11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

150. mál, fiskimálanefnd

Jón Auðunn Jónsson:

Það er talið, að það séu tvennskonar tildrög til þess, að frv. þetta er flutt. Í fyrsta lagi óskir jafnaðarmanna um, að tekin verði einkasala á saltfiski, og er það í samræmi við stefnu þeirra í stjórnmálum. Í öðru lagi er ástæðan talin sú, að Framsóknarflokkurinn sé óánægður yfir því, að honum hefir ekki tekizt að gera þær breyt. á starfsskipulagi sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem bornar voru fram á fulltrúafundi sölusambandsins í haust.

Mér þykir það mjög illt, að þetta frv. skuli vera fram komið, og að útlit er fyrir, að það nái samþykki. Ég hefi ekki trú á því, að einkasala á fiski sé til umbóta, heldur þvert á móti. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda var stofnað til þess að reyna að bæta úr vandræðum þeim, sem fisksala okkar var komin í vegna of mikillar framleiðslu á vörunni, bæði hjá okkur og öðrum þjóðum. Menn urðu hissa 1931, þegar ekki var hægt að selja fisk fyrirfram og ekki í fastan reikning. En til þess lágu eðlilegar orsakir. Árið 1929 var æðimikið tap á saltfiskverzluninni hjá þeim, sem höfðu útflutning til Suðurlanda. En þó tók út yfir árið 1930, þegar allir þeir, sem komu nálægt fiskverzluninni, biðu stórkostlegt tjón. Þetta var meðfram vegna þess, að þeir höfðu fengið ónógar og villandi upplýsingar um það, hvað fiskframleiðslan væri mikil, einkum í Noregi, Færeyjum og einnig hér hjá oss. Þeim höfðu verið gefnar þær upplýsingar, að fiskframleiðslan væri 780 þús. skp., en hún reyndist vera 100 þús. skp. meiri. Þess vegna gátu þeir ekki 1930 haldið uppi verðinu lengur en fram í september. Það var jafnvel svo, að Portúgalsmenn fóru fram á það við norsku stj., að hún greiddi fiskkaupmönnum þar í landi skaðabætur vegna þess, hvað fiskiskýrslurnar þaðan voru villandi eða rangar. Bæði á Spáni og í Portúgal biðu menn tjón af því, að skýrslurnar voru rangar, og keyptu fisk í hærra verði 1930 en von var til, þegar þeir vissu um birgðirnar. Vegna þessara stórfelldu tapa, sem innflytjendur fiskjar biðu árið 1930, mátti búast við því, að þeir yrðu tregari til þess að kaupa fisk á föstu verði 1931. Þegar 3 mán. voru liðnir af árinu, kom í ljós, að engir vildu kaupa fisk við föstu verði, svo að fiskverðið lækkaði þá þegar niður í 60—63 kr. skp., en var í sept. 1930 um 105 kr. Allir vita svo, hver niðurstaðan varð á fisksölu okkar og annara 1931. Þegar ekki var lengur hægt að selja fisk í fastan reikning, þá var ekki lengur til staðar áhugi á því að halda verðinu uppi í markaðslöndunum. En ef selt er í fastan reikning, þá hafa kaupendurnir mikilla hagsmuna að gæta um að verðið fari ekki niður, því þeir líða stórfelld töp við það, ef verðið lækkar, þar sem þeir liggja ávallt með miklar birgðir af fiski. Bæði vegna þess, að menn væntu þess, að betur úr rættist 1931 en raun varð á, og vegna þess, að samtök vantaði hér heima, þá varð endirinn sá, að innflytjendur í markaðslöndunum sögðu: „Við getum ekki keypt við ákveðnu verði, því þið getið ekki gefið okkur líkur, hvað þá vissu fyrir því, að þó að við kaupum fiskinn við verði, sem markaðurinn leyfir í svipinn, þá komi ekki eftir örstuttan tíma aðrir með framboð við lægra verði, svo að við bíðum stórfellt tjón aftur í ár. Endirinn varð sá, að fiskurinn var nálega allur seldur í umboðssölu. Þá voru engir, sem gættu hagsmuna okkar í því að halda verðinu uppi, því þegar menn taka fisk í umboðssölu og fá 2—2½%, þá getur verið meiri hagnaður fyrir þá, að verðið lækki, svo að þeir geti selt þeim mun meira og haft meira fé upp úr umboðssölunni. Fiskverðið komst þá niður í 55—58 kr., en hæst 60—65 kr. fyrir skippund, nema örfá partí, sem fóru fyrir örlítið hærra verð. Þetta verð mundi samsvara 22 kr. fyrir skippundið fyrir stríð. Vitanlega kostaði verkun fiskjarins 4—6 sinnum meira 1931 en fyrir stríð. Þá var borgað fyrir verkun á einu skippundi 3,25 kr.—4,25 kr., en á þessu ári mun verkun kosta 19—21 kr. á skippund. Það fór svo, að allir, sem keyptu fiskinn, töpuðu stórfé. Á Vesturlandi varð tapið 13—25 kr. á skippund.

