14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Já, það var auðheyrður tónninn hjá hv. frsm. meiri hl., að ástæðurnar fyrir flutningi þessa frv. eru þær, sem ég hefi getið um í nál. mínu, sem sé þær, að reyna að ganga af S. Í. F. dauðu. Öll ræða hans snerist um það, að reyna að finna agnúa á fyrirkomulagi S. Í. F. Hann leitaðist ekki við að bera fram eina einustu röksemd fyrir því, að þetta frv. gæti orðið til hagsbóta fyrir fiskframleiðsluna. Eitt var nauðsynlegt, og það var að leggja S. Í. F. niður. Það var meðalið, það var tilgangurinn og er vitanlega tilgangurinn hjá þeim, sem þetta frv. bera fram.

Ég hélt, að þessi hv. þm., sem hefir verið forstjóri ríkiseinkasölu, þeirrar einkasölu, sem auk þess að skapa verzlun síldar þau verstu kjör, sem nokkurntíma hafa verið boðin, glopraði niður þeim markaðinum, sem undanfarin ár hafði verið drýgstur og munað mest um fyrir framleiðsluna, og skildi þá eftir á beru hjarni, ætti að minnast þessa í sambandi við S. Í. F., er hann var að ráðast á fyrirkomulag þess. Ég er satt að segja undrandi á, að hann skuli ekki reyna að minnast þessa, er hann var að bera saman þessar tvær aðferðir, þá aðferð, sem hér er í boði, og frjáls samtök hinsvegar. En það er svo, að þessir menn, bæði hann og aðrir, sem fengið hafa ríkiseinkasölufluguna í höfuðið, geta ekki litið með skynsamlegum rökum á þessi mál, og það jafnvel þó þeir hafi fyrir sér fordæmi um, hvernig einkasala hefir reynzt, en mér þykir nokkru kynlegra um þennan hv. þm., sem hefir verið forstjóri síldareinkasölunnar sálugu.

Ég hefi í mínu nál. rakið nokkuð tildrögin til stofnunar S. Í. F. og árangurinn af starfi þess til þessa, til þess að gefa þeim mönnum, sem lítið hugsa um þessi mál nema frá þröngu flokkslegu sjónarmiði, kost á að kynnast málinu frá almennu sjónarmiði, gefa þeim kost á að sjá muninn á frjálsum samtökum og ríkiseinkasölu. Mér þykir vænt um, að ég gerði þetta, svo að það sé þó alltaf skjallegt, svo að ekki sé hægt að bera því við, að ekki hafi verið bent á, hvora leiðina ætti að fara, og svo að almenningur geti greint á milli.

Hv. frsm. meiri hl. virtist líta svo á, að ég og aðrir, sem hafa líka skoðun á frv., væru sérstaklega andvígir 4. gr. Það er ekki rétt, heldur er það sérstaklega 12. gr., sem ég er sannfærður um, að verður okkur til óhappa, jafnvel þó henni verði ekki beitt, bara ef hún verður lögfest.

Eins og ég hefi fært rök fyrir, þá var saltfiskverzlun að komast í mesta öngþveiti vegna offramleiðslu. Þetta var mönnum vitanlegt síðari hluta árs 1929, að það var ekki til markaður fyrir alla þessa saltfiskframleiðslu. Framleiðslan hér hafði þrefaldazt á 20 árum, en markaðurinn lítið aukizt í Suður-Evrópu. Við höfðum því orðið að sæta því að taka markað af öðrum, sem höfðu hann áður. Þetta gekk svo vel, að seld eru nú um 60 þús. tonn, og af því höfum við á síðustu 20 árum, 1913—1933, fengið aukinn markað fyrir liðlega 40 þús. tonn, sem mestallt er unnið frá öðrum, mest frá Norðmönnum og Newfoundlandsmönnum. Þegar framleiðslan jókst ennþá meira, er bókstaflega ekki til markaður, nema komi aflaleysisár, annaðhvort hér eða í Noregi, eða þá að takmörkuð verði framleiðslan eða verkunaraðferðum breytt sem nemur þessari umframframleiðslu, og skal ég í því sambandi geta þess, hverjar líkur eru til þess. Ég skal aðeins geta þess, að fyrir mér er það svo, eftir þeirri þekkingu, sem ég hefi á fiskverzluninni í Suður-Ameríku, að engar líkur eru þar um markað fyrir okkur. Sölufyrirkomulagið þar er þannig, að fiskurinn er seldur með svo löngum gjaldfresti, að engin tök eru á því að bíða svo lengi eftir andvirðinu. Ég hefi lengi, í mörg ár, staðið í sambandi við það firma, sem nú hefir yfir 60% af öllum saltfiskflutningi til Suður-Ameríku. Ég veit, að fyrirkomulagið er þetta. Þetta firma hefir reynt að ná markaðinum fyrir Skota og hefir veitt langan gjaldfrest, jafnvel allt að 12 mán. á nokkrum hluta framleiðslunnar. Þetta firma getur gefið svona kjör, af því að það er ríkt og á 2 millj. £ í varasjóði, auk þess sem það á ítök í viðskiptabanka, sem sér um öll viðskipti þar suður frá. Norðmenn hafa tapað fótfestu í Suður-Ameríku vegna starfshátta þessa félags eða firma.

