06.12.1934
Neðri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2383 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

150. mál, fiskimálanefnd

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég hefi skamman tíma til umráða að þessu sinni og mun þó nota hann til þess að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég hefi borið fram við þetta frv. Ég hefi eins og fleiri beðið eftir nál. meiri hl. sjútvn. og ennfremur beðið eftir umsögnum bankanna og fisksölusamlagsins, sem ég vildi sjá áður en ég semdi mínar brtt., en það fór þó svo, að ég varð að gera þær áður en ég fékk að sjá þessar umsagnir. Ég varð því að byggja þær eingöngu á þeim kunnugleika, sem ég hefi undanfarið aflað mér á fisksölunni, þekkingu, sem ég skal þó ekki státa af.

Fyrsta brtt. mín er um það, að í fiskimálan. megi ekki skipa stjórnarmenn eða starfsmenn neins fiskútflytjendafél. Ég hefi að vísu umorðað þetta í annari brtt., þar eð mér þótti rétt að undanskilja fulltrúa banka, sem kynnu að sitja í stj. fisksölufélags. Þeir eru raunar fulltrúar allra landsmanna og tel ég ekkert því til fyrirstöðu, að fulltrúi banka sé bæði í n. og stj. fisksölufélags í senn. Þá er 2. brtt. um að taka valdið yfir útflutningsleyfum og löggildingu útflytjenda úr höndum fiskimálan. og fá það í hendur ráðh. Ég tel þetta réttara, ef svo verður, sem ég vona, að einn aðalútflytjandi verði löggiltur. Þá fer betur á því, að ráðh. hafi þetta vald, sem verður að mestu leyti pro forma, því vitanlega fer ráðh. mikið eftir áliti þessa stóra útflytjendafélags. Væri þetta vald yfir útflutningnum aftur á móti í höndum nefndar, þá væri nokkur hætta á, að ágreiningur gæti skapazt milli margmennrar n. annarsvegar og stj. fisksölusamlagsins hinsvegar. Ég geri ráð fyrir, að ráðh. mundi útdeila svo stóru félagi árskvóta í einu, ef félagið réði yfir mestöllu fiskimagninu, og svo viðbót, ef ástæður leyfðu. Ef útflytjendur verða hinsvegar margir og smáir, má búast við, að þyrfti að útdeila þeim kvóta smátt og smátt eftir árstíðum, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að sú útdeiling væri þá í höndum fiskimálan.

Þá er á þskj. 684 brtt. á 3. gr. frv., sama eðlis og hin fyrrtalda, að því leyti, að atvmrh. er falið í staðinn fyrir fiskimálan. að veita útflutnings- og verzlunarleyfi, og er það í samræmi við það, sem áður er getið. C-liður þessarar brtt. er þess efnis, að atvmrh. sé heimilt að fela fisksölun. eða almennu fisksölusamlagi úthlutun útflutningsleyfa og framkvæmd annara starfa samkv. þessum l., eftir því, sem ráðlegt þykir. Það er vitanlega rétt, að ef útflutningurinn verður mestur í höndum eins félags, þá eiga framleiðendur að hafa vald yfir útflutningnum sjálfir að mestu, en ef útflutningurinn er á fleiri, smærri höndum, þá þarf þetta vald að vera hjá öðrum en stj., vegna þess, hve yfirgripsmikið starfið yrði. Því hefi ég lagt til, að í því tilfelli hyrfi valdið yfir til fiskimálan., sem hefði þá daglegar upplýsingar um sölu- og markaðshorfur.

Þá eru nokkrar brtt. við 4. gr. Sumt er í samræmi við þær brtt., er ég hefi nú talað um, en þar er einnig lagt til, að í staðinn fyrir það, að í frv. er gert ráð fyrir því, að fél., sem hefir 80% af fiskiútflutningnum, megi veita vald yfir útflutningi á þessu fiskimagni eða meiru, þá megi þetta eins þó að félagið hafi ekki ráð á nema 63% af öllum útflutningi eða meiru. Nú var það svo á síðastl. ári, og er kannske eins á þessu ári, að einn útflytjandi, sem er fyrir utan samlagið, hefir vald yfir 12% af öllum útflutningnum, og ef hann heldur áfram að vera utan við samlagið, þá þyrftu aðrir útflytjendur, sem gengju úr samlaginu, ekki að hafa nema 8% af útflutningnum til þess að útilokað sé fyrir ráðh. að veita samlaginu sérréttindi yfir útflutningnum. Af þessu er bert, að skilyrðið er sett of hátt í frv. En er ég sá brtt. minni hl. sjútvn. um þetta atriði, flutti ég varatill. um að miða við 75% af fiskmagni landsmanna. Þessa varatill. flyt ég aðeins vegna þess, að mér leikur grunur á, að erfitt muni að fá svo lága prósentu sem 65% samþ.