Þegar komið var fram yfir áramótin 1931—1932 sáu menn, í hvaða voða stefnt var og að svo búið mátti ekki standa. Þá voru 6 útflytjendur hér heima, 4 innlendir og 2 útlendir. Þeir sáu allir, að þegar svona var komið, varð að gera eitthvað til umbóta. Ef umboðsverzluninni var haldið áfram, þá var það víst, að fiskurinn myndi ekki hækka úr því verði, sem hann var í 1931, þó voru í marz 1932 keyptir svolitlir slattar af fiski af tveimur firmum, og var verðið á þeim fiski 48 kr. skippundið af Labradorfiski, 60—65 kr. skippundið af stórfiski og af fullverkuðum millifiski 53—55 kr. Bæði af bönkum og öðrum var talað um það í marz 1932, að hefja þyrfti samtök. Ég átti þá viðtal við bankastjórana og þá útflytjendur, sem fluttu mest út, og viðurkenndu þeir, að ef ekki væri hægt að mynda samtök um fiskverzlunina, þá væri voði fyrir dyrum og sýnilegt, að útgerðin myndi undir engum kringumstæðum geta haldið áfram. Erfiðleikarnir, sem blöstu við, urðu til þess, að menn bundust samtökum. En þetta var viðkvæmt mál fyrir þá, sem lengi höfðu flutt út, að sleppa af sínum samböndum og láta aðra njóta aðstöðunnar, sem þeir höfðu skapað sér með margra ára striti og miklum kostnaði. Þetta var það, sem erfiðast var að eiga við. En endirinn varð sá, að í júlí 1932, en þá var nálega enginn fiskur seldur af þess árs framleiðslu, gengu aðalútflytjendurnir til félagsskapar, þ. e. a. s. hinir innlendu útflytjendur. Þessi félagsskapur var ekki skipulagsbundinn. Bankarnir unnu að því, að langflestir viðskiptamenn þeirra gengu í þennan félagsskap, og var hann með því fyrirkomulagi, sem bankarnir höfðu komið sér saman um við hina innlendu útflytjendur. En fyrirkomulagið var á þann hátt, að aðalútflytjendurnir þrír, Kveldúlfur, Alliance og Ólafur Proppé f. h. fisksölusamlaganna skyldu skipa stjórnina ásamt tveimur bankastjórum. Ég get sagt það, að það var í upphafi erfitt að fá menn til að ganga í þessi samtök. Sumir þóttust sjá, að ef þeir væru utan við félagsskapinn, þá mætti svo fara, að þeir gætu í bili grætt á því. Við á Ísafirði og nágrenni höfðum myndað fisksölusamlag í byrjun árs 1932 til þess að gæta hagsmuna okkar við útflutninginn eftir því, sem hægt væri. Ég hafði verið umboðsmaður fyrir erlent firma, og lagði það fast að mér að halda áfram umboðinu og bauð mér góð kjör, svo að möguleikar voru fyrir mig að græða fé fyrir sjálfan mig. En ég áleit, að það, sem þyrfti að gera, væri að vinna að samtökum allra þeirra, sem hafa útflutning með höndum, svo að ég hafnaði hinu góða boði og kaus að vinna að samtökum fiskútflytjenda í landinu fyrir nær helmingi minni laun. Það var ekki með þessum stutta fyrirvara hægt að leita til manna almennt um fyrirkomulag þessa nýja skipulags, heldur var það svo, að bankastjórarnir og þessir þrír menn komu sér saman um starfstilhögunina og leituðu svo til fiskframleiðenda um þátttöku. Þátttakan var misjöfn í fyrstu, en mun hafa