05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil bæta því við það, sem ég sagði áðan, að það hefir verið efnt, sem d. var lofað síðast þegar málið var til umr., að taka málið fyrir í sjútvn. Hv. minnihl.menn voru spurðir að því, hvort þeir vildu gera nokkrar brtt. við frv., en þeir voru ófáanlegir til þess. Ég skal geta þess, að hv. þm. Vestm. fór af fundi nokkru áður en honum var slitið og hafði ekki tækifæri til að koma aftur. En þeir 2 minnihl.mennirnir hafa verið margspurðir að því, hvort þeir vildu koma með brtt. Ég sé því ekki annað en að ef þeir hafa eitthvað á samvizkunni, þá sé búið að gefa þeim svo mörg tækifæri til þess að koma fram með brtt., að óhæft sé að veita þeim lengri frest í þessu máli, því það getur ekki verið í neinum öðrum tilgangi en að reyna að tefja frv.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði, þá hefi ég ekkert látið í ljós um það, hvort þessi umsögn, sem fyrir liggur frá Útvegsbankanum, væri þýðingarmikil eða ekki. Ég sagði bara, að þetta væri umsögn og ekkert annað. Það er sú eina umsögn, sem n. hefir borizt þrátt fyrir það, að liðnir eru 4—5 dagar fram yfir þann tíma, sem n. beiddist umsagnar um þessi mál.