Þá er annar liður þessarar sömu brtt., um það, að þeir, sem standa utan aðalsamlagsins og hafa þó fengið löggildingu, skuli hlíta fyrirmælum atvmrh. um framboð, lágmarksverð og útflutningstíma á saltfiski. Þetta er nauðsynlegt til þess, að þeir, sem standa fyrir utan aðalsamlagið, geti ekki misbeitt sinni aðstöðu á þann veg að selja eingöngu á bezta tíma og á bezta markað. Mér er kunnugt um, að fisksölusamlagið hefir óskað eftir, að einhver slík heimild væri til, til þess að samkeppnin milli þessara tveggja aðila þurfi ekki að vera óheilbrigð. En undanfarið hefir fisksölusamlagið staðið höllum fæti, því að smáútflytjendur hafa betri tök á að velja sér tíma og markað heldur en stór útflytjandi, sem þarf að fullnægja öllum mörkuðum á öllum tímum.

Í brtt. við sömu gr., b-lið, er lagt til, að aðalfélag, sem eftir minni till. hefir 65% af saltfiskframleiðslu landsmanna, en eftir frv. 80%, eigi rétt á löggildingu og þeim hlunnindum, sem um ræðir í frv. Er brtt. mín í vil slíku félagi, en eftir frv. er fiskimálan. sett það í sjálfsvald. hvort slíku fél. séu gefin sérréttindi. En verði útgerðarmenn samtaka, eins og þeir nú hafa verið um skeið, og ég vænti, að þeir verði það framvegis, þá tel ég rétt, að þess gefist enginn kostur, hvorki fyrir ráðh. né fiskimálan. að neita fél. þeirra um löggildingu og önnur réttindi.

Þá er 5. brtt. mín, um það ákvæði 5. gr. frv., sem margir óttast mest í þessu frv. Till. mín felur í sér, að 5. gr. nái ekki til almenns fisksölusamlags, heldur komi eingöngu til framkvæmda, ef útflutningurinn skyldi deilast á margar hendur og ekkert stórt yfirgnæfandi fisksölusamlag vera til. Í því tilfelli, að löggiltir séu t. d. fimm útflutningsmenn hver um sig, sem hafa t. d. 20% af útflutningnum hver um sig, þá þarf vitanlega sérstaka nefnd til að sjá um það, að þessi útflutningsfél. keppi ekki hvert við annað til stórskaða fyrir landslýðinn. Ég veit, að ef til þessa kæmi, yrði starf fiskimálan. um að jafna milli þessara fél. ákaflega vandasamt, kannske allt að því óframkvæmanlegt, a. m. k. annan veg en þann, að það yrði stöðugt rifrildi, tortryggni og viðleitni um að fá sérstöðu, og stöðug umhugsun hjá framleiðendum úti um land um það, hvaða fél. stæði bezt að vígi og væri mest innundir hjá fisksölunefndinni eða stj., og hvar þeir ættu að sækja um inntöku til þess að fá sem bezta aðstöðu fyrir sjálfa sig. Þetta hefir svo marga ókosti í för með sér, að ég verð að telja, að einkasöluheimildin í 12. gr. frv. sé nauðsynleg til þess að hindra, ef til kemur, að allt lendi í glundroða, sem slík smáfél. geta valdið. Það er þá ekki kostur annars, ef margir smáútflytjendur eiga að vera um markaðinn, en að láta eitt centralvald ákveða um allt, sem þarf að hafa tök á. bæði til þess að verðið hrapi ekki niður fyrir allt og að ekki verði misskipting á markaðinum.

Við 6. gr. flyt ég brtt., en þar hefir inn í a-liðinn slæðzt prentvilla, því að þar stendur „fisksölunefndinni“, sem ekki er til, en á vitanlega að vera fiskimálanefndin, enda hefi ég leiðrétt það á sérstöku þskj. Ég hefi og gert viðbót við þessa gr. vegna þess, að ég í mínum brtt. hefi tekið svo margt undan fiskimálan. og flutt yfir á ráðh., að fiskimálan. hefir ekki sjálf aðstöðu til þess að gera leiðréttingar á því, sem henni finnst athugavert hjá útflytjendum, og yrði því að snúa sér til ráðh. um að fá slíkar leiðréttingar. Er þessi viðbót mín sjálfsögð af þessum ástæðum.

Þá er 7. brtt. mín, um það, að verkunarleyfi sé ekki fyrirskipað í frv., heldur sé það látið laust, hvort það er fyrirskipað eða ekki, en þó hafi ráðh. heimild til þess að fyrirskipa verkunarleyfi, ef nauðsyn krefur. Nú er ástandið þannig á markaðinum, að vel má búast við eftir öllum skýrslum og upplýsingum, að þurfi að útdeila verkunarleyfum til þess að menn verki ekki of mikinn fisk á einn markað og vanti svo á annan. Því tel ég rétt, að þessi heimild haldist, og ég þykist vita, að enginn ráðh. fari að setja sig og fisksölun. út í þann vanda, sem fylgir útdeilingu slíkra leyfa, án þess að það sé nauðsynlegt fyrir fiskútflytjendur til þess að skapa jafnrétti meðal landsmanna. Það er töluvert atriði, að þetta sé heimild, en ekki fyrirskipað í lögum, eins og nú er í frv. meiri hl. sjútvn.

Þá hefi ég við 12. gr. flutt tvær höfuðbrtt., sem skipta miklu máli.