verið almennust við Faxaflóa og á Vestfjörðum. Því hefir svo farið þannig fram um starfstilhögunina til þessa, að þessi 5 manna stj. hefir stjórnað málum þeirra manna, sem samtökin mynda, án íhlutunar að öðru leyti en því, að ég og aðrir, sem samtökin mynda, höfum fengið tækifæri til að kynnast starfinu í einu og öllu. Ég minnist þess, að einni viku áður en þetta var afráðið. barst okkur í fisksölusamlagi Vestfirðinga tilboð um sölu á 12 þús. pökkum fyrir 65—66 kr. skippundið, og voru ýmsir í samtökunum, sem vildu selja fiskinn þá til erlendra útflytjenda. En ég fékk afstýrt þessu, því ég hafði von um samtök milli innlendra fiskútflytjenda, og ef þau samtök tækjust, þá myndi verðið hækka. Og 10 dögum eftir að fengin voru svör frá fiskútflytjendum um þátttöku í félagsskapnum og afráðið var að mynda sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, þá var að mínu áliti vissa fyrir því, að við fengjum 8 kr. hærra fyrir skippundið en það, sem okkur hafði verið boðið hæst. Endirinn á fyrstu sölu S. Í. F. varð sá, að við fengum 10 kr. hærra fyrir fullverkaðan fisk, en 8 kr. hærra fyrir Labrador-fisk, en þó voru sumar seinni sölurnar betri. Ég veit, að það efast enginn um það, að sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefir hjálpað útgerðinni og öllum þeim, sem að þeim málum standa, til að fá 10—14 millj. kr. meira fyrir framleiðslu áranna 1932—33 en annars hefði orðið. Að sjálfsögðu er í slíkum stórrekstri ýmislegt, sem hefði mátt betur fara. En það verð ég að segja, að misfellurnar hafa verið svo óverulegar, að ekki var hægt að búast við betri framkvæmdum í þessi 2½ ár, sem S. Í. F. hefir starfað. Því er ekki að leyna, að talsvert af þessum misfellum hafa orðið af því, að fiskurinn hefir reynzt lakari að gæðum en búizt var við af kaupendunum. Þetta er ekki nýtt. Ég get sagt það, að það kom aldrei fyrir á árunum 1925—1931, að það útflutningsfirma, sem ég var umboðsmaður fyrir, þyrfti ekki að borga skaðabætur, af því að fiskurinn var sagður betri en hann reyndist vera. Þetta er að nokkru leyti eðlilegt, af því að fiskverkuninni hefir víða hnignað frá því, sem var fyrir stríð, og í öðru lagi af því að breyttar kröfur í markaðslöndunum hafa valdið því, að flokkunin hefir ekki verið eins nákvæm og hún hefði átt að vera. Ég get bent á eitt atriði: Fiskimatsmenn og þeir, sem við matið fást, fara oft í léleg fiskpartí, sem eru blæljót, þó þau séu óskemmd, og meta úr þeim einhvern hluta sem nr. 1; í sama partíið meta þeir svo góðan blæfallegan fisk. Annarsflokksfiskur úr þessum fiski verður blæfallegri en fyrsta flokks fiskur úr hinu lakara partíi. Þetta veldur svo ósamræmi í matinu, og þegar fiskurinn svo kemur niður til markaðslandanna, þá er nr. 2 úr bezta fiski, borið saman við nr. 1 úr lakara fiski, miklu betra. Það er von um, að þetta og fleira verði lagað, þegar kemur ný skipun þessara mála með frv. um fiskimatsstjóra.