Ef borinn er saman útflutningur Norðmanna til Suður-Ameríku árin 1913—1917 og árin 1930 —1931, kemur það í ljós, að þeir hafa tapað meiru en helming af markaði sínum, sérstaklega saltfiskmarkaðinum.

Hv. frsm. meiri hl. vill halda því fram, að S. Í. F. sé ekki byggt á frjálsum samtökum, heldur þvingunarsamtökum, vegna þess, að bankarnir séu ófúsir að lána þeim til útgerðar, sem ekki hafa viðskipti við S. Í. F. Ég veit, að bönkunum þykir miður, ef menn sinna ekki þessum frjálsu samtökum, því að samtökin verða að hafa meginhluta fiskjarins til tryggingar erlendum kaupendum. Þegar S. Í. F. var stofnað voru einhverjir mestu erfiðleikar þess þeir, að kaupendur fiskjarins á Spáni, Ítalíu og Portúgal litu svo á, að hér væri á ferðinni einkasala. Margir neituðu þess vegna að skipta við gamla viðskiptamenn hér heima, og það er svo enn, að nokkrir þeirra hafa ekki fengizt til að skipta við S. Í. F. En þeir eru nú orðið fáir, því að reynslan hefir sýnt þeim, að þetta eru frjáls samtök til þess að gæta hagsmuna fiskframleiðenda hér heima, og til þess að tryggja innflytjendur í markaðslöndunum gegn stórfelldri áhættu.

Annað skilyrði var það, sem innflytjendur í Suðurlöndum trúðu ekki, að S. Í. F. gæti fullnægt, en það var að koma í veg fyrir umboðssölu á fiski og það, að þeir væru undirseldir, ef þeir keyptu heila farma af fiski og biðu þannig stórkostlegt tap.

Það má öllum ljóst vera, að það var ekki létt verk, eftir reynsluna árið 1931, að koma í veg fyrir að umboðssalan héldi áfram á saltfiski. Ég hefi getið þess í fyrri ræðu minni, að allur fiskur var seldur í umboðssölu árið 1931, en það stafaði af því að offramleiðsla var. Innflytjendur í Suðurlöndum voru hræddir við frekara verðfall, enda höfðu innflytjendur á Spáni og Ítalíu orðið fyrir ægilegu tapi árið 1930. Ég get nefnt dæmi þess, að erlent firma, er keypti hér fisk, tapaði 600 þús. kr. á tveimur síðustu mán. ársins, og annað firma tapaði mun meira vegna þess, að það keypti meira seinni part ársins og lá með meiri birgðir. Það má nærri geta, að kaupendur í Suðurlöndum treystu því ekki, að hægt væri að koma í veg fyrir umboðssölu, þar sem allur fiskur hafði verið seldur í umboðssölu árið áður. Það þarf ekki annað en að nokkuð af fiskinum sé selt í umboðssölu til þess að verðlagið hrapi skyndilega. Það var því eðlilegt, að þessir menn væru ófúsir að kaupa í fastan reikning. Það var ekki hægt að koma því fram nema með því að S. Í. F. fengi meginhluta fiskjarins 1932 og eftirleiðis, og að sá fiskur, er seldur væri utan við S. Í. F., yrði ekki seldur í umboðssölu.

