07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. er óþarft að brýna mig á því, að ég taki á mig mikla ábyrgð með flutningi þessa frv. Mér er þessi ábyrgð fullljós. Og mér er ljóst, hver vandkvæði eru á því að framkvæma þessi l., svo að haldi komi, í óþökk margra af fiskútflytjendum. Og ég skal játa, að mér þykir miður, að þessi umsögn skyldi koma frá S. Í. F. og Landsbankanum. En ég tek það fram, að af því að mér er ljóst, hversu mikið veltur á skipan þessara mála, þá er líka mikil ábyrgð samfara því að láta þetta reka á reiðanum, eins og gert hefir verið, ekki sízt þar sem svo er komið sem nú, að viðbúið er, eftir umsögn Landsbankans, að S. Í. F. klofni vegna þess, að þetta frv. kom fram. Ættu því allir að geta skilið, hvílíkt glapræði það væri að hafast ekkert að í þessum efnum. Þessi mál eru þann veg varin, að óverjandi er að skipa þeim ekki þann veg, sem sá, er mesta hefir ábyrgðina í þeim efnum, telur bezt farið. Ég veit, að svo erfitt sem það er að skipa málunum með löggjöf, þá er það ennþá erfiðara án löggjafar, og vil ég ekki mæta þeirri ábyrgð.

Ég skal ekki hrella hv. þm. með skrafi um lýðræðið. Ég hefi talað færra um það en hann, en ég held nú samt, að mætur okkar á því standi í öfugu hlutfalli við orðafjöldann. Hann vill a. m. k. ekki heyra það nefnt í verzlunar- og atvinnumálum. Hann vill, að fjármagnið, þeir, sem flesta hafi þorskana, séu einráðir um þessi mál.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja að fleiru í ræðu hv. þm. En til þess að sýna, að ekki var flanað að flutningi þessa frv., vil ég geta þess, að allir stjórnendur S. Í. F. vissu, að ég hafði í hyggju að flytja slíkt frv. Eins lét ég bíða að flytja frv. á Alþ., til að sjá, hver væri afstaða fulltrúa samtalsins.

Það er rangt hjá hv. þm., að ég hafi ekki getað sinnt málinu vegna annríkis, enda þótt ekkert mál í þinginu muni hafa tekið meiri tíma fyrir mér en þetta. (GTh: Hví lagði hæstv. ráðh. þá ekki frv. fyrir stj. S. Í. F.?). Ég áleit, að það væri þýðingarlaust. eins og stj. er nú skipuð, enda var mér fyrirfram kunnugt álit stjórnendanna.

Vík ég svo að aðalatriði frv. Ég skal ekki eyða mörgum orðum um hræðslu sumra hv. þm. við þessa hræðilegu einkasöluhugmynd. Mörgum þessara manna er ljóst, að einkasala er nauðsynleg, en hér er aðeins deilt um það, hverjir eiga að stjórna henni. Ég hefi áður lýst yfir því, að þessi einkasöluheimild muni ekki verða notuð án undangenginnar rannsóknar í markaðslöndunum á því, hvort hún geti orðið til óhagnaðar. Er líka til þess bent í frv., í upphafi 12. gr. Annars get ég sagt, að með tilliti til innanlandsástandsins álít ég, að bezt sé, að þetta sé allt á einni hendi. Aftur skiptir það minna máli, hvort salan er í hendi fiskframleiðenda eða ríkisstj. Aðalatriðið er sem sagt, sú salan sé á einni hendi.

Þetta er líka viðurkennt af þeim, sem telja sig á móti einkasölu.

Það er mjög harmað af stj. S. Í. F., að ekki skuli allir fiskframleiðendur fást inn í samlagið. Er það ekki nema eðlilegt frá þeirra sjónarmiði. En hér greinir aðeins á um það, hvorir ráða, þeir, sem eiga fiskinn, eða þeir, sem skipa stj. S. Í. F.

Frv. er svo byggt, að sérstök aðstaða er veitt einum útflytjanda, sem uppfyllir tvö skilyrði: annað, að hann ráði yfir 80% af útfluttu fiskmagni, en hitt, að hann uppfylli ákvæði 4. gr. frv., að fél. sé opið öllum fiskframleiðendum og að þorskatalan ráði þar ekki ein saman. (PHalld: Hví kallar hæstv. ráðh. aðalfiskframleiðendurna þorska?). Það hefi ég ekki gert. Ég á hér einungis við fiskmagnið. Má ekki taka meira tillit til fiskmagnsins en svo, að enginn hafi ráð yfir meiru en 1/20 atkv. Auk þess verður þetta vitanlega að vera löglegur félagsskapur, sem erlendir fiskkaupendur viti, hvernig upp er byggður.