Fyrsta brtt. er um það, að ef til kæmi, að fiskimálan. óskaði eftir að fá einkaútflutningsleyfi og ráðh. fellst á það, þá skuli þó fisksölusamlagið sjálft ráða sínum framkvæmdarstjórum án nokkurrar íhlutunar af hálfu ráðh. eða fiskimálan.

Önnur brtt. stendur í sambandi við það, að ef stórt fisksölusamlag starfaði, þá sé á einskis manns valdi að neita um þau hlunnindi, sem heimiluð eru í frv.

Þriðja brtt. við þessa gr. er höfuðatriði. Hún er á þá leið, að lendi nú allt í glundroða, og að mörg smærri útflytjendafélög geti ekki leyst svo þetta vandamál, að við það verði unað, og ráðh. og fiskimálan. verði sammála um að fyrirskipa einkasölu, þá verði þó framleiðendum sjálfum gefinn kostur á að reka þá einkasölu sjálfir að öllu leyti, rétt eins og ef þeir eftir 4. gr. hefðu átt frumkvæðið að því að skapa slíkt félag.

Þetta hlýtur að draga mikið úr ótta þeirra, sem mest hræðast einkasölu. Að því leyti er þessi till. nauðsynleg, og ég hygg, að þessi mál fari bezt, ef framleiðendur sjálfir stjórna sínu fél. Þó er rétt að setja þeim skilyrði um það. hvernig slíkt fél. er byggt upp, ef þeir eiga að njóta sérréttinda og fara með svona ábyrgðarmikið starf.

Hitt get ég ekki fallizt á, a. m. k. ekki eftir þeim upplýsingum, sem komnar eru, að óþarfi sé að hafa þessa einkasöluheimild í frv.

Ég vil benda hv. þm. Vestm. á það, að í Noregi er í lögum heimild, sem svarar til þessarar einkasöluheimildar, því að það er heimild til að fyrirskipa fullkomið samstarf milli allra útflytjenda, og Norðmönnum hefir það ekki gert nokkurn skaða til þessa. Og ég man ekki betur en að nefndarmennirnir íslenzku, sem sendir voru niður til Spánar, símuðu mér heim um það, að allt eins vel mundi líka, að aðeins væri einn útflytjandi hér á Íslandi. Og á Ítalíu morar allt af einkasölum. Hvergi í álfunni er meira um einkasölur en þar, fyrir utan í Rússlandi. (ÓTh: Það verður bráðum á Íslandi, ef þessu heldur áfram). Ég ætla, að hv. þm. G.-K. muni einskis óska frekar en að verða sem líkastur Ítölum af öllum þjóðum álfunnar.

Tíminn er stuttur, sem ég hefi til umráða, og takmarka ég mig því alveg við mínar brtt., sem yfirleitt hníga í þá átt, að það verði eitt stórt framleiðslufél., sem hefir fullkomna sjálfstjórn, og hvað sem menn segja í hita bardagans um þá hluti, þá get ég ekki trúað öðru en að nauðsyn þeirra beztu kjara, sem samkv. frv. yrðu veitt slíku félagi, mundi yfirleitt knýja menn saman og valda því, að það yrði byggt á þeim grundvelli, sem „Union“ byggir á sín störf. Það fél. hefir forðað landinu frá stórtöpum, þó að vitaskuld megi margt að því finna, því að allt, sem orðið er, orkar tvímælis, og það þarf ekki að vera svo stórt fyrirtæki sem „Union“, að það geri ekki einhverntíma einhver glappaskot, sem sjá má eftir á. En hitt mættu allir vita, að svo stórt fél. getur ekki til lengdar staðið án skipulags, og þegar allir framleiðendur eru í slíku fél., þá er réttlátt, að farinn sé millivegur um skipun félagsins milli samvinnufélagsskapar og þess, að fiskmagnið eitt ráði. Í félagi, þar sem eru jafnaðarmenn, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, finnst mér heppilegast, að tekið sé tillit til einstaklinganna, sem í því eru, og fiskmagnsins, en ekki eingöngu til annarshvors.

Ég geri svo ráð fyrir, að ef þessar brtt. verða samþ., þá muni betur fara en á horfðist eftir ræðum sumra hv. þm. og sérstaklega, þar sem mér er kunnugt um, að sá ráðh., sem á að framkvæma þessi l., muni ekki stefna að öðru en því, að það sé aðeins eitt og sem sterkast fiskframleiðendafélag, sem fer með þessi mál. Og eigi það að stjórnast af framleiðendunum sjálfum þá eru það þeir, sem hafa alla ágóðavonina og áhættuna, og þeir munu bera skaðann með meira jafnaðargeði, ef illa fer, heldur en ef þrýst væri utan að þeim einhverjum annarlegum stjórnendum, sem þeir hefðu ekki valið sjálfir.

Það er eitt atriði, sem ég get tekið undir í bréfi Landsbankans, og það er, að það væri sannarlega ekki úr vegi, að allir flokkar settu sína beztu menn til að ráðgast um þetta mál áður en það er afgr. frá þinginu.