Á fulltrúafundi þeim, sem haldinn var um mánaðamótin okt. og nóv. síðastl., voru samþ. einróma mótmæli gegn einkasölu á fiski. Sá maður, sem lagði fram sérstaka till. um skipulag fisksölusambandsins, var einmitt Vilhjálmur Þór.

Hann endurtók hvað eftir annað, að hversu ósammála sem við annars værum um, hvaða skipulag væri heppilegast fyrir fisksölusambandið, þá mættum við alls ekki taka upp ríkiseinkasölu á fiskinum. Menn yrðu heldur að slá sér saman um það að starfa í sameiningu á þeim frjálsa grundvelli, sem lagður hefir verið í þessu efni, þó skipulagið ekki væri það, sem hann kysi á S. Í. F.

Ég hefi séð það í sumum blöðum, að okkur, sem stóðum að þeim till., sem samþ. voru á fulltrúafundi S. Í. F., hefir verið núið því um nasir, að við hefðum ekki viljað fallast á neinskonar samkomulag, sem byggðist á samvinnufélagslegum grundvelli. Ég skal taka það fram fyrir mitt leyti, að ég tel, að fenginni reynslu í þessum málum, að yfirstjórn, sem leita þyrfti til af framkvæmdarstjórn í öllum tilfellum, er að mínu áliti mjög óheppileg. Það mundi verða svo í framkvæmdinni í fisksölumálum, að það gæti jafnvel hlotizt milljónatap af. Þar er það svo, að það berast tilboð frá kaupendum, mörg á dag, e. t. v. tugir tilboða á dag, og það verður að taka ákvörðun um þessi tilboð strax, gagnsvara þeim eða neita. Það dugir ekki að eiga að fara að kalla saman stj. manna til aðstoðar framkvæmdarstj. í slíku máli. Yfirleitt mundi slík stj. undir flestum kringumstæðum hafa lítið eða jafnvel ekkert vit á þessari verzlun, og þess vegna mundu hinir þaulvönu framkvæmdarstjórar ráða, en gerði þessi yfirstjórn sig gildandi, mundi svo geta farið, að af hlytist stórfellt tap. Undir öllum kringumstæðum verður að taka ákvörðun í þessu efni strax, það er ómögulegt að bíða með það.

Það, sem fyrir mér og öðrum vakti með breyt. á því fyrirkomulagi sölusambandsins, sem við nú eigum við að búa, var það, að allir, sem að útflutningi fiskjar standa og eru í sölusambandinu, gætu haft bein áhrif á kosningu framkvæmdarstjóra, til þess að þeir gætu valið þá, sem þeir álitu heppilegasta til þess að standa fyrir þessum málum. Við óskuðum þess, að málinu væri þannig skipað, að sett væri fulltrúaráð, sem væri einskonar sambandsliður milli framleiðenda og framkvæmdarstj. Fulltrúaráð, sem hefði aðgang að öllum framkvæmdum og öllum bókunum fisksöluframkvæmdarstj. á hverjum tíma. Ennfremur, að slíkt fulltrúaráð yrði kosið þannig, að skoðanir og hagsmunir allra landsfjórðunga kæmu fram gegnum fulltrúaráðið, og hægt yrði, eftir því, sem fært er, að samrýma hagsmuni allra landsmanna innan sölusambandsins.

Ég hefi orðið þess var, að þegar ég hefi f. h. Fisksölusamlags Vestfirðinga komið með till., sem sérstaklega snertu okkar hérað, þá hefir þeim alltaf verið tekið mjög vinsamlega og greitt úr því, sem við höfum farið fram á, eftir því sem hægt hefir verið í hvert skipti. — Oft er ómögulegt að verða við óskum manna um afskipun á fiski. Það fer eftir því, hvaða vöruteg. kaupandi heimtar á hverjum tíma og ýmsu öðru, svo að það er ómögulegt að halda fullkomnu samræmi í útflutningi fiskjar frá ýmsum landsfjórðungum á öllum tímum árs. Enda er það svo, að fiskurinn er mjög misjafnlega fljóti tilbúinn til útflutnings. Á Austurlandi er fiskurinn t. d. ekki tilbúinn til útflutnings fyrr en í júlí. Í Rvík er hann oft tilbúinn snemma vors, í maí, og á Vestfjörðum er fiskurinn venjulega tilbúinn til útflutnings í maílok eða í byrjun júní.

Ég gat þess í upphafi máls míns, að tvær ástæður hefðu valdið því, að þetta frv. var fram borið, og a. m. k. er það svo, að sumir hafa óttazt, að fisksölusambandið fengi að kenna á því að hafa ekki viljað ganga í sínum stjórnarháttum inn á hreinan samvinnugrundvöll. Ég er viss um, að þeir, sem standa sérstaklega að þessum málum innan samvinnufél., og þá ekki sízt sá maður, sem hefir á hendi forstöðu þess fél., sem mestan fisk hefir til útflutnings, forstjóri Kaupfél. Eyfirðinga, þeir hafa áreiðanlega ekki stuðlað að því, að þetta frv. er fram komið. Eins og ég tók fram áðan í ræðu minni, lýsti þessi maður því oft yfir á fulltrúanefndarfundi, sem fjallaði um skipulagsmálin, að hann teldi nauðsynlegt að forðast einkasölu á fiski, hvort sem skipulagið yrði innan S. Í. F. eða ekki.