Mér er svo mikið áhugamál að tryggja þetta, að ég er reiðubúinn að semja um enn frekari tryggingar að því er snertir sérstöðu þessa fél. borið saman við stærri og smærri framleiðendur. En ég vil, að það sé tryggt, að þessum málum verði ekki skipað aðeins eftir geðþótta þeirra manna.

Þá eru einstakar brtt.

1. brtt. hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Rang. á þskj. 681 gerir ráð fyrir, að niður falli í upphafi 2. gr. orðin „verkunarleyfi og“. Mig furðar á þessu frá þeim hv. þm. Í grg. frv., sem hv. þm. G.-K. flutti hér snemma á þingi, er bent á, að eftir nokkurn tíma myndu hafa safnazt fyrir svo miklar fiskbirgðir í landinu, að nægja myndu til útflutnings handa markaðslöndum vorum í heilt ár. Hvaða vit er þá í því að vilja ekki leyfa stj. að takmarka verkun? Er lítið vit í að verka fyrir Spán og Ítalíu miklu meira en von er til, að hægt verði að selja þangað. Þetta verður auðvitað ekki gert fyrr en nauðsyn er til, en heimild verður að vera fyrir því. Í frv. er þetta orðað svo, að n. skuli gera þetta, en ég get sætt mig við brtt. frá hv. þm. V.-Ísf., þess efnis, að hún geti gert það, ef henta þykir. — Ég mun greiða atkv. á móti þessari gr.

Þá er 2. brtt. á sama þskj., a- og b-liður. Ég tel ekki ástæðu til þessara breyt. á frv. Ég sé ekki ástæðu til að leyfa mönnum að bjóða til sölu fisk, sem þeir geta svo e. t. v. ekki selt fyrir hið boðna verð, af því að það kemur í bága við gildandi lagaákvæði: Sama er um b-lið að segja. Þar er gert ráð fyrir, að án sérstaks leyfis megi láta smásendingar til Stóra-Bretlands og Norðurlanda. Hvaða meining væri að leyfa slíkt og opna þannig leið til þess, að sá fiskur yrði sendur áfram til Suðurlanda á okkar kvóta.

Þá er 3. brtt., sem gerir ráð fyrir, að fél. fiskframleiðenda séu ekki sett önnur skilyrði en þau, að það skuli opið öllum fiskframleiðendum, og að það ráði yfir 75% af saltfiskframleiðslunni (í stað 80% í frv.). Sami hundraðshluti er nefndur í varatill. frá hv. þm. V.-Ísf., og get ég fallizt á þá breyt.

Þá eru meginatriði 5. gr. felld burt með 4. brtt., sem sé þau, að fiskimálan. geti sett sem skilyrði fyrir löggildingu manna sem útflytjenda, að þeir hlíti fyrirmælum hennar um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma, afhendingu gjaldeyris og annað. Þetta held ég, að sé mjög varhugavert. Þessi ákvæði eru m. a. til þess að koma í veg fyrir, að útflytjendur geti spillt hver fyrir öðrum, ef fleiri eru en einn.

Þá leggja þessir hv. þm. til, að 8. og 9. gr. falli niður, og er þetta í samræmi við brtt. þeirra við 2. gr., en henni hefi ég þegar svarað. Þá leggja þeir enn til, að 12. gr. verði niður felld, og þarf ég ekki að fjölyrða um þá till.

Ef svo er, sem vera virðist, eftir bréfi Landsbankans að dæma, að þetta frv. hafi orðið til að ríða S. Í. F. að fullu, þá er ekkert vit í að fella burtu einkasöluheimildina. Þá er engin leið til nema sú, að útflutningurinn verði fenginn í hendur fleiri, en smærri útflytjendum. Eina tryggingin er, að útflytjendur viti, að til sé einkasöluheimild, sem nauðsynleg er til að, hafa fullt eftirlit, ef um fleiri útflytjendur er að ræða en einn.

Þá er brtt. frá hv. 6. landsk., þess efnis, að aftan við 3. gr. bætist: „og ennfremur á verkuðum saltfiski til annara landa en aðalmarkaðslandanna“.

Ég hygg, að rétt sé að samþ. þessa brtt. Ég geri ráð fyrir, að þarna yrði um að ræða fisk, sem sendur yrði tilbúinn til neyzlu, en ekki til útflutnings eftir það til Suðurlanda.

Þá er brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. á þskj. 684. 1. brtt. er þess efnis, að ekki megi skipa í fiskimálan. stjórnarmenn eða starfsmenn neins fiskútflytjendafél. Við hana er aftur brtt. frá sama hv. þm. á þskj. 694, að hún orðist svo:

„Í fiskimálan. má ekki skipa neinn þann, sem starfar að fiskútflutningi. Ákvæði þetta nær þó ekki til fulltrúa bankanna í stjórn fisksölufélags“.

