19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Briem:

Ég skal fyrst minnast á brtt. mínar á þskj. 815, VIII., við 13. gr. A. II a. 5., Suðurdalavegur. Brtt. fer fram á hækkun á till. meiri hl. fjvn. úr 4000 kr. upp í 8000 kr., og til vara 6000 kr. Um þennan veg vísa ég til orða minna við 2. umr. fjárlfrv. En síðan hefir hv. fjvn. tekið þennan veg lítilsháttar til greina, svo sem sjá má á þskj. 784. Þessi vegur hefir áður verið óskabarn a. m. k. tveggja stjórnmálaflokka, og þykir mér nú við bregða, er hann er gerður að olnbogabarni. Vegamálastjóri lagði til, að veittar væru 10 þús. kr. til þessa vegar; er það sízt of mikið, og vafalaust skorið svo við nögl sem hann hefir séð sér fært. Þessi vegur er oft ófær haust og vor, og í votviðrum á sumrum, og er því nauðsyn á, að vegagerðin verði ekki því nær stöðvuð. Þó að vegamálastjóri legði til, að veittar væru 10 þús. kr. til vegarins, þá er ekki hér farið fram á nema 8 þús. kr., og til vara 6 þús. kr. Jafnframt flyt ég brtt. á sama þskj., sem er nýr liður, um 3000 kr. framlag til Laxárdalsvegar, frá Búðardal að Borðeyri, og til vara 2000 kr. Þetta er mjög fjölfarinn vegur, ekki eingöngu af héraðsbúum beggja megin við heiðina, heldur af langferðamönnum. Og það mundi berlega koma í ljós, þegar þessi vegur yrði fullgerður, að hann yrði miklu lengur bílfær á haustin og fyrr fær á vorin heldur en vegurinn á Holtavörðuheiði.

Fáar sýslur hafa orðið eins afskiptar um fjárframlög til vega í þessu fjárlfrv. eins og Dalasýsla. Að vísu hefir hún oft verið mjög afskipt áður um framlög til vega. Skal ég bera Dalasýslu saman við þau héruð, sem sérstaklega hafa verið talin afskipt undanfarið. Ég skal þá geta þess, að í skýrslu, sem vegamálastjóri hefir gert um fjárframlög úr ríkissjóði til vega í öllum héruðum landsins fram að 1930, er talið, að til vega í Dalasýslu hafi verið varið 261 þús. kr. En þær sýslur, sem stjórnarflokkarnir telja, að hafi verið sérstaklega. afskiptar, svo sem Múlasýslur, hafa þó borið meira en tvöfalt úr býtum. T. d. hefir Norður-Múlasýsla hlotið 570 þús. kr. og Suður-Múlasýsla 574 þús. kr. til sinna vega. Auk þess hafa Múlasýslur báðar notið mjög góðs hlutar af þeim lánum, sem heimilað var að taka til vegagerða s. l. tvö ár, svo að fá héruð hafa notið jafnmikils og þessar sýslur í því efni. Ennfremur má geta þess um Múlasýslur, sem taldar hafa verið svo sérstaklega afskiptar, að þær hafa nokkrar samgöngur innanhéraðs á sjó, en Dalasýsla hefir engar samgöngur innanhéraðs nema á landi. — Ég hygg því, að öllum hljóti að verða það ljóst, að af þessum héruðum, sem mest hafa verið talin fyrir borð borin undanfarið, hefir Dalasýsla verið langmest afskipt. En nú horfir þetta svo við, að í staðinn fyrir það, að legið hefði nær að bæta nokkru við till. vegamálastjóra um framlög til vega í Dalasýslu, þá hefir meiri hl. n. lækkað það meira en um helming, en í stjfrv. var þessi fjárveiting alveg þurrkuð út, þrátt fyrir það, að fjárveitingar til vega voru sumstaðar stórum auknar samkv. stjfrv., t. d. eigi minna en sjöfaldaðar til vega í S.-Múlas. Má öllum vera ljóst, hversu geysileg hlutdrægni hér er höfð í frammi, og er varla hægt að gera ráð fyrir, að nokkur stjórn geti látið sér sæma slíka framkomu. Hér er ekki farið fram á það, í till. mínum, að Dalasýslu verði sýnd full sanngirni, heldur aðeins að minni hlutdrægni verði sýnd í þessu efni en til stóð. Vænti ég, að hv. þm. líti sanngjarnlega á þetta og að einhverjir, jafnvel úr stjórnarflokkunum, séu svo réttsýnir, að þeir sjái, að það er ekki sæmilegt, að þetta hérað verði svo afskipt um framlög til vega eins og ætlazt er til í fjárlfrv.

