna. Það er ætlazt til, að yfirfærsla eigi sér stað.

Ég geri ráð fyrir því, að vel verði tekið í þessa brtt., og vildi óska þess, að fá að heyra frá hv. stj., hvort hún hefír nokkuð við till. að athuga, svo að hægt sé að skýra málið betur, ef þess þætti þurfa.

Það eru svo fáir hv. þm. við, að það er ekki hægt að koma að brtt., sem enn hefir ekki fengið afbrigði frá þingsköpum, en ég hefi eina slíka brtt., sem ég vildi gjarnan fá að tala fyrir nú, svo að ég þurfi ekki að tala seinna, þótt ég hinsvegar hefði gjarnan viljað ná eyrum allra hv. þm., er ég talaði fyrir henni. (Forseti: Hv. þm. má tala um till.). Í 14. gr. fjárlagafrv. nú, A. 9. lið í staflið b, eru veittar til þess að endurreisa kirkju Brettingsstaðasóknar 1500 kr. Fyrir hv. fjvn. hefir legið umsókn um svipað efni frá Tjarnarsókn. Árið 1930 var farið að endurreisa kirkju þessa, þar sem hún var orðin ónothæf. Viðgerðinni á kirkjunni er þó ekki lokið enn, þar sem hún fór nokkuð fram úr því, sem áætlað hafði verið, og eftir er að vinna við hana sem nemur 3000 kr. Það má segja, að þetta sé sök þeirra, er að þessu standa, en það vill oft fara svo, að slíkt fari nokkuð fram úr áætlun. Það er kunnugt, að þetta er fámenn og fátæk sókn, sem hefir ekki nema um 70 gjaldendur. Kirkjubyggingin hefir því staðið í stað á annað ár og eigi verið hægt að notast við kirkjuna eins og hún er nú, svo að þetta horfir til vandræða. Ég hefi því borið fram brtt. við 14. gr., sem ég vænti, að komist hér að, um það, að veittar verði 3000 kr. til þess að fullkomna þessa kirkju. Þó að þetta sé það minnsta, þá hefi ég þó til vonar og vara sett varatill. um, að veittar verði 1500 kr., því að það er þó betra en ekkert. Ég get getið þess, að söfnuðurinn átti ekki nema 1200 kr. í sjóði, er byrjað var á kirkjunni. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái nauðsynina á því að koma upp þessari kirkju og gera hana nothæfa, og sjái ekki í það, þótt það kosti 3000 kr., fyrst farið er inn á þessa braut á annað borð. — Ég skal nú láta hér staðar numið, til þess að þreyta ekki hv. þm., og vænti þá, að þeir verði þeim mun fúsari til að fylgja brtt. mínum.