Ég er að öllu leyti samþykkur þessari till., en ég er ekki viss um, eins og hún er orðuð, að hún geti ekki komið í bága við skipan n. á einhvern hátt. Vil ég því mælast til við hv. þm., að hann taki till. aftur, og vil ég þá lofa því, að ég skal athuga, hvort ekki er hægt að ná því sama með öðru orðalagi við meðferð málsins í Ed.

Þá er 2. brtt. á þskj. 684. Fyrsta málsgr. 2. gr. frv. orðist svo:

„Fiskimálanefnd hefir með höndum úthlutun verkunarleyfa, ef þau verða fyrirskipuð“.

Ég get um þetta vísað til þess, er ég sagði í sambandi við brtt. á þskj. 681, og mun ég greiða atkv. með þessari till.

Þá geri ég ráð fyrir þeirri breyt., að úthlutun útflutningsleyfa og löggilding saltfiskútflytjenda verði lögð í hendur atvmrh. Segi ég þetta í sambandi við c-lið 3. brtt. á þskj. 684. Ég hefi gert skrifl. brtt. við þennan lið, svo hljóðandi: „Liðurinn orðist svo:

Aftan við gr. bætist: Atvmrh. getur falið fiskimálanefnd úthlutun útflutningsleyfa. Einnig getur ráðherra falið nefndinni eða almennu fisksölufélagi (sbr. 2. málsgr. 4. gr.) framkvæmd þeirra annara starfa, er ráðlegt þykir og undir hann heyra samkvæmt lögum þessum“.

Mér finnst ekki eðlilegt, eins og ráð er fyrir gert í brtt. hv. þm., að einn útflytjandi, þótt aðalútflytjandi sé, eins og t. d. S. Í. F., úthluti útflutningsleyfum til annara. Er eðlilegra, að þetta liggi hjá fiskimálan. eða ráðh.

Þá er brtt. við 4. gr. frv., fyrst a-liður, að í stað „Fiskimálanefnd“ komi: „Atvinnumálaráðherra“. Ég er þessu samþykkur. En ég tel þó rétt, að þetta yrði skilið svo, að atvmrh. leiti álits fiskimálan. áður en löggilding fer fram. Því hefi ég gert aðra skrifl. brtt. við þennan lið brtt. hv. þm., svo hljóðandi:

„Liðurinn orðist svo: Fyrstu málsgr. skal orða svo: atvinnumálaráðherra löggildir saltfiskútflytjendur, ákveður tölu þeirra og löggildingartíma, allt að fengnum tillögum fiskimálanefndar“.

Vona ég, að hv. þm. hafi ekkert á móti þeirri breyt.

Þá er b-liður þessarar brtt.:

„Fyrir „80% eða meira af saltfiskframleiðslu landsmanna, og getur þá fiskimálanefnd ákveðið“ í 2. málsl. kemur: 65% eða meira af saltfiskframleiðslu landsmanna, og getur þá atvinnumálaráðherra ákveðið“.

Til vara hefir hv. þm. borið fram brtt. á þskj. 694, þar sem 75% koma í stað 65%, og er það sami hundraðshluti og ákveðinn er í brtt. hv. þm. Vestm. á þskj. 681. Ég get fallizt á, að eðlilegt sé að færa töluna niður í 75%, en ég held, að 65% sé of lágt.

Um d-lið sömu brtt. get ég sagt, að ég er honum sammála. Þar er aðeins fellt niður smávægilegt atriði og óþarft.

Þá er sú brtt., sem að sumu leyti skiptir mestu máli, sem sé 5. brtt., við 5. gr. frv., á þskj. 684. En í 5. gr. eru þau ákvæði, „að þeir, sem samkv. 4. og 5. gr. fá löggildingu nefndarinnar sem útflytjendur, verða að skuldbinda sig til að hlíta fyrirmælum hennar um framboð og lágmarksverð á fiski, sem seldur er til útlanda, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma, afhendingu gjaldeyris og annað það, sem nefndin setur að skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfa samkvæmt lögum þessum“.

