07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (3632)

150. mál, fiskimálanefnd

Ásgeir Ásgeirsson:

Hæstv. atvmrh. hefir farið þess á leit við mig, að ég tæki aftur eina brtt. mína, aðaltill. og varatill. Ég skal játa, að mér er ekki fast í hendi með þessa till., þó ég telji hana eðlilega, en þar sem hæstv. atvmrh. hefir lofað að taka þetta til athugunar, og flytja þá brtt. við frv. í Ed., þá get ég orðið við tilmælum hans. Annars hefir hæstv. atvmrh. tekið brtt. mínum vel, eins og allir hafa gert, sem hafa talað, eins og eðlilegt er, því þær miða allar í rétta átt.

Hæstv. ráðh. lagði hér fram skrifl. brtt., sem ég vil minnast á, þó ekki hafi enn verið leyfð afbrigði. Ég er andvígur því í brtt. hæstv. ráðh., að umsagnar fiskimálan. skuli leitað um, hverjir skuli vera löggiltir, að því er snertir allsherjarfélag, en vil fallast á, að það geti átt við að leita umsagnar, ef margir útflytjendur koma til greina. Samkv. brtt. mínum er skylt að veita því fél., sem hefir 65 eða 75% af fiskmagni til umráða, án þess að ráðh. geti synjað um þann rétt. Enda hefir hæstv. ráðh. fallizt á, að það sé heppilegast og sjálfsagt, ef öflugt fél. er til. Hæstv. ráðh. hefir gert þá aths. um eina brtt. mína, sem sé þá till., að útflytjendur sjálfir tilnefni eða velji alla framkvæmdarstjóra samlagsins, en hvorki fiskimálanefnd né ráðh. nefni einn þeirra, og eru rök hæstv. ráðh. þau, að jafnvel þó svona sé um hnútana búið, sé sennilega um marga fiskframleiðendur og útflytjendum að ræða, sem ekki hafi gengið í „union“, og megi því fiskimálan. tilnefna einn framkvæmdarstj. fyrir þessa menn. Viðvíkjandi þessum mönnum, sem þarf að skylda eða þvinga til að ganga í samtökin, finnst mér ekki of þung refsing, þó þeir verði að bíða eitt ár eftir því að hafa áhrif um val framkvæmdarstjóra. Og ég tel vafasamt, hvort þeir kysu heldur, að fiskimálan. færi með umboð þeirra en þeirra eigin stéttarbræður. Ég mun því halda fast við þessa till. þrátt fyrir aths. hæstv. ráðh.

Þá er brtt. frá hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Rang. Mér virðist þær vera fullmikið miðaðar við, að til séu margir og smáir útflytjendur, en ekki eitt stórt samlag. Tel ég því, að ef þær yrðu samþ., mundi það auka hættuna á því, að ekki yrði til eitt stórt samlag, heldur mörg og smá.

Það má vel vera, að ástæðan fyrir þessum till. sé ótti, sem umr. hafa gefið tilefni til að nokkru leyti, um að draga mundi til einkasölu. — En þar sem minn hugur hneigist að einu stóru samlagi, get ég ekki fylgt þessum brtt. Í lögunum á allt að styðja að því, að samlagið starfi áfram.

Ein brtt. er um, að ákvæðin um verkunarleyfi falli niður úr frv. Það atriði er óháð þessu máli, svo frv. gæti staðið án þessa ákvæðis. Og er þó rétt að hafa heimild fyrir verkunarleyfum í lögunum, eins og mín till. felur í sér.

Þá er brtt. hv. þm. Vestm. um útflutning í smáslöttum, sem hefir við allmikil rök að styðjast. En í framkvæmdinni mun þetta verða þannig, að þeir, sem flytja smáslatta út á markaðinn, eru frjálsir um það. En það er erfitt að ákveða, hvað er smáslatti og hvað ekki. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að þeir fái leyfi ráðuneytisins í hvert sinn, og tel, að það nægi að gefa tilkynningu út eftir á. Það er sjálfsagt að greiða fyrir þessum smáútflutningi og gera honum ekki erfitt fyrir. Framkvæmd á þessu, samkv. gildandi ákvæðum, fullnægir, og er því ástæðulaust að kvarta yfir þessu.

