06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (3626)

150. mál, fiskimálanefnd

Jóhann Jósefsson:

Ég skal aðeins minnast á það atriði, sem hv. 6. landsk. sagði, að við mundum hafa hugsað eitthvað líkt um. Ég er honum samdóma um nauðsyn þess, að undanskilja þessar smásendingar, sem hér er um að ræða, til þess að afstýra vandræðum hjá smáútflytjendum. En ég held, að mín till. sé öllu betri en hans, vegna þess hve þetta er klúðrað í sjálfu frv. Það verður ekki séð greinilega, við hvað er átt. En í greininni, sem er 3. gr. frv., stendur þetta: „Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja fisk til útlanda, nema með leyfi fiskimál.nefndar. Eigi má afgreiða farmskírteini fyrir fisksendingum til útlanda, nema slíkt leyfi liggi fyrir. Leyfi til útflutnings á saltfiski skulu aðeins veitt þeim, sem fengið hafa löggildingu sem saltfiskútflytjendur. Þó getur n. veitt undanþágu fyrir smásendingar af óverkuðum saltfiski, ufsa, keilu og úrgangsfiski“. — Það er dálítið óljóst, hvernig þessum undanþágum skuli hagað. Ég skal benda á, að það er altítt við Faxaflóa og í Vestmanneyjum, að stærri og smærri útvegsmenn sendi á vertíðinni lítil fiskipartí til Kaupmannahafnar í því skyni að fá peninga til að létta undir með kostnaðinn. Þeir senda þá með millilandaskipunum kannske upp undir 2000 pakka í einu, og það er algengt, að smærri framleiðendur slái sér þannig saman til þess að fá rekstrarfé. Ef í hvert skipti þyrfti að spyrja fiskimálan., mundi slík sala oft fara út um þúfur. Markaðurinn er lítill og takmarkaður í Kaupmannahöfn og slík kaup verða að geta gerzt með skjótum hætti, ef salan á ekki að fara út um þúfur. Það yrði erfitt í vöfum að þurfa að fá leyfi útflutningsn. í hvert skipti, en hinsvegar ófært að girða fyrir þennan hjálparveg smáútgerðarmanna. Sama gildir um Norðlendinga og Austfirðinga. Þeir senda stundum smápartí til Kaupmannahafnar að haustinu, og í báðum tilfellum er óhætt að fullyrða, að þessi viðskipti yrðu dregin úr höndum manna, ef menn hefðu ekki frjálsræði til að reka þau á kaupmannsvísu. Svo er annað. Það er altítt, að kaupfélög og verzlanir sendi litlar sendingar af verkuðum saltfiski til viðskiptamanna sinna í Englandi og Kaupmannahöfn. Í frv. er ekki gert ráð fyrir þessu, því að þær smásendingar, sem gert er ráð fyrir að fái undanþágu, eru miðaðar við óverkaðan saltfisk, ufsa, keilu og úrgangsfisk. Það er algengt, að verkaður úrgangsfiskur sé seldur í smáslöttum til þessara landa, og það getur ekki á nokkurn hátt skaðað markað okkar í Suðurlöndum. Hömlur í þessu efni væru aðeins til þess að torvelda þessi viðskipti og gera þau erfiðari en ella. Ég hafði tekið eftir brtt. hv. 6. landsk. Hann vill láta ákvæðin standa áfram eins og þau eru í frv., en gerir ráð fyrir, að n. geti veitt undanþágu um útflutning á verkuðum saltfiski til annara landa en markaðslandanna. Ef hans till. yrði samþ. mundi niðurlag 3. gr. hljóða svo: „Þó getur nefndin veitt undanþágu fyrir smásendingar af óverkuðum saltfiski, ufsa, keilu og úrgangsfiski og ennfremur á verkuðum saltfiski til annara landa en aðalmarkaðslandanna“. Hinsvegar leggjum við hv. 1. þm. Rang. það til, að ákvæði þessarar 3. gr. séu alls ekki látin ná til þeirra smásendinga, sem bæði við og hv. 6. landsk. eigum við, þ. e. a. s. smásendingar af verkuðum eða óverkuðum fiski, sem framleiðendur senda beint til StóraBretlands eða Norðurlanda. Við undanskiljum aðalmarkaðslöndin, Ítalíu, Portúgal og Spán, því að við lítum svo á, að höfuðtilgangur frv. sé, að sá markaður sé rétt notaður. Þá er ekki um önnur lönd að ræða, sem slík smáviðskipti fara fram við, en Stóra-Bretland og Norðurlönd, eða Danmörk, Noreg og Svíþjóð, en það er einkum Danmörk, sem hér kemur til greina. Þessi fiskur selst ekki í Þýzkalandi og Hollandi og lítið í Belgíu. Ef hv. d. fellst á að sleppa afskiptum fiskimálan. af þessum smáviðskiptum, sem eru mjög þægileg fyrir smærri útvegsmenn, tel ég réttara að samþ. till. okkar hv. 1. þm. Rang. heldur en till. hv. 6. landsk., þó að við meinum báðir það sama. Hann ætlast til, að um þetta sé leitað leyfis n. í hvert skipti, en ég ætlast til, að þessum smáviðskiptum sé alveg sleppt við opinber afskipti, og held ég, að það sé algerlega hættulaust. Mér finnst rétt, að ekki séu settar meiri hömlur í þessu efni en nauðsynlegt er.