Ég er sannfærður um það, að ef einkasala hefði verið sett á stofn 1932, þá hefði enginn fengizt til að kaupa í fastan reikning, heldur hefði allt verið selt í umboðssölu, og við hefðum þurft að sæta sama verði og 1931. Vegna þess hve S. Í. F. fékk mikinn fisk 1932, gat það gefið nokkurnveginn tryggingu fyrir því, að ekki yrði selt í umboðssölu það ár, og þar með gefið þeim nokkra tryggingu, er keyptu í fastan reikning og lægju með birgðir í markaðslöndunum. Ég gat þess áður, að ýmsir, er höfðu haft viðskipti við okkur, vantreystu því, að þetta mætti takast, og vildu ekki taka upp bein viðskipti þegar. En þegar þeir sáu, að á fyrsta árinu, 1932, var mestur fiskurinn óseldur í byrjun ágúst, að tekizt hafði að koma í veg fyrir umboðssölu og verðið fór smáhækkandi, þá urðu þeir ánægðir. Þessir menn hafa í rauninni sömu hagsmuna að gæta og framleiðendur hér heima, að ekki verði verðfall á fiskinum, því að þeir liggja oft með milljónabirgðir af fiski. Tapið við verðfall kemur fyrst niður á þeim, en seinna á okkur. Þannig var það 1930, en við supum seyðið af því 1931.

Það er enginn í þessu landi, sem mun neita því, að S. Í. F. hafi hjálpað til að losa okkur við umboðssöluna og hækka verulega verð á fiskinum. S. Í. F. hefir á þennan hátt bjargað útveginum frá stórkostlegu tapi, sem skiptir mörgum milljónum eða á tug milljóna. Því undarlegra er það, að nú skuli hlaupið til og reynt að bregða fæti fyrir þessi samtök.

Ein af aðalástæðunum, sem nefndar eru í nál. meiri hl., fyrir því, að frv. sé fram komið, er m. a. óánægja, sem á að vera hjá einstökum mönnum með S. Í. F., og hv. frsm. meiri hl. reyndi að færa rök að því, að S. Í. F. hefði orðið til bölvunar, a. m. k. hefði því mistekizt herfilega.

Ég held nú ekki, að hv. frsm. meiri hl. sé svo vanhygginn, að hann vilji kasta því skipulagi, sem bjargaði okkur frá umboðssölu, hækkaði verðið á fiskinum og kom þessum málum í það horf að erlendir innflytjendur eru ánægðir með viðskiptin. Ég var einn af þeim, er vann að því 1932, fyrir tilmæli bankanna, að S. Í. F. var stofnað. Erfiðleikarnir voru í því fólgnir, að þeir, sem höfðu viðskiptasambönd í markaðslöndunum, voru ófúsir á að afhenda þau, enda þótt þeir yrðu í stjórn S. Í. F. Þessum mönnum var það ljóst, að ef ekki yrðu mynduð slík frjáls samtök, þá mundi umboðssalan halda áfram, og að það var sama og dauði fyrir framleiðsluna. En það var lengi svo, að sumir þeirra vildu hafa svokallað „gruppe-system“, að útflytjendur væru margir og hver hefði sína viðskiptamenn. Án þess að þessir menn gengju til samstarfs var ekki hægt að ná svo miklu fiskmagni, að hægt væri að koma í veg fyrir umboðssöluna og koma ábyrgðinni að nokkru á hendur erlendra innflytjenda. En það tókst að fá þessa menn til samstarfs og mynda samtökin, enda þótt starfsfyrirkomulagið væri annað en margir hefðu óskað, sökum þess, að eigi vannst tími til að koma þessu á fastan grundvöll, svo að allir, er fisk höfðu til sölu, tæku þátt í kosningu framkvæmdarstjórnar. Erlendir menn buðust til að taka fisk í umboðssölu, og við, í Fisksölusamlagi Vestfirðinga, fengum t. d. 14 tilboð í þessa átt frá Spáni og Ítalíu. Okkur var heitið því, að við skyldum ganga fyrir öðrum, borgað yrði við afskipun fiskjarins 50—55 kr., en hitt, er reikningar væru gerðir upp. Það er enginn efi á því, að aðrir hafa fengið samskonar tilboð. Í flestum tilfellum tóku þessir erlendu menn það fram, að fram hjá umboðssölu yrði ekki komizt, eins og þá stóð á.