Í sambandi við þetta frv. vil ég taka fram nokkur atriði. Mér hefir ávallt fundizt, að þátttaka sjávarútvegsmanna og þeirra, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, vera minni heldur en búast hefði mátt við. Í umr. um kjötsölumálið hefir verið að því fundið, að framleiðendurnir hefðu minni þátttöku í framkvæmdarstj. heldur en vera ætti, og þó er það svo, að þeir hafa meiri hl. Í mjólkursölumálinu hefir verið fundið að hinu sama. En hvernig er þessum málum skipað, að því er fisksöluna snertir eftir þessu frv.? Það má gera ráð fyrir, að þessir aðilar, sem eiga sína afkomu algerlega undir því, hvernig tekst um sölu sjávarafurða, hafi 2 fulltrúa í fiskimálan., botnvörpuskipaeigendur að öðru leytinu, en Fiskifélag Íslands að hinu leytinu.

Ég geri ráð fyrir, að það megi skoða fiskifélagið sem umbjóðanda smærri útgerðarinnar í landinu, sérstaklega á þessum vettvangi. Með þessu fyrirkomulagi hafa framleiðendur minni hlutann og þarf þó ekki við skipan í nefndina að taka tillit til innlendra neytenda eins og í kjöt- og mjólkursölumálum. Gert er ráð fyrir því í frv., að úthlutað verði verkunarleyfum, og að menn megi ekki verka fisk nema fá leyfi til þess hjá nefndinni. Ég er hræddur um, að þetta verði erfitt í framkvæmdinni. Ef ætti fyrst að veita öllum þeim fjölda manna, sem hér um ræðir, leyfi, og segja þeim svo fyrir um, á hvaða markað þeir megi verka fisk, þá þarf a. m. k. í byrjun að rannsaka, fyrir hvaða markað sá fiskur, sem þeir hafa, er hentugastur.

Það nægir ekki að segja við mann, sem hefir aðeins Labradorfisk á boðstólum, að hann skuli verka hann fyrir Spánarmarkað. Það þýðir ekki heldur að segja við mann, sem hefir t. d. aðeins lakari tegund stórfiskjar, sem eingöngu er seljanlegur til Norður-Spánar eða Portúgals: þú skalt verka fyrir Barcelonamarkað. Það má heldur ekki segja við þá, sem verka millifisk: þessi fiskur á að fara eingöngu til Portúgal eða eingöngu til Ítalíu og á þess vegna að vera verkaður með tilliti til þess. Svo getur það orðið til þess að breyta allri áætlun, að ekki fæst þurrkur á fiskinum. T. d. var það svo á Vesturlandi í ár. Við höfðum ákveðið að verka a. m. k. rúmlega 1/3 af öllum okkar stórfiski á Portúgalsmarkað, því að við sáum fram á það, að hægara yrði að selja fiskinn til Portúgal heldur en til Spánar, vegna innflutningshaftanna þar. Við ákváðum þess vegna að reyna að verka um 40% af öllum okkar stórfiski fyrir Portúgal. En tíðin reyndist þannig, að við gátum ekki verkað 1/10 af fiskinum á Portúgalsmarkaðinn. Af þessum ástæðum er erfitt að fyrirskipa um slíkt sem þetta.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þeir, sem hafa yfir að ráða 20 þús. skp. eða meiru, bæði einstaklingar og fél., geti fengið löggildingu til þess að selja fisk beint til markaðslandanna, ef notað verður „gruppe-system“. Þetta fyrirkomulag er það sama sem var hér á undan því fyrirkomulagi, sem nú er. Ekki varð það til þess að stöðva það mikla tjón, sem varð á fiskverzluninni 1931. Ég er ekki á móti því, að fiskútflytjendur séu fleiri en einn. Það er ekki óheilbrigt. En ég er því mótfallinn, að veitt verði útflutningsleyfi til margra, þannig að það sé fyrirsjáanlegt, að það skapast samkeppni, ekki um verðið, því að það er hægt að setja skilyrði um verðið á hverjum tíma, heldur um annað.