[Fundarhlé] .

Ég hafði, áður en fundi var frestað, lýst því, hvaða ástæða liggur til grundvallar brtt. á þskj. 681 við 2. gr. 1. brtt. okkar á sama þskj. er um það, að orðin „verkunarleyfi og“ falli burt. Það hefir annaðhvort verið misritun hjá mér eða misprentun, að í brtt. stendur „verkunarleyfi og“, en í frv. „verkunarleyfa og“. Þetta, sem nú var nefnt, er í nánu sambandi við það, að við leggjum til, að 8. og 9. gr. frv. verði látnar falla niður.

Okkur virðist sú íhlutun, sem fiskimálan. er ætluð í frv., vera svo víðtæk, að það sé óþarfi og alls ekki rétt á þessu stigi málsins, að láta hana ná til framleiðendanna sjálfra beinlínis, eins og gert er ráð fyrir í frv. með því að gera mönnum skylt að sækja um verkunarleyfi og því um líkt.

Það ætti í rauninni að vera hægt að komast hjá þessu með þeim íhlutunum, sem n. er ætlað að hafa í sjálfum fiskútflutningnum, og þeim áhrifum, sem hún að sjálfsögðu hefir samkv.

5. gr. á hina löggiltu útflytjendur, því að í gr. segir, að það megi ákveða með reglugerð, að fiskiútflytjendur séu skuldbundnir til þess að taka fisk til sölu af framleiðendum, gegn hæfilegri hámarksþóknun, og annað það, sem greiðir fyrir því, að allir fiskframleiðendur njóti sem fyllsts jafnréttis um sölu framleiðslu sinnar.

Mér virðist líka, að reynslan ætti að mega skera úr því, hvort það væri þörf að ganga svona nærri frelsi manna eins og ætlazt er til samkv. 8. og 9. gr. Maður getur alltaf óttazt, að það verði hrein og bein mistök á slíkri íhlutun um það, hvernig verka skuli. Þess vegna er ekki ástæða til fyrir löggjafann að seilast svo mjög inn á svið framleiðenda, að þeim séu gerð óþægindi og kannske skaði.

Ég vil nú taka dæmi um það, hvernig svona íhlutun getur verkað:

Það hefir sýnt sig í haust, að það hefði mátt selja meira af söltuðum fiski óverkuðum heldur en var fyrir hendi hjá fisksölusamlaginu. Ég hefi heyrt allmargar álasanir fyrir, að það skyldi ekki vera til nægur saltfiskur þannig verkaður í landinu til að selja. Slíkar ásakanir er vitaskuld mjög hægt að koma með eftir á, en það er dálítið verra að sjá fram fyrir sig um það, hvernig bezt sé að haga verkuninni. Ef fisksölusamlagið t. d. hefði vitað fyrirfram, að aflinn fyrir Norðurlandi mundi bregðast í sumar og haust, þá væri full ástæða fyrir samlagið að gera einhverjar ráðstafanir til að farga ekki saltfiskinum nema að sem minnstu leyti, en þetta gat hvorki samlagið né aðrir séð fyrir. Ég geri ráð fyrir, að það verði alveg eins með þessa nýju stofnun, sem stendur nú til að setja á fót. Það er örðugt að ákveða um það fyrirfram, að svona og svona skuli haga framleiðslunni og verkuninni. Ég álít a. m. k., að þegar verið er að setja löggjöf um þetta efni til að byrja með, þá eigi frekar að prófa sig áfram um þetta heldur en að taka munninn svo fullan sem hér er gert, og það virðist vera harla lítið orðið eftir af frjálsri framleiðslu, þegar á að fara að segja framleiðendum fyrir um það, hvernig þeir verka fisk sinn. Ég veit nú, að hv. flm. þessa frv. og hæstv. atvmrh. muni strax vitna í það, að þetta geti verið nauðsynlegt vegna þeirra slæmu markaða, sem við seljum nú fiskinn á. Ég veit, að núverandi ástand framkallar varúð af okkar hálfu, en ég ímynda mér, að óhætt sé að segja, að það er jafnáhættumikið og jafnábyrgðarmikið að gera of mikið af að grípa fram fyrir hendurnar á mönnum í þessu efni eins og þótt farið væri heldur stilltara af stað í byrjun. Og hvaða yfirvitringar eru það, sem hæstv-.ráðh. ætlar að hafa sér við hönd í þessu máli? Býst hann við, að þessi fiskimálan. geti engin mistök gert? Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr vitsmunum hæstv. ráðh., en ég get hinsvegar alls ekki gert svo mikið úr þeim, að hann út af fyrir sig muni vera fær um að deila jafnt sól og regni milli framleiðendanna í landinu fyrirfram, þegar hann er að úthluta þessum verkunarleyfum eins og ætlazt er til eftir frv., svo að hann hafi nokkra tryggingu fyrir því, að hann og hans handlangarar geti hér orðið mönnum til nokkurs framdráttar.