Ég man sérstaklega eftir einum, sem hafði haft mikil viðskipti við okkur. Honum var svo ríkt í huga verðfallið árið 1930, að hann sagði, að það kæmi ekki til mála að kaupa fisk í fastan reikning. Sömu skoðunar sagðist hann vita, að aðrir væru. En þetta fór á annan veg. Það var hægt að forðast umboðssöluna 1932, hækka verðið á fiskinum um h. u. b. 10 kr. og byggja framtíðarviðskipti á þessum frjálsa grundvelli.

Eitt af því, sem hv. frsm. meiri hl. fann að, var skipun framkvæmdarstjórnar S. Í. F. Eins og ég gat um, vannst ekki tími til að skipuleggja þennan félagsskap árið 1932, en fulltrúafundur, sem haldinn var nýlega, gerði ráð fyrir því, að val framkvæmdarstjórnarinnar sé í höndum allra þeirra, er flytja út fisk.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þeir, sem nú skipa stjórnina, hefðu svo mikið fiskmagn, að þeir væru alltaf vissir um stjórnina. Ef fisksölusamlög Rvíkur, Kveldúlfur og Alliance, stæðu saman, hefðu þeir allir um 120 þús. skippund, en utan við samtökin stæðu þá aðrir fiskeigendur með 200—250 þús. skpd.

Hinsvegar er ég viss um það, að þeir, sem kjósa í stjórnina með það fyrir augum að fá þangað hæfa menn, munu varla óska að breyta til frá því, sem nú er. Ég hygg, að óánægja hv. frsm. meiri hl. sé sú sama og fram kom hjá fulltrúum Austfirðinga, sem vildu fá að velja einn mann í stjórnina. Nú hafa þeir ekki meira en 6%—7% af fiskmagni S. Í. F., svo að eftir hlutföllunum er síður en svo, að þeir hafi kröfu til framkvæmdarstjóra, en hitt er og, að mér er ekki kunnugt um, að þeir hafi neinn frambærilegan mann til þessa starfs.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, að umboðsmaður Austfirðinga hefði ekki getað gefið þeim upplýsingar um einhver atriði viðvíkjandi fisksölunni, og í því sambandi, að menn fengju ekki upplýsingar hjá S. Í. F. Þetta er misskilningur hjá hv. frsm. meiri hl. Ég hefi skipt við S. Í. F. sem forstjóri Fisksölusamlags Vestfirðinga og fengið allar þær upplýsingar, sem ég hefi viljað og framkvæmdarstj. gat gefið. Ég hefi fengið að kynnast sölusamningum, símskeytum um sölu, bréfum um umkvartanir og ýmislegu öðru. Yfirleitt hefi ég fengið að sjá allt það, sem ég hefi álitið mér nauðsynlegt að kynnast.

Hv. frsm. var að tala um, að þetta væru ekki frjáls samtök, því að bankarnir lánuðu ekki þeim, er stæðu fyrir utan þau. Ég veit, að ýmsir Austfirðingar standa fyrir utan þessi samtök. Ég veit, að nokkrir þeirra höfðu lofað þátttöku, en sviku það og seldu utan hjá S. Í. F. Það má vera, að það sé vegna þess, sem bankarnir taka Austfirðinga fastari tökum. Mér er kunnugt um það, að fyrir vestan hafa tveir útgerðarmenn staðið fyrir utan samlagið, og þessir menn hafa báðir fengið lán í bönkunum út á sinn fisk eins og aðrir. En hv. 2. þm. S.-M. verður að viðurkenna þann geypilega mikla mismun, sem er á þessum frjálsu samtökum framleiðenda sjálfra og lögskipaðri ríkiseinkasölu. Á því mun hann, og því miður allir aðrir, fá að kenna, ef lögleidd verður einkasala á saltfiski. Þessi feykilegi munur er sem sé fólginn í því, að með því fyrirkomulagi, sem verið hefir á saltfiskverzluninni síðastl. 2 ár, höfum við fengið ágæt viðskiptasambönd og tryggt okkur samstarf við saltfiskinnflytjendur á Spáni, Ítalíu og Portúgal, sem hafa þar sömu hagsmuna að gæta eins og við. En ef stofnuð yrði ríkiseinkasala á saltfiski, þá er það vitað af öllum, sem nokkuð þekkja til, að slíkt samstarf fæst ekki við þessa innflytjendur, þó að hv. stjórnarflokkar vilji ekki viðurkenna það. Og ég hygg, að ríkisstj. hafi borizt skeyti um það frá meiri hl. saltfisksinnflytjenda á Spáni, þar sem varað er við að lögfesta nokkuð í þá átt.

