14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég get haft svar mitt miklu styttra en ella, af því að hæstv. atvmrh. hefir þegar svarað mörgu í ræðu hv. frsm. minni hl. Ég verð þó að drepa á nokkur atriði, og vil ég fyrirfram biðja hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég neyðist til að tala nokkuð um mál, sem ekki liggur hér fyrir, af því að hv. frsm. minni hl. vék að mér persónulega í sambandi við það mál. Hann minntist hér á síldareinkasöluna sálugu, og sagði í því sambandi, að sig furðaði á því, að einn af framkvæmdarstjórum þess fyrirtækis skyldi dirfast að mæla með þessari einkasölu. Hann sagði, að síldareinkasalan hefði skapað síldareigendum þau verstu kjör, sem þekkzt hefðu, og jafnframt gloprað niður þeim markaði, sem fyrir var. Vil ég nú minnast á, hvernig ástandið var hér í síldarmálunum áður en einkasalan tók til starfa. Skal ég ekki lýsa minni eigin skoðun um þetta efni, heldur vitna í skoðanir Björns Líndals, sem prentaðar eru í Alþt. 1926, og vil ég benda hv. þm. á að kynna sér þau ummæli, ef hann hefir ekki gert það áður. Þar er því lýst með sterkum orðum, í hvílíkt öngþveiti síldarsalan sé komin og talað um nauðsyn þess að hefjast handa sem fyrst. Ég ætla ekki að tefja tímann á að lýsa þessum ummælum frekar, því að þau eru öllum til sýnis í þingtíðindunum. Hinsvegar vildi ég gera lítilsháttar samanburð á síldarsölunni eins og hún var þann tíma, sem einkasalan starfaði, og eins og hún var næstu árin á undan, sem Björn Lindal lýsti. Það var árin 1928—29, sem ég var við einkasöluna, en árið 1928 voru síldareigendum greiddar fullar 13 kr. fyrir hrásíldartunnu og árið 1929 milli 12 og 13 kr. Árið 1930 mun verðið hafa verið nokkru lægra, en ég hygg, að það hafi þó verið 10—11 kr. á tunnu. Þegar þessi 3 ár eru borin saman við árin 1926 og 1927, held ég, að einkasalan þoli fyllilega samanburðinn, og það mun óhætt að fullyrða, að síldareigendur hafi þessi þrjú ár aldrei fengið minna en 11 kr. meðalverð á tunnu. Því miður hefi ég þessar tölur ekki alveg nákvæmar, af því að ég bjóst ekki við að þurfa að standa hér upp til andsvara fyrir síldareinkasöluna. Tölurnar fyrir 1928 munu þó vera nokkuð nákvæmar. Ég er ekki alveg eins viss um tölurnar 1930, en það skakkar aldrei miklu. Þegar þessi 3 ár eru borin saman við næstu 3 ár á undan, er óhætt að segja, að síldareigendur hafi þénað svo hundruðum þúsunda skiptir. Að því er snertir árið 1931, síðasta starfsár einkasölunnar, sem hv. þm. vitnaði í þegar hann var að tala um, að síldareigendur hefðu fengið verri kjör en nokkru sinni áður, þá er þess að gæta, að síldareinkasalan var stöðvuð á því tímabili, þegar verst stóð á. En þó að þetta ár sé tekið með og reiknað út meðalverð fjögurra ára, verður verðið a. m. k. ekki lægra en árin 1926—1927. Það þýðir ekki í þessu sambandi að miða við einstaka sölu. Hvernig hefir svo ástandið verið síðan síldareinkasalan var leyst upp? Ég held, að ekki hafi fengizt öllu meira fyrir síldina þessi ár en á meðan einkasalan starfaði. Síðastl. sumar munu ekki hafa verið greiddar nema 5—6 kr. fyrir hrásíldartunnu, eða helmingi lægra en meðalverð á tímum einkasölunnar. Þegar litið er á síðasta ár einkasölunnar, er aðeins 2 kr. voru greiddar á hverja hrásíldartunnu, verður að gæta þess, að hún var stöðvuð á versta tíma, og á það ber að líta, hvort það hefir ekki átt sinn þátt í útkomunni. Ég vil minna á grg. Böðvars Bjarkans um þetta mál árið 1931—32. Hún sýnir, að einkasalan gat staðið undir öllum sínum skuldbindingum, ef hún hefði ekki verið stöðvuð. Þessari grg. hefir hvergi verið mótmælt. (JAJ: Reynslan hefir mótmælt!). Ég á eftir að koma að því. En ef þessi grg. Böðvars Bjarkans hefir verið gripin úr lausu lofti, þá hefði átt að mæla á móti henni. En það hefir enginn treyst sér til þess. Hv. frsm. minni hl. segir, að reynslan hafi mótmælt. En hvaða fyrirtæki mundi þola stöðvun á þeim tíma, sem það liggur með mestallar birgðir sínar óseldar? Ég hygg, að þau yrðu ekki mörg. Ég hefi ekki séð neina fullnaðarskilagrein frá skilanefnd einkasölunnar, en ég hygg, að þar muni ekki færðar til greiðslu allar þær upphæðir, sem mátt hefði, ef einkasalan hefði haldið á fram. Ég hygg, að útkoman hefði orðið önnur, ef einkasalan hefði fengið að starfa áfram. Ég skal auðvitað ekki draga fjöður yfir það, að hún hafði sína galla, og það má vel vera, að ýms mistök hafi orðið á framkvæmdum hennar. En þrátt fyrir þá meðferð, sem hún fékk að lokum, var útkoman sú, að hvorki fyrir eða eftir fékkst hærra verð fyrir síldina en meðalverð það, sem hún greiddi meðan hún starfaði. Ég vildi ekki láta þessum ummælum hv. þm. ómótmælt, úr því að hann óskaði að draga þetta inni í umræðurnar.