Við skulum nefna annað í þessu sambandi viðvíkjandi verkuninni, sem hv. flm. vilja, að allir, sem starfa að saltfisksverkuninni, beygi sig undir. Við skulum taka Vestmannaeyinga sem dæmi. Þeir verka bæði Spánarfisk og Portúgalsfisk. Nú sækjum við um verkunarleyfi samkv. ákvæðum þessa frv. Þá segir atvmrh. við mig og mína líka, að svo og svo mikið megi verka af Spánarfiski og svo og svo mikið af Portúgalsfiski. Þetta er nú allt gott og blessað. Þetta gerum við hvort sem er. En hvorki fiskimálanefnd né atvmrh. er mögulegt að segja fyrirfram um það, hversu mikið er hægt á þessum stað að harðverka svo að það verði Portúgalshæf vara, en það vita allir saltfisksverkendur, að Portúgalsfiskurinn verður að vera miklu harðari en Spánarfiskurinn, sem má vera 3/4 verkaður fiskur, sem kallað er. Nú mundi fiskimálan. vera búin að ákveða, að þetta og þetta mikið ætti að verka af Portúgalsfiski og þetta og þetta mikið af Spánarfiski. En til þess að þetta fari út um þúfur, þarf nú ekki annað en að verkunarsumarið verði óvenjulega votviðrasamt eins og oft getur komið fyrir á þessum stað, Vestmannaeyjum, sem ég tók sem dæmi. Þannig gætu fyrirætlanir fiskimálan. alveg kollvarpazt í þessu efni hvað snertir verkun á Spánar- og Portúgalsfiski. En ég hygg, að raunar þurfi ekki að fara svo langt sem til Vestmannaeyja til þess að benda á, að áætlanir fiskimálan. í þessu efni gætu að engu orðið. Þetta getur líka orðið hér við Faxaflóa, að framan af sumri geta menn ekki vitað, þar sem þurrkhús eru ekki fyrir hendi, hvað mikið þeir geta verkað fyrir hvorn þessara markaða. Þetta og fleira þessu líkt er ástæðan til, að við hv. 1. þm. Rang. álítum að svo komnu máli, að ekki sé vert að seilast inn í athafnasvið framleiðendanna svo mjög sem gert er í 3. og 9. gr. Það gæti reyndar rekið að því, að þeir, sem trúa á það, að þegar búið sé að skrifa eitthvað á pappír og skipuleggja sem þeir kalla, eins og jafnaðarmönnum er gjarnt til, fari þeir að færa sig svo fram, að þeir fari að leggja mönnum ráðin um það og ákveða með valdboði. hvar þessi og þessi maður eigi að fiska, hvaða fisk hann eigi að fiska og hvernig hann megi fiska. Annars held ég, að þessar umsóknir um verkunarleyfi og því um líkt, það sé svo fast í hugsun jafnaðarmanna, sem hafa tekið þátt í smíði þessa frv., síðan ákvæði voru til í öðrum l., sem d. kannast við, en það voru l. um síldareinkasöluna frægu. Þar átti hver maður að senda umsókn um veiðileyfi, verkunarleyfi og allt þessháttar. Þessi ákvæði eru fúlar dreggjar úr þeim forarpolli, síldareinkasölunni, sem þeir voru að baða sig í hér á árunum og allir vissu, hvað leiddi af.

Ég kem þá að því, hvað nauðsynlegt sé, að þessi n. hafi mikla íhlutun af sjálfri fisksölunni. Í 3. gr. stendur: „Enginn má bjóða fisk til sölu, selja eða flytja fisk til útlanda nema með leyfi fiskimálanefndar“. Þetta virðist okkur vera óþarflega mikið bann og leggjum til, að orðin „bjóða fisk til sölu, selja eða“ falli burt, en að hitt standi. „Enginn má flytja fisk til útlanda nema með leyfi fisksölunefndar“. Þegar þess er gætt, að í öðrum ákvæðum frv. er fisksölun. heimilað að setja lágmarksverð á fiskinn, sem hún á vitaskuld að nota, er ekki sýnilegt, að nauðsynlegt sé að banna að bjóða fisk eða selja, því að auðvitað flytur enginn fisk út nema til að selja hann, og það er í þessu máli öllu varhugavert að leggja meiri höft á þessa verzlun en er algerlega nauðsynlegt. Sá maður, sem verzlar með fisk, og veit það, eins og verða mundi um fiskútflytjendur undir þessu fyrirkomulagi, að hann má ekki selja við skulum segja Barcelonafisk undir 28 skildingum pakkann kominn til Barcelona, hann fer ekki að leika sér að því að bjóða fisk fyrir lægra verð. En það lágmarksverð, sem gildir, er skilyrði fyrir, að þeir fái að flytja út fisk. Það verður því ekki séð, hvað þessi upptalning á að þýða, þegar allt liggur í valdi n. og hún hefir heimild til að ákveða lágmarksverð, sem verður auðvitað gert að skilyrði fyrir því, að leyfið fáist. Vald hennar er því nægilega sterkt, þegar allir verða að sækja um útflutningsleyfi til hennar. — Um niðurlag gr. og þá undanþágu, sem þar um ræðir, hefi ég áður talað. Við flytjum brtt. við hana, og hefi ég lýst henni áður.