Hv. þm. G.-K. tók það réttilega fram, að margar af mínum till. stefndu í þá átt að fá ráðh. í hendur það vald, sem fiskimálan. er annars ætlað í frv. En hann bætti því við, að þessi tilgangur skertist mjög af þeirri till. minni, að ráðh. gæti falið fiskimálan. eða fisksölusamlaginn það, sem ráðlegt þætti, af því valdi, sem honum er falið samkv. frv.

Það er að vísu rétt, að ef gert er ráð fyrir illviljaðri framkvæmd, þá mætti misnota þetta vald á þennan hátt, en ég þurfti þó að bera fram till. um þetta, vegna þess að starfi einhver smáútflytjandi við hliðina á „union“, þá er ekki hægt að fela „union“ sjálfri vald til þess að úthluta útflutningsleyfum, bæði hvað tíma og markaðsstaði snertir. Í því tilfelli, að einhverjir smærri útflytjendur starfi við hliðina á „union“, hygg ég rétt, að ráðh. fell „union“ útflutning á svo og svo miklu fiskimagni á ári, t. d. 88%, eins og nú er, eða meiru, og „union“ séu þá tryggð umráð yfir þessum leyfum, þótt hitt þurfi að vera í höndum annara vegna keppinautanna, hvenær eigi að flytja út fiskinn, hve mikið magn og á hvaða markaði. Slík leyfi eru aðeins formsatriði og eftir ráði forstjóra „union“.

Um leið og verið er að gefa ráðh. vald í þessu efni, þá þarf, ef treysta á því, að ráðh. sé þessu stóra fisksölusamlagi velviljaður, að stuðla að því, að það fái sem mest völd í sínar hendur.

Undir þeim kringumstæðum, að ráðh. sé ekki úr sama flokki og nú, get ég hugsað mér, að ýmsir hv. þdm., sem amast við þessu valdi, geti sætt sig við það og talið það nauðsynlegt, eins og það í raun og veru er líka.

En slíkri staðreynd, að einn ráðh. hafi þessi völd samkv. tilnefningu meiri hl. þingsins, þurfa menn að beygja sig fyrir. Í þessu efni þarf ekki nema nokkur samtöl milli atvmrh. og fisksölusamlagsins og bankanna, til þess að þeir séu vissir um, hvernig hann ætlar að beita þessu valdi, og að hann noti það til þess að styrkja „union“, en ekki til þess að drepa samtökin.

Aðaltill. mín við 5. gr. er um það, að sú mikla íhlutun, sem þar er falin fiskimálan., komi aðeins til greina, ef um marga smáútflytjendur er að ræða, enda þarf þá eina miðstöð til þess að hindra skaðlega samkeppni og þær hættur, sem henni fylgja.

Það er að vísu eitt, og aðeins eitt valdboð, sem „union“ verður að beygja sig fyrir og er lagt í hendur ráðh., og það er, hvernig fél. skuli byggt upp. Þá ætti öllum að vera ljóst, að þegar svo er komið, að flestir eða allir fiskiframleiðendur þurfa að vera í einn fiskiútflytjendafél., þá þarf fél. að hafa ákveðið skipulag, og þetta skipulag, sem hér er lagt til, er það, að deildir verði um allt land, og bæði þær og eins einstakir fiskeigendur hafi heimild til þess að senda 1 fulltrúa á allsherjarþing sölusambandsins fyrir hver 3000 skp. af saltfiski, en þessi réttur fer minnkandi hlutfallslega við fiskmagn samkv. þeim reglum, sem ráðh. setur um þetta efni.

Það er algengt, að hjá hlutafélögum sé atkvæðamagn takmörkum bundið, og þessar reglur, sem hér er ætlazt til, að settar verði, munu ekki verða strangari en tíðkast hjá hlutafél. víða um heim.