Hv. þm. bar mér það á brýn, að ræða mín hefði öll snúizt um það, að ganga af S. Í. F. dauðu. Ég tel þá, að sú stofnun sé nokkuð nærri dauða komin, ef ræða mín hefir nokkur áhrif í þá átt. Ég gerði ekki annað en að benda á það, sem hv. þm. kallaði smávægilega galla. Það getur verið, að þessir gallar séu smávægilegir, en það hefir þó verið haldið svo á málunum, að fjöldi manna treystir ekki félaginu eða stj. þess. Hann hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að S. Í. F. hefði verið til bölvunar. Það hefi ég nú ekki sagt, en hinsvegar er hægt að fá óyggjandi sannanir fyrir því, að ýmsar ráðstafanir þess hafa vakið tortryggni, sem mátti komast hjá, t. d. það, að neita fiskeigendum um í stj. félagsins. Ég minntist á, að Austfirðingar hefðu ekki átt kost á að kynna sér sölu samlagsins eða starfsaðferðir. Hv. þm. svaraði því og sagði, að hann hefði alltaf fengið að sjá þau skjöl samlagsins, sem hann óskaði. Ég ber ekki brigður á þessa frásögn hans. En þá er ekki nema eitt af tvennu: Annaðhvort hefir honum verið sýnt meira traust en Austfirðingum, eða þá að hann hefir verið lítilþægari í kröfum sínum um þau skjöl, sem hann óskaði að sjá. Ef hann hefir ekki verið lítilþægur, þá hefir verið gert upp á milli Vestfirðinga og Austfirðinga. Það er eðlilegt, að það veki tortryggni, ef umboðsmaður Vestfjarða fær aðgang að öllum skjölum sölusambandsins, en umboðsmaður Austfjarða fær ekkert að vita. Hann minntist á, að ef þeir, sem velja í stj. samlagsins, vildu velja hæfustu mennina, þá ættu þeir að velja þá menn, sem nú eru í stjórninni. Ég get samsinnt því, ef það er rétt, að þetta séu hæfustu mennirnir. En ef hæfir menn gegna þessum störfum, sýnist mér óhætt, að fiskeigendur fengju að hafa þar nokkurn íhlutunarrétt. Mér finnst kenna nokkuð mikils einræðis hjá núverandi stj. S. Í. F., að vilja neita framleiðendum um íhlutunarrétt í kosningu stjórnar. En eins og gengið er frá því frv., sem samþ. var á fulltrúafundinum hér í Rvík í haust, er það víst, að framleiðendum er ekki tryggður íhlutunarréttur um stjórnina. Þar er svo um hnútana búið, að það eru fiskpundin, sem hafa atkvæðisrétt, en ekki mennirnir.

Nú hagar svo til, að fiskveiði er mest hér við Faxaflóa, og í stj. fél. eru þeir, sem mestra hagsmuna hafa að gæta um fisksöluna á Suðurlandi. Það eru því litlar líkur til, að hér sé um annað en tylliboð að ræða fyrir útkjálkamenn, bæði fyrir austan og vestan, nema ef Vestfirðingar njóta einhverra fríðinda, eins og virtist koma fram hjá hv. þm. Réttur útkjálkamannanna virðist því ekki á marga fiska. Í 4. gr. er svo fyrir mælt, að stj. fisksölusamlagsins geti látið fara fram kosningu á einum manni eða öllum í stj. Segja mætti, að menn úti á landi gætu komið einum manni að, ef allir væru kosnir samtímis. En nú kynni stj. á næsta ári að ákveða, að skipta skyldi um einn mann. Hvernig færi þá? Þá yrðu menn úti á landi útilokaðir, því að það eru skippundin, sem kjósa. Svona er í pottinn búið í frv.