Nei, í stað samstarfs innlendra framleiðenda og útlendra innflytjenda þar á staðnum, sem fiskurinn er seldur, í stað þessa ágæta samstarfs kemur einkasala, sem spillir því og eyðileggur með öllu þetta samkomulag. Og hvar erum við þá staddir?

Hv. frsm. sagði, að hér hefði verið sett um stundarsakir, með bráðabirgðalögum, einkasala á saltfiski. Já, það var gert seint á árinu 1932, og honum mun vera vel kunnugt um, af hvaða ástæðu það var gert. Ástæðan til þess að bráðabirgðal. voru gefin út var sú, að erlent firma, sem hafði haft hér á hendi útflutningsstarfsemi á fiski í mörg ár, gerði allt, sem í þess valdi stóð, til að spilla fyrir því, að samtök kæmust á milli útgerðarmanna hér á landi um fisksöluna. Hér ætti að vera nokkurnveginn kunnugt um þetta, því að ég var umboðsmaður fyrir þetta firma í mörg ár. Og mér voru m. a. s. boðin mjög góð kjör fjárhagslega séð fyrir mig, ef ég hefði viljað halda áfram að gegna því starfi. En ég sá fram á, að ef umboðssala erlendra manna á fiskafurðum hér á landi fengi að halda áfram, þá mundi það stórspilla fyrir innlendum útflytjendum við fisksöluna og koma sjávarútveginum yfirleitt í öngþveiti. Þess vegna snerist ég á móti þessu erlenda firma, sem ég hafði svo lengi skipt við, og kaus heldur, þrátt fyrir óvenjuleg kostaboð frá þess hálfu, að vinna að þjóðnýtum störfum, þó að ég yrði að starfa fyrir sáralítil laun. Þetta firma var í undirbúningi með að kaupa í ársbyrjun 1933 mjög mikið af saltfiski, sem það svo ætlaði að verka í húsi og selja fyrri hluta ársins, en með því hefði orðið stöðvuð sala á fiskbirgðum ársins 1932, sem í árslokin 1932 voru um 10 þús. tonn af Spánarfiski, og sölusamlag ísl. fiskframleiðenda látið brenna inni með allar fiskbirgðirnar frá 1932. Ef þessi fyrirætlun hefði tekizt, þá var S. Í. F. dautt, þar sem enginn gat treyst því lengur til að fara með fisksöluna í umboði framleiðenda, eftir að augljóst var, að það gat ekki staðið við að selja þær fiskbirgðir, sem það var búið að taka í umboðssölu. Og enn síður gátu erlendir innflytjendur á Spáni borið traust til S. Í. F., þegar það ekki gat uppfyllt skilyrðin um að halda verðinu uppi og koma í veg fyrir umboðssölu. Þess vegna var gripið til þessara nauðvarna í des. 1932, og gefin út bráðabirgðalög, sem heimiluðu stj. að hefta sölu á framleiðslu ársins 1933, þar til búið væri að selja eldri birgðir. En l. komu ekki til framkvæmda nema að litlu leyti, og þurfti ekki að beita þeim að neinu ráði. Ennfremur voru 1. framkvæmd þannig, að veittar voru undanþágur til útflutnings og sölu á öllum þeim fiski, sem sýnilegt þótti, að ekki mundi spilla, eða standa í vegi fyrir sölu á fiskbirgðunum frá 1932. Þetta var því einungis varnarráðstöfun, fyrst og fremst gerð í því augnamiði, að sporna við því, að eyðilagðir yrðu sölumöguleikar á fiskbirgðunum frá 1932, og í öðru lagi til þess að koma í veg fyrir, að S. Í. F. gliðnaði þegar á fyrsta starfsári. Og líklegast hefir enginn Íslendingur þá verið svo skammsýnn, að vilja leyfa það, að S. Í. F. yrði lagt niður, sem þá var búið að hækka fiskverðið um 10 kr. á skp. og var á góðri leið með að vinna allflesta fiskinnflytjendur á Spáni til samstarfs. Ég hygg, að það hefði enginn viljað láta það viðgangast, að erlent firma næði umboði á fisksölunni hér á landi, aðeins fyrir hagsmuni nokkurra útgerðarmanna, sem hefðu máske getað selt nýjan fisk í jan., febr. og marz 1933.