Þessi almennu skilyrði eru látin ná til allra útflytjenda jafnt, hvort sem þeir eru stærri eða smærri útflytjendur. En eftir brtt. hv. þm. á einn aðalútflytjandi að fá löggildingu fyrir að flytja ákveðið fiskmagn, sem á að vera undanþegið hinu almenna ákvæði. En ef hann er ekki til staðar, heldur fleiri smærri útflytjendur, þá standa þessi ákvæði, og þá er þeim beitt. Ég tel þetta ekki óeðlilegt. Það er síður þörf á eftirliti, ef útflytjandinn er einn, svo að sala hans hlýtur að ráða verðinu. En það er nauðsynlegt, ef um fleiri útflytjendur er að ræða, að þá sé valdið í höndum fiskimálanefndar. Ég get því greitt atkv. með brtt. hv. þm., og tel, að hún sé að sumu leyti til bóta, því það er betra, að lögfest sé þessi sérstaða aðalútflytjanda.

Brtt. við 6. gr. er í samráði við það, sem áður er komið. Um b-liðinn hefi ég ekkert að segja. 7. brtt. er afleiðing af breyt., sem gerð er á ákvæðum um verkunarleyfi. Sama má segja um 8. brtt., við 11. gr. Hún er í samræmi við aðrar breyt. 9. brtt., við 12. gr., er þess efnis, að ef aðalútflytjandinn er einn, þá sé fellt niður ákvæðið um það, að séu framkvæmdastjórarnir þrír, þá tilnefni fiskimálan. einn þeirra. Brtt. leggur til, að þetta ákvæði verði fellt niður og fél. geti ráðið framkvæmdastjórana. Þetta er ekki mikilvægt atriði, ef fél. er byggt upp eins og tilætlað er samkv. frv. En ef nokkrir eru fyrir utan fél., þá tel ég eðlilegt, að stj. skipi einn af framkvæmdastjórunum. Ég mun því ekki geta greitt þessari till. atkv. — Um b-lið sömu brtt., sem er um það, að orðið fiskimálanefnd falli niður, get ég verið honum sammála, því það er í samræmi við aðrar breyt., sem ég hefi rætt um áður. — Þá leggur hv. þm. til, að aftan við gr. bætist nýr málsliður, sem hljóðar svo: Nú verður slík einkasala fyrirskipuð, og skal þá ríkisstjórnin gefa fiskframleiðendum kost á að taka hana í sínar hendur, þegar stofnað verður félag fiskframleiðenda, er fullnægir 2. málslið 4. gr. — Ég tel rétt að samþ. þetta.

Þá liggur fyrir brtt. frá meiri hl. sjútvn., að aftan við 12. gr. komi ný grein: Ríkisstjórninni er heimilt að veita einstaklingum og félögum lán eða styrk, til þess að gera þeim kleift að koma upp tækjum til þess að verka fisk og aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, svo sem herðingu, hraðfrystingu o. fl., svo og til þess að gera tilraunir með útflutning og sölu sjávarafurða á nýja markaðsstaði, enda leggi þá markaðs- og verðjöfnunarsjóður einnig fram fé í sama skyni.

Fiskimálanefnd sér um veitingu lána og styrkja samkvæmt l. málsgrein eftir reglum, sem ríkisstjórn setur, að fengnum tillögum fiskimálan., og mega lánin vera vaxtalaus um ákveðið árabil. Ríkisstjórninni er heimilt að verja allt að 1 milljón króna samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, og heimilast henni að taka þá upphæð að láni, eða jafngildi hennar í erlendri mynt.

Ég vil leggja áherzlu á það, að þessi till. nái að ganga fram. Mér er það ljóst, að eins og útlit er nú með sölu til markaðslandanna, þá væri það óverjandi glapræði, að gera engar ráðstafanir til þess að gera þessa vöru seljanlega á öðrum stöðum. Það er hægt að gera það á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að selja verkaðan fisk á fleiri staði en nú er gert. En þetta verður ekki gert án kostnaðar, og ekki heldur á svipstundu. Þetta má í öðru lagi gera með því að taka upp nýbreytni í verkunaraðferðum til þess að skapa aukna sölu, svo sem herðingu, hraðfrystingu o. fl. En þetta kostar vélar, og það að senda menn til þess að reyna að selja fiskinn. — Það má nefna aðra nýbreytni, svo sem að búa til mjöl úr fiskinum. Ennfremur má auka sölu saltfiskjar með því að selja til landa, sem ekki hefir verið selt til áður. En það stoðar ekki að skrafa um þetta. Það þarf bæði að veita fé til þess og útvega menn til þess að leysa þetta starf af hendi. Mennina getum við ekki skapað hér á þinginu, en við getum látið þá starfa með því að veita þeim fé til þess. Ég ætla svo ekki að fara um þetta fleiri orðum. En ég vildi mega vænta þess, að þeir, sem viðurkenna, að hér sé um mikilvægt mál að ræða, verði ekki til þess að halda uppi óhæfilegu málþófi, heldur reyni að ræða um málið af þeirri skynsemi, sem drottinn hefir nú einu sinni gefið þeim.