Ég er hræddur um, að ef fisksölusambandið yrði núna leyst upp, þá kæmi það í ljós, að þeir, sem höfðu fiskútflutning með höndum, áður en þetta skipulag komst á og nú fá leyfi til þess að vera útflytjendur, hljóti að keppa hver við annan um viðskiptasambönd. Keppni um það, að ná í viðskiptasambönd, þegar fisksölusambandið verður leyst upp, leiðir til ýmislegs annars en við óskum. Það þarf e. t. v. ekki að leiða til þess, að fiskurinn verði boðinn út fyrir lægra verð en n. kemur sér saman um, en það leiðir til þess, að ekki verði hægt að fullnægja þeim skilyrðum, sem fisksölusambandið hefir getað gefið sínum kaupendum á erlendum markaði og áreiðanlega er bezta vörnin gegn verðfalli á fiskinum og hefir jafnvel getað orðið til þess að þoka verðinu nokkuð upp á þeim árum, þegar verð á annari matvöru hefir lækkað í markaðslöndum okkar. Við verðum að gefa þeim vissu um, að þeir verði ekki undirboðnir með lægra framboðinu á fiskinum, meðan þeir eru að selja fisk, sem þeir hafa keypt í föstum reikningi.

Þegar fisksölusambandið verður leyst upp, sem er óhjákvæmileg afleiðing af þessu frv., sem hér liggur fyrir, er bezta öryggið, sem við getum veitt þessum samverkamönnum okkar, að þeir verði ekki undirseldir og bíði ekki tjón á fiskkaupum sínum, algerlega brostið. Það er ekkert annað en vissan um það, að það, sem fisksölusambandið lofaði þeim á hverjum tíma, yrði efnt, sem valdið hefir því, að smám saman hefir heppnazt að þoka verðinu upp.

Mér er kunnugt um það, að margir innflytjendur á. Norður-Spáni voru mjög hræddir við þessi samtök hér heima, fisksölusambandið, í byrjun. Þeir sögðu, að það væri grímuklædd ríkiseinokun og mundi leiða til bölvunar fyrir þá og alla fisksöluna. Margir fiskkaupmenn neituðu jafnvel í byrjun að skipta við sölusambandið. Fyrst þegar þeir sáu, að þessi samtök voru reist á frjálsum grundvelli og með frjálsum samtökum fiskframleiðenda og fiskeigenda, þá fengust þeir til þess að skipta við það. Þeir hafa líka fengið þeim kröfum sínum framgengt, að geta staðið í beinu sambandi við S. Í. F.

Með skipunum geta þeir fengið 1 þús., 2 þús. eða 5 þús. pakka, eftir vild, og þurfa ekki að kaupa meira en þeir vilja í hvert skipti.