Þá komum við að 4. gr. Þar segir svo, að fiskimálan. löggildi saltfiskútflytjendur og ákveði tölu þeirra og löggildingartíma. Þá er gert ráð fyrir, að ef eitthvert félag hefir fengið löggildingu sem saltfiskútflytjandi og hefir umráð yfir 80% eða meira af saltfisksframleiðslu landsmanna, þá geti fiskimálan. ákveðið að veita því útflutningsleyfi fyrir jafnháum eða hærri hundraðshluta af framleiðslunni. M. ö. o., þarna virðist vera heimild fyrir n. að gefa einu félagi, ef það uppfyllir sett skilyrði, nokkurskonar einkarétt á að flytja út fisk. Þeir, sem hafa talað fyrir þessu máli, hafa látið í ljós, að þetta væri gert með tilliti til sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Það er út af fyrir sig ákaflega hæpið, að nokkurt eitt félag fái 80% af framleiðslu landsmanna til meðferðar, en útilokað er það kannske ekki. Hinsvegar þótti okkur flm. þessar, brtt. á þskj. 681 rétt að færa þetta nokkuð niður, þó ekki mikið, og gerum ráð fyrir, að svona fél. fiskiframleiðenda gæti fengið löggildingu með þeirri viðbót, sem gr. ákveður, ef það hefir yfir að ráða 75% af fiskmagni landsmanna. Þetta munar ekki miklu, aðeins 5% lægra, en við álítum, að neðar en í 75% sé alls ekki farandi, því að ef um slíkt fél. væri að ræða, hvort sem það væri Sölusamband ísl. fiskframleiðenda eða eitthvert annað fél., þá er bert, að slíkt fél., sem ætti að njóta þeirra fríðinda, að fá einkarétt hjá stj. að flytja út fisk, það verður að vera sterkt og hafa traust og samúð alls þorra fiskframleiðenda. og ljósasti mælikvarðinn um fylgi slíkrar stofnunar er það, hvað margir framleiðendur sameinast um þetta fél.

Ég vil í þessu sambandi drepa á það, að hv. þm. V.-Ísf. flutti brtt. um að lækka þetta niður í 65%. Þar er að mínu áliti farið langt of lágt. Þetta er hlutur, sem þarf vel að athuga, því að það er ekki gerandi leikur að því að gefa einni stofnun einkarétt á því að flytja út fisk landsmanna, nema ljósar sannanir liggi fyrir um það, að stórmikill meiri hl. af fiskframleiðendum vilji hlíta forsjá þeirrar stofnunar.

Þá eru í þessu stjfrv., sem ég leyfi mér að nefna svo, þó að það sé flutt af nefndarhluta, reistar miklar skorður við því, hvernig fél., sem fengi þessi fríðindi, eigi að vera uppbyggt, svo að það finni náð fyrir augum stj. og fiskimálan. Þarf ég ekki að lýsa því, þar sem það stendur í frv. Um það hafði hv. þm. Ísaf. þau ummæli, að þingið yrði að hafa fullvissu fyrir því, að slíkt félag yrði byggt upp, eins og hann orðaði það, á skipulögðum félagsgrundvelli. Við lítum svo á, sem flytjum þessar brtt., að í hverjum félagsskap séu það meðlimirnir sjálfir, sem eigi að ráða, hvaða skipulag þeir hafa á sínu fél. Þetta er almenn skoðun um öll fél., og það á sannarlega eins við um félagsskap þeirra manna, sem selja fisk. Ef 80% af öllu fiskmagni landsmanna, eða 75% eins og við leggjum til, sópast saman í einn félagsskap, þá er engin ástæða til þess fyrir þingið að vera að setja fyrirfram vissar reglur fyrir því, hvernig atkvæðisréttur eigi að vera í því fél. Slíkum fyrirkomulagsatriðum eiga að mínum dómi félagsmenn sjálfir að ráða. Hitt er sjálfsagt, að ef slíkur félagsskapur væri löggiltur, þá verður hann að vera opinn fyrir alla, sem hafa fisk að selja og vilja koma í félagið, og það höfum við tekið upp í okkar brtt.

Þá vil ég í þessu sambandi benda á ummæli landsbankastj. um þetta atriði, og þau mátti heyra í því bréfi, sem hv. þm. Ísaf. las hér upp frá landsbankastj. og m. a. víkja að þessu atriði. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðallega er deilt um í þessu máli, hvort ráða skuli í slíkum félagsskap og starfað hefir hér að fisksölu, fiskimagn hvers einstaks einvörðungu eða með vissum takmörkunum eða höfðatölu félagsmanna. Að ráða fram úr því máli á heppilegan hátt, svo að vel megi við una, er markmið þeirra, er að þessum málum vinna, og þ. á m. þings og stj. En vér lítum svo á, að of snemmt hafi verið að ráða því endanlega til lykta nú, og vel hefði mátt notast við það fyrirkomulag, sem S. Í. F. hefir skapað, þar til menn hafa komizt að fastri niðurstöðu um endanlegt fyrirkomulag á þessum málum, og viðskiptaerfiðleikar þeir, sem nú standa yfir, eru liðnir hjá.“