Viðvíkjandi Laxárdalsvegi skal ég geta þess, að sýslusjóður Dalasýslu hefir áður lagt fúslega fram fé til vegarins á móti ríkissjóði, og mundi ekki á því standa í þetta sinn, ef framlag fæst úr ríkissjóði til þessa vegar.

Þá skal ég minnast á brtt. LXV. á þskj. 815, við 22. gr. I, nýr liður, um verðuppbót á útflutt kjöt af framleiðslu þessa árs, sem flutt er af okkur þremur bændafl.þm. í félagi. Við 2. umr. fjárlfrv. hefi ég bent á nauðsyn þess, að bætt verði upp verðið á því kjöti, sem ekki er selt á innlendum markaði. Og m. a. benti ég þá ennfremur á þá stórkostlegu verðlækkun á útfluttu saltkjöti og freðkjöti, sem verða mundi á þessu ári. Verðið á saltkjötinu verður að líkindum 50 au. á kg., og á freðkjötinu 60—70 au. kg., og er það miklu lægra en í fyrra, en þá var það 60—70 au. á saltkjöti og 80—85 au. kg. af freðkjöti. Upphaflega var ætlazt til, að verðjöfnunarsjóður gæti jafnað mismuninn á verði kjötsins, sem selt er á útlendum markaði, og því sem selt er innanlands. En vonir manna um getu verðjöfnunarsjóðs í því efni virðast algerlega ætla að bregðast, þannig að það er varla von á meiru en 3—5 aura uppbót á hvert kg., eins og nú stendur. Nú munu vera um 60—70 þús. kr. í verðjöfnunarsjóði, og má vera, að hann komist upp í 130—150 þús. kr., en ekki hærra; og það svarar til 3—5 au. uppbótar á hvert kg. af útfluttu kjöti.

Þá ber þess að gæta, að þau héruð, sem selja kjöt á erlendum markaði, hafa orðið fyrir afskaplegum skakkaföllum vegna ótíðar síðastl. sumar og haust, og þar af leiðandi þurft að verja geysimiklu fé til kaupa á fóðurbæti, og standa því miklu verr að vígi þess vegna. Því var að vísu slegið fram af hv. forsrh. við 2. umr. fjárlfrv., að það mundu verða gerðar einhverjar ráðstafanir á næsta þingi til að bæta úr þessu, og er það ekki annað en óákveðin vilyrði. En hitt mundi bæta mikið lánstraust bænda til fóðurbætakaupa sinna, ef fullkomin vissa fengist fyrir því á þessu þingi, að styrkur yrði veittur úr ríkissjóði til uppbótar á kjötverðinu. Og þess vegna er þessi brtt. borin fram einnig við þessa umr. Till. fer fram á, að varið verði 150 þús. kr. af fé því, sem ætlað er á fjárl. til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, til að greiða verðuppbót á kjötinu; hún er því ekki hækkunartillaga á heildarútgjöldum fjárl., heldur aðeins tilfærsla frá útgjaldalið í 16 gr., þar sem stj. er heimiluð ½ millj. kr. til atvinnubóta. En í till, okkar er jafnframt felld niður sú kvöð, sem lögð er á hlutaðeigandi bæjarfélög, að þau sjái fyrir tvöföldu framlagi á móti atvinnubótafé úr ríkissjóði að því er þennan hluta upphæðarinnar snertir. Enda er þess ekki að vænta, að kaupstaðirnir geti útvegað þetta fé á móti ríkissjóðsframlaginu, meira en sem svarar 700 þús. kr., en gegn þeirri upphæð fá þeir ekki nema 350 þús. kr. úr ríkissjóði. Þessi ½ millj. kr. upphæð til atvinnubóta er því aðeins sýnd gæs, en ekki gefin. Jafnframt má vænta þess, að atvinnubótaþörfin verði minni á næsta ári, einkum hér í Rvík, þar sem hún hefir verið fjárfrekust. Nú er verið að undirbúa stórkostlegar framkvæmdir vegna Sogsvirkjunarinnar, sem byrjað verður á í vor og heldur áfram næsta ár. Er nú þegar búið að útvega lán til virkjunarinnar og ákveðið að framkvæma verkið, en fyrir því var engin vissa, þegar fjárlfrv. var samið síðastl. haust. Og þar sem engar líkur eru fyrir því, að kaupstaðir og kauptún geti útvegað meira fé til atvinnubóta á móti ríkissjóði en þær 700 þús. kr., sem ég nefndi áðan, og að ríkissjóður þurfi því ekki að leggja meira fram en 350 þús. kr., þá leggjum við til, að stj. fái þær 150 þús. kr., sem afgangs ættu að verða, til þess að bæta upp kjötverðið. Við flm. lítum svo á, að þessir bændur hafi ekki minni þörf fyrir atvinnubótastyrk en kaupstaðabúarnir, sízt þeir bændur, sem búnir eru að verða fyrir tvöföldum skakkaföllum á þessu ári — fóðurbætiskaupum vegna óþurrkanna í sumar og hinu geysilega verðfalli á kjötinu, sem er aðalframleiðsluvara bænda í þeim héruðum, sem ekki geta notfært sér innlendan markað.