Hér er farin millileið. — Fiskframleiðendur voru ekki skyldaðir til að vera í samvinnufél. þar, sem allir hafa jafnan atkv.rétt. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir, að atkvæðamagnið fari eingöngu eftir fiskimagninu, og þegar bæði stj. og löggjafarvald ætlast til, að allir séu í sama fél., þá er augljóst, að einhvern milliveg verður að fara hvað skipun þessa félagsskapar snertir.

Ég efast ekki um, að ef reglur þær, sem fólgnar eru í frv. um skipun „union“, væru bornar upp fyrir alla fiskiframleiðendur landsins, þannig að þeir fengju að greiða atkv. um, hvort þeir vildu hlíta þessari skipun, mundi mikill meiri hl. þeirra verða þessari skipun fylgjandi.

Það hefir einhver talað hér um lýðræði í sambandi við þetta mál. Það er ekki ástæðulaust að nefna lýðræði í sambandi við það, þegar allir framleiðendur einnar stéttar hafa stofnað eitt fél. Þá þarf lýðræðisskipun á því félagi. Það er vitanlega nauðsynlegt til þess að félagið geti starfað.

Hér er vitanlega um átök að ræða, sem standa í sambandi við þetta venjulega fyrirbrigði, að þegar lýðræðið eykst, þá halda þeir, sem áður höfðu völdin, sem mest í þau. Þessi barátta er hliðstæð hinu „pólitíska“ og „ökonomiska“ lífi. Hér stóð nýlega barátta um „pólitískt“ lýðræði og þá stóð ég við hlið jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna um það, að það ætti að vera fullkomið jafnrétti, og þjóðfélagið ætti að vera samvinnufélag. Vil ég því vænta þess skilnings hjá þessum sömu mönnum, sem þessa baráttu háðu, að í slíkum allsherjarfélögum sem hér um ræðir, eigi að ríkja nokkurt lýðræði, og þá vil ég að þessu sinni alls ekki fara jafnlangt og farið var í hinni pólitísku baráttu.

Ég hygg því, að útkoman hljóti að verða sú, ef farið er eftir mínum till., að fyrst og fremst verði haft eitt stórt framleiðendafél., sem hefir útflutninginn með höndum og sínar ráðstafanir í flestum efnum óháðar fiskimálanefnd, sem þá aðeins „kontrolerar“ keppinautana, og hefir auk þess sérstaklega með höndum markaðsleit.

Vegna umr. í þessu máli og ónógra samtala hingað til, tel ég heppilegra, að hæstv. ráðh. nú, meðan málið liggur fyrir þinginn, nái tali af forstjórum „union“ og bankanna og ræði um það, hvaða brtt. kynnu að vera heppilegar til viðbótar þeim, sem nú verða samþ., til þess að tryggja, að úr þessu verði eitt og öflugt sölusamlag, sem ráði yfir sem mestu af fiskimagni landsmanna. „Union“ verður alltaf að eiga mikið undir ráðh. Undanfarin 2 ár, sem „union“ hefir starfað, hefir hún oft leitað til ráðh., og svo mundi enn. Ef engin allsherjarlög giltu um þetta, þá þyrfti „union“ samt að eiga allt undir ráðh., án þess að hann hefði þó nógar heimildir til að geta komið til hjálpar. Á meðan málið er fyrir þinginu, er mikilsvert, að þessir útflytjendur og bankarnir kynnist hug hæstv. ráðh. um það, hvernig hann ætlar sér að beita því valdi, sem hann fær samkv. þessum f. Slíkt viðtal, sem ég skora á hæstv. ráðh. að koma af stað, er ég viss um, að mundi útrýma miklum ótta og ugg, sem nú lifir á vantandi viðtölum. Þegar tekið er tillit til umr., fyrir utan hinar ströngustu flokksdeilur, sem eiga sér stað hér á hv. þingi um flest mál, eru allir sammála um það, að það eigi að vera eitt öflugt framleiðenda- og útflytjendafél., og að þetta fél. eigi að hafa sem mesta sjálfstjórn.

Verði mínar till. samþ., þá fæst fullkomin sjálfstjórn í þessu efni, jafnvel í því tilfelli, að nauðsynlegt sé að fyrirskipa einkasölu.