Nú er það vitanlegt, að um sama leyti og stj. lætur málið koma fram í þinginu stóð fulltrúafundur S. Í. F., þar sem ákveðið var, að meðal fiskeigenda skyldi fara fram kosning á framkvæmdastj. fyrir þann félagsskap, og að atkvæðin skyldu miðast við ákveðið magn fiskjar, þannig að eitt atkv. væri fyrir ákveðinn fjölda skp. Ég veit ekki, hvort það er rétt, að stj. Landsbankans hafi deilt á um það, hvernig slíkur félagsskapur skyldi byggður upp. Annars skiptir það ekki miklu máli fyrir fisksölu landsmanna, hvort stj. þessa félagsskapar skuli byggð upp eins og fulltrúafundur S. Í. F. gerði ráð fyrir eða með öðrum hætti, sem fiskeigendur gætu komið sér saman um. Hitt er aðalatriðið, að hlutaðeigendur fái að vera sjálfráðir um það, hvernig þeir byggja upp þennan félagsskap. Þess vegna höfum við í brtt. okkar farið fram á, að sleppt sé þeim reglum, sem í frv. eru og eiga að vera skilyrði fyrir einkarétti til útflutnings fiskjar, en haldið aftur ákvæðunum um, að meiri hl. fiskeigenda verði að vera í þessum félagsskap, og að hann standi öllum opinn, sem í hann vilja ganga.

Þá er brtt. okkar við 5. gr. Í 5. gr. frv. segir svo m. a.: „Þeir, sem samkvæmt 4. og 5. gr. fá löggildingu nefndarinnar sem útflytjendur, verða að skuldbinda sig til að hlíta fyrirmælum hennar um framboð og lágmarksverð á fiski, sem seldur er til útlanda, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma, afhendingu gjaldeyris og annað það, sem n. setur að skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfa samkvæmt lögum þessum.“ Hér er ljóst, að það er enginn hægðarleikur að hreyfa sig innan þessa ramma. Þeir, sem útflutningsleyfi fá, verða að hlíta fyrirmælum n. um það, hvenær þeir bjóða fiskinn fram, hlíta lágmarksverði og ennfremur að hlíta fyrirmælum hennar um skiptingu markaðsstaða. Annars virðist mér ekki vel ljóst, hvað stj. meinar með þessu um skiptingu markaðsstaðanna. Á kannske að skilja það svo, að sumir megi flytja út á markaðinn í Barcelóna og aðrir til Lissabon o. s. frv. — Þá eiga útflytjendur ennfremur að hlíta fyrirmælum n. um útflutningstíma, og einnig á n. að hafa hönd í bagga með þeim um þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir fiskinn, þrátt fyrir það, þó að gjaldeyrislög séu í landi hér. Og að síðustu segir svo, að útflytjendur séu skyldir að hlíta fyrirmælum n. um „annað það“, sem hún kann að setja sem skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfa. Það er erfitt að segja, hvað þetta „annað það“ er, en það er þó sýnilegt, að n. á að geta gripið inn í starf þessara manna svo að segja á hverju augnabliki, sem henni sýnist. Eigi að lögfesta slík ákvæði sem þetta, þá fæ ég ekki séð, hverju útflytjendurnir eiga að ráða. Sé því nokkuð meint með þessu, þá er ljóst, að það á að torvelda svo fisksöluna, að af því getur stafað stór hætta. Það er fiskimálan., sem á að selja fiskinn, þar sem hún á að ráða, hvenær hann er seldur og hvert hann er seldur. Aftur á móti fá þeir menn, sem útflutninginn eiga að hafa á hendi, engu að ráða. Menn, sem gera má ráð fyrir, að fengizt hafi við fisksölu um áratugi, eru gerðir ómyndugir. Yfir þá er þessi n. algerlega sett, sem engin trygging er fyrir, að veljist í menn, sem eins gott vit hafa á fiskverzlun, hvað þá meira, en þeir menn, sem fengizt hafa og koma til með að fást við útflutningsverzlunina á komandi árum. Um þessa gr. frv. hefir stj. Landsbankans látið í ljós álit sitt. Um hana segir svo í bréfi bankastj.:

„ ... Ennfremur verður að telja ýms ákvæði í 5. gr. frv. varhugaverð að því leyti sem þau beinast að kaupandanum ytra.“

Í ádeilu minni ákvæði þessarar gr. hefi ég ekki farið inn á það, hve varhugaverð þau væru að því er snertir kaupendurna ytra, heldur leitazt við að sýna fram á, hve lamandi áhrif þau koma til með að hafa á starf þeirra innlendu manna, sem með fisksöluna eiga að fara. En stj. Landsbankans sýnir fram á, hver áhrif þau kunni að hafa á erlenda kaupendur, og að því verður að gefa gaum. Því að í raun og veru er það svo, að það hefir tiltölulega litla þýðingu, hvað þingmeirihlutinn gerir óviturlegt gagnvart landsmönnum innanlands, móts við það, sem hann kann að geta gert gagnvart hinum erlendu kaupendum með þvingunarráðstöfunum og óviturlegum valdboðum. Á því byggist vitanlega öll afkoma okkar fátæka þjóðfélags, að við getum selt framleiðslu okkar á sem hagkvæmastan hátt.