Um LXVI. brtt. á þskj. 815 þarf ég ekki að tala, það er um styrkinn til mjólkurbúanna, hv. 1. flm. hefir mælt svo rækilega fyrir henni. — En þá er L. brtt. á sama þskj., um 300 kr. styrk til Eggerts Magnússonar í Saurbæ til að stunda dýralækningar, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að. Það hefir þegar verið tekinn hliðstæður maður inn í fjárlfrv., Guðmundur Andrésson, og hv. meiri hl. fjvn. lagði það einnig til við 2. umr., að annar maður væri tekinn upp í frv. með samskonar styrk, Halldór Jónsson. Það mun ekki standa á því, að frá sýslufélagi Dalasýslu komi jöfn upphæð á móti, og er það augljós vottur um það, að héraðið telur brýna nauðsyn á, að þessum dýralækningum sé haldið uppi og að það ber fullt traust til þessa manns, sem að vísu er að nokkru leyti sjálflærður, en hefir stundað dýralækningar með góðum árangri um fleiri áratugi.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 888, sem við hv. 1. þm. Skagf. erum flm. að. Það er styrkur til Ásmundar Jónssonar. Þessi maður hefir sótt til þingsins um styrk til þess að dvelja við erlend bókasöfn og kynna sér skáldbókmenntir erlendra þjóða fyrr og síðar. Hann fór utan 1932 í þessum erindum en gat ekki lokið starfi sínu vegna veikinda og varð að hverfa heim fyrr en hann hafði ætlað sér. Í það sinn fór hann án styrks af opinberu fé, en nú sækir hann um þennan styrk til að ljúka við það, sem fyrr var frá horfið.

Þá er ég flm.till., sem er á þskj. 875, III, við 16. gr., um það, að á eftir 31. lið komi nýr liður, til Ingólfs Davíðssonar, sem mun vera að ljúka námi í grasafræði við háskólann í Kaupmannahöfn og hefir mikla löngun til þess að loknu embættisprófi í grasafræði að leggja stund á plöntusjúkdómafræði. Eins og menn vita, þá er hin mesta nauðsyn á, að landið eignist mann, sem sé fær í þessari vísindagrein, því hér á landi er mestallt órannsakað, sem rannsaka þarf í þessum efnum. Við höfum orðið fyrir miklum skakkaföllum og stórskaða af ýmsum jurtasjúkdómum, eins og t. d. kartöflusýkinni í fyrra. Og ég hygg, að ef við hefðum þá ekki notið leiðbeiningar erlends sérfræðings í þessum efnum, prófessors Ferdinandsens, þá hefðum við tæpast getað varizt sýkinni eins vel og þó varð raun á nú í ár. Þá varð mér það ljóst, hversu mikil þörf landinu væri á sérfræðingi, sem gæti snúið sér að rannsóknum í þessum efnum hér innanlands, og prófessor Ferdinandsen sagðist telja óhjákvæmilegt fyrir okkur að eiga sérfræðing á þessu sviði, ef við ættum ekki að eiga það á hættu að verða hvað eftir annað fyrir stórskaða á framleiðslu okkar fyrir þekkingarskort í þessum efnum. — Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið um þennan stúdent, þá er hann sérstaklega efnilegur í þeim fræðum, sem hann hefir lagt stund á, og hefir áhuga á því að leggja þessa vísindagrein fyrir sig. Ég vænti því, að þeir, sem búnaði unna, telji ekki eftir þessar 1 þús. kr., sem hér er farið fram á.

Þá er Alþ. það kunnugt, að við háskólann í Edinborg er íslenzkur stúdent við nám, að nafni Halldór Pálsson. Hann leggur stund á sauðfjárræktarfræði og er fyrsti Íslendingurinn, sem leggur stund á þá námsgrein. Hann hefir notið lítils háttar styrks af opinberu fé, en þetta nám hans er sérlega kostnaðarsamt, þar sem allt nám í Englandi er mjög dýrt, og er hann ekki þannig efnum búinn, að hann treysti sér til þess að halda náminu áfram, nema styrkur hans sé ríflegri heldur en venja er til með námsmenn, sem stunda nám við aðra erlenda háskóla. Ég hefi því flutt brtt. um það, að þessi styrkur til Halldórs Pálssonar verði hækkaður úr 1 þús. kr. upp í 1500 kr., en til vara 1200 kr. Ég vil vænta þess, að á þessa brtt. verði litið með sanngirni og að mönnum þyki þar ekki til of mikils mælzt fyrir landbúnaðinn.