Það er vitanlega einkum 12. gr. þessa frv., sem ég álít sérstaklega skaðlega, jafnvel framkoma hennar hér á þingi hefir valdið ótta og ókyrrð innflytjenda, því að allir vita, að innflytjendur í markaðslöndunum eru mjög andstæðir allri einokun á þessari vöru. Nýlega kom skeyti frá stærsta fiskkaupafirmanu á Norður-Spáni, Trueba y Pardo, þar sem þeir vara við því, að slíkur möguleiki verði gefinn í lögum, að hægt verði að taka einkasölu á saltfiski. Þeir segja, eftir því sem ég bezt man, að þetta muni eyðileggja viðskiptin milli Íslands og Norður-Spánar. Þetta firma var eitt af þeim, sem var mjög tregt til þess að skipta við sölusambandið í byrjun, af því að þeir álitu, að á bak við það lægi einkasala, þó hinn væri haldið fram, eins og rétt var, að hér væri aðeins um frjáls samtök fiskframleiðenda að ræða. Þeir skiptu ekki við S. Í. F. 1932. Það var fyrst þegar kom fram á árið 1933, að þeir sáu, að þeir höfðu haft rangt fyrir sér og að það var þeim til hagsbóta að skipta við S. Í. F., því að það er svo, eins og ég gat um áðan, að hagsmunir okkar og innflytjendanna fara saman. Síðan hefir þetta firma verið langstærsti viðskiptamaður S. Í. F. En þeir sameiginlegu hagsmunir, sem við höfum við innflytjendur í þessari verzlun, eru hagsmunir stórinnflytjendanna. Ef verðið lækkar, þá tapa þeir eins og við, ef verðið hækkar, þá græða þeir og við líka. Það hefir líka sýnt sig, að samvinnan er svo góð, að það tekst alltaf smátt og smátt að þoka verðinu upp, þannig að verðið á stórfiski hefir aldrei, síðan 1930, verið eins hátt og á árinu 1934. Það stafar eingöngu af hinni ágætu samvinnu á milli þessara tveggja aðila. Af þeirri reynslu, sem við höfum fengið af þessu fyrirkomulagi, held ég, að öllum hljóti að vera það ljóst, að það er stefnt í rétta átt með því fyrirkomulagi, sem verið hefir, og við höfum komizt í þá aðstöðu, að geta hækkað verðið frá því sem það var áður. Auk þess höfum við fengið samvinnu við innflytjendur í markaðslöndunum, sem okkur er nauðsynleg, svo það er ekkert annað en stórhættulegar verðsveiflur, sem geta fellt fiskinn í verði. Samtímis því, sem fiskurinn hefir hækkað í verði hér, þá hefir verðvísitala á matvöru í þessum löndum lækkað. Þannig hefir hún t. d. lækkað á Ítalíu um 11%, og eitthvað nokkru minna í Portúgal og álíka á Spáni. Hefir verð fiskjarins því í raun og veru hækkað meira en sem nemur hinni beinu verðhækkun, því auk þess hefir verið komizt framhjá eðlilegri verðlækkun. Þetta virðist kannske dálítið undarlegt, en það er bein afleiðing hins hagstæða fyrirkomulags, sem verið hefir á þessari verzlun undanfarin ár. Það þarf því meira en lítið ábyrgðarleysi til þess að rífa niður slíkt fyrirkomulag sem þetta. Ég held því, að þeir, sem mest hafa barizt fyrir frv. þessu, hafi ekki athugað allar ástæður sem skyldi. Sósíalistar eru þeirrar skoðunar, að ríkisrekstur sé það eina skynsamlega í þessari verzlun sem annari. En meðal þeirra eru þó glöggir menn, sem bera nokkurt skyn á viðskipti og verzlun. Mig undrar því stórlega, að þeir skuli ljá fylgi sitt til þess að knýja fram slíka löggjöf sem þessa, og þá sérstaklega að því er snertir ákvæði 12. gr. frv., sem virðast stefna að því, að ríkið taki einkasölu á öllum saltfiski. Fylgjendur þessa frv. reyna að blekkja menn með því, að þó þetta frv. verði samþ., sé engin ástæða til að örvænta um framhaldsstarfsemi sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Í þessum félagsskap eru menn með mjög mismunandi pólitískar skoðanir, t. d. eru þar menn, sem hafa trú á því, að einkasala og ríkisrekstur sé það eina rétta í þessum efnum, og það er því ekkert eðlilegra en að þessir menn dragi sig út úr S. Í. F. Með því eru þeir hugsjón sinni trúir og styrkja flokk sinn í bili. Auk þessa er reynt að ala á óánægju meðal félagsmanna í S. Í. F., af mönnum, sem standa utan við þessi samtök. Þá er og ekki sparað að segja sögur, sem flestar eru ósannar, um ýmiskonar mistök hjá sölusambandinu, og verða ýmsir til þess að trúa þeim. Ennþá eru nokkrir, sem eru þeirrar skoðunar, að hag sínum sé bezt borgið með því að hafa marga útflytjendur. Allir þessir menn verða því til þess að losa um S. Í. F. Ég þykist því sjá fyrir endi þessara góðu samtaka, sem fært hafa landsmönnum á annan tug milljóna með bættum verzlunarháttum, þegar frv. verður samþ.

Ég sé ekki eftir því, þó að ég hafi helgað þessu máli krafta mína og sakir þess horfið frá öðrum störfum, sem ég hafði helmingi betri laun og minni vinnu fyrir, en mig tekur sárt vegna þeirra mörgu, sem munu gjalda þessa glapræðis að drepa S. Í. F.