Við, sem flytjum brtt. á þskj. 681, álítum ákvæði 5. gr. nægileg, þannig að þeir, sem fái löggildingu fiskimálan. sem útflytjendur, verði að skuldbinda sig til að hlíta fyrirmælum hennar um lágmarksverð á fiski, sem seldur er til útlanda. Þá tókum við og upp í brtt. okkar, að útflytjendur séu skyldir að taka við fiski til sölu af hverjum framleiðanda sem er fyrir hæfilega þóknun, og ennfremur að skylda útflytjendur að greiða fyrir því, að allir fiskframleiðendur njóti sem fyllsts jafnréttis um sölu framleiðslu sinnar. Með þessu þykjumst við hafa sýnt það, að við viljum hlíta allri skynsamlegri íhlutun um þessi efni, en forðast allt það, sem getur orðið til þess að gera kaupendurna óánægða við seljendurna. Í einu orði sagt: við viljum forðast allt það, sem getur orðið til þess að spilla fyrir sölu á ísl. fiski.

Þá er síðasta brtt. okkar. Hún gengur lengst af öllum brtt. okkar, og þá sennilega um leið næst hjartarótum þeirra, sem flytja frv. Það, sem við förum fram á, er, að 12. gr. verði felld niður, og er þá um leið felld niður heimild fyrir stj. að taka upp einkasölu á saltfiski. Slík heimild má ekki vera í frv., og verður því að fella hana niður, m. a. til þess að fiskimálan. geti notið sín. Um þá hættu, sem stafa kann af því að leiða slíkt ákvæði í lög, liggja fyrir glögg ummæli frá bankastjórum beggja bankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, og vil ég benda á umsögn þeirra um þessa einkasöluheimild í 12. gr. Bankastjórar Útvegsbankans taka þetta fram: „Við undirritaðir bankastjórar getum fallizt á frv. þetta í aðalatriðum, ef 12. gr. þess félli niður. Þá grein teljum við bæði óþarfa og varhugaverða. Óþarfa vegna þess, að við teljum engin líkindi til þess, að til hennar þurfi að grípa, og varhugaverða vegna þess, að við vitum ekki, hver ófyrirsjáanleg og skaðleg áhrif hún gæti haft á fiskverzlun vora í Suður-Evrópu, ekki aðeins ef hún kæmi til framkvæmda, heldur og þó hér væri aðeins um heimild að ræða.“

Bankastjórar Landsbankans benda líka á þessa hættu. Þeim farast svo orð í bréfi sínu: „Vér munum ekki fara inn á einstakar greinar frv., en aðeins benda á eftirfarandi atriði: Að vér teljum ákvæðin um einkasölu á fiski í 12. gr. frv. mjög athugaverð, sérstaklega með tilliti til markaðslandanna í Suður-Evrópu, þar sem lengur má ekki heyrast nefnt orðið einkasala.“

Við, sem setið höfum á Alþingi í mörg ár við hliðina á sósíalistum og öðrum einkasölupostulum, eru orðnir vanir því, að okkur sé mótmælt, og að rök okkar gegn einkasölu séu léttvæg talin af þessum mönnum. En það hefir ekki verið venja að heyra mikið frá bönkunum um þessi atriði. Það mega því teljast stór tíðindi þegar bankastjórar beggja aðalbankanna telja sér skylt að benda Alþ. á þá hættu, sem af því geti leitt að stefna fisksölunni í einkasöluáttina. Jafnvel að hafa aðeins heimild í l. um einkasölu á saltfiski, þó aldrei sé til hennar gripið, getur verið mjög varhugavert, eins og bankastjórar Útvegsbankans komast að orði. Mér virðist því, að hv. dm., og þá ekki sízt þeir, sem venjulega hafa annara hagsmuna að gæta en hagsmuna sjávarútvegsins, ættu að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir ljá fylgi sitt til þess að lögfesta ákvæði um fisksöluna, sem af forráðamönnum bankanna eru talin stórhættuleg. Jafnframt vil ég beina því til þeirra, sem telja sig fulltrúa fyrir sjávarútvegskjördæmi, að láta sér ekki til hugar koma að leika sér að þessum eldi, þegar líka þeim er á það bent af þeim mönnum, sem bezt þekkja til um þessi mál. Annars hélt ég, að síðustu mánuðirnir hefðu verið búnir að færa okkur fyllilega heim sanninn um það, að þeir væru nógir örðugleikarnir, sem okkar fátæka þjóð á við að stríða í markaðslöndunum, þó að við förum ekki að auka á þá sjálfir með óviturlegri löggjöf á Alþ.

Þá hefi ég lýst brtt. þeim, sem hér liggja fyrir á þskj. 681, frá okkur hv. 1. þm. Rang. Við hefðum víst báðir kosið að þurfa ekki að koma fram með brtt. í þessu máli. Við hefðum víst sannarlega kosið að þurfa ekki að fara að glíma við þennan einkasöludraug, sem stefnir öllu til tjóns, en úr því að hann kom fram, þá var ekki um annað að ræða en reyna að gera sitt ýtrasta til þess að draga úr skaðsemi hans. Og þó að við að sjálfsögðu séum því fráhverfir, að frv. í heild nái fram að ganga, þá teljum við okkur skylt að gera tilraun til þess að breyta þeim ákvæðum þess, sem fyrirsjáanlegt er, að geti orðið til stórtjóns, ekki aðeins fyrir verzlun landsmanna inn á við, heldur og líka fyrir verzlun landsmanna út á við.