Því miður er ekki hægt, af ástæðum, sem öllum þdm. eru kunnar, að fara svo nokkru nemi út í ummæli hv. þm. V.-Ísf., sem Nýja dagblaðið flytur eftir honum, að þeir Richard Thors og Sveinn Björnsson hafi óskað eftir ríkiseinkasölu á saltfiski í fyrravor, í skeyti, sem þeir sendu frá Spáni. (IngP: Ég hlustaði á þessa yfirlýsingu hv. þm. V.-Ísf. í Nd.). Þeir, sem lesa grein hv. þm. V.-Ísf. og einnig útdrátt úr því bréfi, sem um er að ræða, hljóta að sjá, að þar er alls ekki, óskað eftir ríkiseinkasölu á saltfiski. — En það vita allir hv. þm., ég vona, að fleiri viti það ekki eins og stendur, að í sambandi við verðjöfnunarsjóð töldu þessir menn (R. Th. og Sv. Bj.) það rétt, að fisksalan væri sem mest á einni hendi, svo að ég ekki segi of mikið, til þess að verðjöfnunarsjóður yrði þannig tryggður, án þess að ganga þyrfti á milli allt of margra fiskseljanda.

Hv. frsm. gat þess, að nú væru miklir erfiðleikar fyrir höndum, og það er satt að því er snertir hinar fyrirsjáanlegu takmarkanir á útflutningi framleiðsluafurðanna. En það eru engir erfiðleikar fyrir höndum í fiskverzluninni sjálfri. Og þetta frv., sem gerir ráð fyrir einkasölu á saltfiski, léttir ekki fyrir því, að komið verði meiri fiski inn á markaðinn hjá viðskiptaþjóðum okkar. Um hvatir þeirra, sem að þessu frv. standa, til að torvelda þetta, skal ég ekkert fullyrða. En ég hefi ástæðu til að óttast, að einnig í því efni leiði það tilfinnanlega til bölvunar. Hitt er öllum vitanlegt, að verði einkasöluheimildin framkvæmd, þá leiðir það til stórfelldrar bölvunar fyrir fiskverzlun okkar yfirleitt, fyrst og fremst vegna þess, að við höldum ekki þeim ágætu samböndum og samstarfi við fiskinnflytjendurna á Spáni og öðrum Suðurlöndum, sem sölusambandið er búið að skapa. Og ég er sannfærður um, að ef hæstv. atvmrh. verður svo ógæfusamur að stofna til slíkrar einkasölu sem heimild er veitt til í frv., þá leiðir það óhjákvæmilega til þess, að umboðssalan kemur aftur yfir okkur, verðið lækkar á fiskinum og margskonar önnur ógæfa steðjar að.

Einasta vonarglætan, sem ég hefi, er sú, að hæstv. atvmrh. hafi þá ábyrgðartilfinningu og þekkingu á þessum málum, að hann sjái það sjálfur, að framkvæmd 12. gr. frv. verði aðeins til þess að eyðileggja fiskverzlun okkar og sjávarútveginn yfirleitt. En jafnvel þó að svo gæfusamlega takist til, sem ég er enganveginn viss um, að einkasöluheimildin ekki verði notuð, þá er enginn vafi á því, að flutningur þessa frv., með þessu heimildarákvæði 12. gr., hefir þegar valdið okkur stórum hnekki, þannig að sumir viðskiptamenn okkar á Spáni halda ekki áfram þeim viðskiptum, sem við höfum nú, nema full trygging fáist fyrir því, að ekki verði stefnt til einkasölu á fiskinum.