Það er komin fram ný brtt. í þessu máli, frá meiri hl. sjútvn., sem flytur það. Ennfremur hefir hv. þm. V.-Ísf. flutt margar brtt. á þskj. 684. Ég skal fúslega játa, að ég hefi ekki á þeim stutta tíma, sem við höfum haft mál þetta til meðferðar, getað sett mig inn á það sem skyldi. Ég hefi því ekki getað gert mér fulla grein fyrir því, hvað heppilegast muni vera af brtt. hv. þm. V.-Ísf., en þó hygg ég svona fljótlega álitið, að þær muni flestar miða til bóta á frv., að undantekinni brtt., sem snertir 12. gr. Hún er að mínu áliti gagnslaus, því að þar er gert ráð fyrir, að einkasöluheimildin verði áfram í frv. og að einkasalan geti komizt á. Hinsvegar er í brtt. frá meiri hl. sjútvn. á þskj. 692 allmikið nýmæli á ferðinni, sem kemur sannast að segja dálítið undarlega fyrir sjónir, þar sem ríkisstj. er heimilað að veita einstaklingum og félögum lán eða styrk til þess að koma upp tækjum til þess að verka fisk og aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu og hraðfrystingu, og til þess að gera tilraunir með sölu fiskjar á nýja markaðsstaði, og verja til þess allt að 1 millj. kr. Það á að verja þessu fé til þess yfirleitt að gera allskonar tilraunir með nýjar verkunaraðferðir og til þess að finna nýja markaði fyrir sjávarafurðir. Að vísu er það gert að skilyrði, að lagt verði fram fé úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði í sama skyni. Við þessu eins og það stendur í brtt. er fljótt á litið ekki nema gott eitt að segja, en þó er rétt að athuga það, að allar slíkar tilraunir, eða flestar í þá átt, eru þess eðlis, að rétt er að líta á þær með allri varfærni þegar um stór fjárútlát er að ræða. Viðvíkjandi því, að hér hefir verið mikið talað um hraðfrystingu, og að sumir virðast líta svo á, að allur vandinn sé leystur, ef byggð verði hraðfrystihús víðsvegar um landið, þá vil ég benda á það, að með þessu einu er þó vandinn ekki leystur. Eins og við höfum vikið að í skýrslum milliþingan. í sjávarútvegsmálum, þá er það ekki vandinn að hraðfrysta fiskinn, heldur að finna kaupendur að honum. Og það er hlutur, sem ekki verður leystur í snöggu bili, og það væri mjög varhugavert að hlaupa til og verja heilli millj. kr. í þvílíkar eða þessháttar tilraunir, og ég vil segja það, að réttara sé að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessu efni, þar sem um það er að ræða að leggja í mikinn kostnað. Þetta á þó vitanlega ekki að skoða sem mótmæli gegn skynsamlegum tilraunum í þessu efni, eða því, að reynt verði að afla nýrra markaða, en það er öllum kunnugt, að hraðfrystur fiskur er vara, sem á örðugt uppdráttar úti um heiminn. Þeir menn hér heima, sem mesta kunnugleika hafa í þessum efnum, vita, að þetta er rétt. Milliþn. hafði talsvert fyrir því að afla sér upplýsinga um þetta atriði, og niðurstaðan varð sú að því er snertir hraðfrysta fiskinn, að markaðsmöguleikar fyrir hann væru heldur að vaxa, að vísu fyrir það, að unnið væri með kostgæfni að því að kynna hann, en mikil aukning á sölu mundi ekki verða í einu vetfangi, heldur á mörgum árum. Um herðingu fiskjar er nokkuð öðru máli að gegna; um þá aðferð er rætt í till. milliþn. og talsverðar upplýsingar getnar í því máli bæði í Ægi og víðar, en þó sérstaklega í skýrslu fiskifulltrúans Kristjáns Jónssonar. N. bendir á það í áliti sínu, að sjálfsagt sé að herða einhvern hluta af fiskframleiðslunni, en þó að því sé nú horfið, þá lít ég svo á, að ekki þurfi til þess mörg hundruð þúsund kr., hvað þá milljón. Í sambandi við þær verkunarleiðir, sem frv. ræðir um, hlýtur að verða mögulegt fyrir fiskimálan. að fá menn til að herða fisk í þeim verstöðvum, þar sem loftslagið er heppilegast fyrir þá verkunaraðferð, með því að velta til þess nokkurn fjárstyrk, án þess að valdboð þurfi að koma til. Ég skal í því sambandi benda á nokkrar stöðvar á Vesturlandi og jafnvel Akranes, en einkanlega þó þær verstöðvar, þar sem erfitt er með aðflutninga á salti eða þeir eru mjög dýrir.

Ég vil sízt hafa á móti því í brtt., er snertir styrki í skynsamlegar áttir til þess að útvega nýja markaði fyrir ísl. fisk, og jafnvel um breyttar verkunaraðferðir, en hitt er nauðsynlegt, að hér sé unnið með hinni mestu forsjá og eftir ráðum hinna kunnustu manna. Það hafa iðulega komið hér fyrir þingið beiðnir um styrk til nýrra veiði- og verkunaraðferða, en margar þeirra hafa ekki verið annað en tilgangslaust fálm oft og tíðum, m. a. s. án þess að nokkur ástæðu hafi verið, hvað þá vissa, fyrir því, að þær aðferðir kæmu að notum. Ég efa það ekki, ef fiskimálan. tekur nú til starfa og hún hefir milljón kr. undir höndum, að þá koma ótal umsóknir um styrk til þess að reyna nýjar veiði- og verkunaraðferðir og til þess að leita nýrra markaða. Úr þessu þarf svo n. að vinza það, sem mestar líkur eru til, að affarasælast verði fyrir þjóðina í framtíðinni. Annars vona ég, að þessar till. meiri hl. sjútvn. fái ekki samskonar viðtökur hjá andstæðingum stj. og milliþn. í sjávarútvegsmálum fékk hjá hæstv. atvmrh. fyrir sínar till. um að bæta hag allra útvegsmanna í landinu, þar sem henni var borið á brýn, að hún hefði vanrækt að sjá fyrir því, að peningar væru fyrir hendi til þess að létta skuldabyrðar sjávarútvegsins, hefði vanrækt sitt aðalstarf. Ég svaraði þessu á sínum tíma og sannaði það, að n. hefði ekkert vanrækt í þessu efni. En ef það hefir verið eina vanrækslan hjá n. að benda ekki stj. á að taka lán til þessarar hjálpar, sem n. lagði til, að sjávarútgerðinni væri veitt, þá sýnist, að létt hefði verið fyrir n. að sleppa hjá ákúrum fyrir till. sínar á þessu þingi.

Með brtt. meiri hl. sjútvn. er ríkisstj. falið að verja 1 millj. kr. til tilrauna með nýjar fiskverkunaraðferðir og útvegun nýrra markaða. Blöð stj. segja frá þessu í dag með feitu letri. Það er svo að sjá, sem nú skorti ekki stj. möguleika til þess að leggja fé til styrktar þessum atvinnuvegi. Ég segi ekki annað en vel og gott við því, að stj. hefir aukizt svo ásmegin allt í einu, en á hinn bóginn harma ég það, að hún skuli ekki hafa séð nein ráð til þess að efla fiskveiðasjóð og skuldaskilasjóð, sem þó var mikið rætt um við hana nú á þinginu.

Að lokum vil ég minnast á þá sérstöku nauðsyn, sem hv. þm. Ísaf. taldi á því vera að knýja þetta frv. fram einmitt nú. Hann sagði, að þessi nauðsyn væri sérstaklega aðkallandi nú, og hann sagði það, er hann var nýbúinn að lesa upp mótmæli þjóðbankans gegn þessu frv., mótmæli Útvegsbankans, sem sérstaklega er ætlað að bera hag útgerðarmanna fyrir brjósti, mótmæli fisksölusamlagsins, en í þess stj. sitja færustu menn í þessum efnum. Eftir að hann hafði lesið yfir hv. þdm. mótmæli gegn frv. frá öllum þessum aðilum, þá lýsti form. sjútvn., hv. þm. Ísaf., því yfir, að það væri alveg sérstök ástæða til að knýja þetta mál fram, af því að þessi mótmæli lægju fyrir. Ég ætla ekki að gera neina sérstaka aths. um þessa yfirlýsingu þessa hv. þm. aðra en þá að skýra frá, hvaða ályktun hann dregur af þeim mótmælum, sem komið hafa frá þessum mikilsverðu aðilum. En ég vil aðeins segja það, að þegar liggja fyrir önnur eins mótmæli og þau, er ég hefi hér lýst, þá er vissulega full ástæða til þess fyrir Alþ., að gæta þess að lögfesta það eitt, sem menn eru fullkomlega öruggir og vissir um, að sé til hagsbóta fyrir útveginn og hagsmuna fyrir þjóðina. Og þess verða hv. þdm. að gæta, að stuðning við þetta frv. er ekki að finna í þeim bréfum, sem borizt hafa þinginu frá þessum aðiljum. Ég vil beina því til hv. d., að hún taki til greina þessi mótmæli, þessar raddir; að hún hlusti á þessar raddir og taki til yfirvegunar þau atriði í frv., sem sérstaklega er bent á í hinum merku erindum frá þessum stofnunum, sem þær telja sérstaklega varhugaverð. Og ennfremur vil ég beina því til hv. d., að hún líti á till. okkar hv. fyrri þm. Rang., sem ég hygg, að megi segja, að allar miði til þess að bæta frv. mjög, enda er því mjög mikilla endurbóta þörf. Þetta er, eins og ég hefi áður drepið á, svo alvarlegt mál, að það verður að gefa því hinar nákvæmustu gætur, að ekki sé stigið neitt víxlspor í því. Við, sem bendum á hætturnar, getum ekki annað; við getum ekki ráðið niðurlögum þessa máls, en við teljum hinsvegar skylt að gera það, sem við getum til þess að lagfæra frv. Ég játa það, að mörg ákvæði frv. þyrfti að laga, sem brtt. okkar ná ekki til, en eru ekki eins aðkallandi og þau, er við höfum tekið fyrir og ég hefi gert að umtalsefni. En á þessum stutta tíma, sem við höfum haft til að athuga frv., hefi ég tekið fyrir háskalegustu galla þess, og þeir lagfærast, ef brtt. okkar á þskj. 669 verða samþ.