Ég get ekki látíð ómótmælt þeirri ásökun, sem hv. þm. kom með á hendur Austfirðingum. Hann sagði, að þeir hefðu svikið gerða samninga við S. Í. F. Ég ætla, að þetta sé með öllu ómaklegt og rangt og bendi í þá átt, að Austfirðir hafi jafnan verið olnbogabörn fisksölusamlagsins. En ég hygg, að hv. þm. eigi við það, sem gerðist 1933, og kannske eitthvað 1934, að þegar ekki var hægt að losna við fiskinn á Austfjörðum, seldu nokkrir hlutarmenn eitthvað af fiski ensku firma, sem hafði útflutningsleyfi héðan af landi. Stj. S. Í. F. aðvaraði þá um, að þeir mættu þetta ekki, en þeir neituðu og sýndu samning hásetanna, sem ráðnir voru upp á hlut og máttu ráðstafa sínum fiski sjálfir. Þessi sala fór fram, og ég veit, að hlutarmenn buðu S. Í. F. að fara í mál, en það gerði það ekki. Það hótaði að vísu málsókn og sömuleiðis því, að halda verði fiskjar, sem það seldi fyrir Austfirðinga, en það framkvæmdi ekki þær hótanir, af því að mennirnir voru engum samningum við það bundnir og höfðu fullan rétt til að selja utan samlagsins. Það er því mjög ofmælt, að Austfirðingar hafi rofið nokkurn samning við samlagið. En eftir því sem hv. þm. hefir upplýst um ánægju sína fyrir hönd Vestfjarða, virðist svo sem Austfirðir séu meiri olnbogabörn samlagsins, og er skammt á að minnast, að á síðastl. ári hefir salan gengið þannig á Austfjörðum, að þaðan er ekki farinn enn í dag nema tæpur helmingur af fiskmagni ársins, og það einmitt verðminni fiskurinn, Labrador- og millifiskur, en eftir er Barcelona-verkaður fiskur, sem er verðmeiri, ef hann kemst á markaðinn á hæfilegum tíma. Að verðmæti til er því ekki búið að selja nándarnærri helminginn af austfirzkri fiskframleiðslu. Ég skal taka fram í þessu sambandi, að áður en fisksölusamlagið tók til starfa, var Austfjarðafiskur nær því undantekningarlaust verkaður á Barcelona-markaðinn og var eftirsótt vara. Síðan hefir þetta breytzt, og Austfjarðafiskinum hefir verið haldið til baka. Þó bar ekki eins mikið á því 1933, af því að þá gekk svo illa með fiskþurrk hér syðra, að ekki var hægt að fullnægja markaðinum með sunnlenzkum fiski, og fór því Austfjarðafiskurinn jafnhliða á markaðinn. En í sumar gekk þurrkun vel hér, og var því lögð áherzla á að velja svo mikið á Barcelona-markaðinn, að hægt væri að fullnægja þörfinni, en Austfjarðafiskurinn var settur til baka og liggur óseldur enn. Það má vel vera, að í öllum þessum ráðstöfunum liggi einhver nauðsyn að baki. Austfirðingar krefjast útskýringar á því, hvers vegna næstum allur Austfjarða-fiskurinn er verkaður fyrir Barcelona-markaðinn, og hvers vegna hann var allur settur til baka í ár. (MJ: Hve mikið var það, sem á milli bar?). Ég get ekki svarað því nákvæmlega, því að ég hefi ekki skýrslur um það með höndum. En ég veit fyrir víst, að það er svo mikið, að ef Austfjarðafiskurinn á að komast á Barcelonamarkaðinn, þá mun það taka mikinn tíma, að markaðurinn geti tekið á móti öllum fiskinum.

Það er ýmislegt fleira, sem Austfirðingar spyrja um í þessu sambandi, en þeir fá ekkert svar. (JAJ: Víst fá þeir svar:). Þeim er sagt, að markaðurinn sé fullur. Það er vitanlega skiljanlegt. En hvers vegna hafa þeir ekki fengið að senda fisk hlutfallslega við það, sem aðrir landsfjórðungar hafa gert? Þeir hafa enga skýringu fengið á því. Hvers vegna má ekki meðhöndla þessa viðskiptamenn eins og venja er að gera og gefa þeim fúslega allar skýrslur, sem fyrir hendi eru, til þess að sannfæra þá um, að þeir séu ekki misrétti beittir.

Mig langar til þess að minna á atvik, sem kom fyrir sumarið 1933. Þá var lítill þurrkur á Suðurlandi, en góður þurrkur á Austurlandi, og fiskur því snemma tilbúinn eins og oftar, því að þar er oftast þurrkur framan af sumri. Þá var fiskframleiðendum tilkynnt í júní, að afskipun færi fram fyrir Austurland, og þeim var einnig tilkynnt, að verðið yrði 67 kr. fyrir skp., en samt vil ég ekki fullyrða það atriði. Mig minnir það fastlega. Fiskeigendum fannst verðið of lágt og vildu því ekki afskipa í það skiptið. Það gekk síðan í nokkru stímabraki út af þessu. Þeim var síðan bent á það, að þeir mættu búast við því, að verða að liggja lengi með fiskinn og e. t. v. að verka hann á annan markað, ef þeir vildu ekki ganga að því að afskipa í þetta skipti. Þeir töldu samt sem áður, að þótt þeir hefðu lofað að afhenda fisk sinn til fisksölusambandsins, þá hefðu þeir ekki skuldbundið sig til þess að gera það á vissum tíma. Það varð ekki af þessari útskipun í þetta skipti, en sölusambandið spurði, hvað menn vildu fá fyrir fiskinn. Því gátu menn vitanlega ekki svarað. Þeim fannst eðlilegt, að sölusambandið gæti sagt, að þetta og þetta væri markaðsverð í ár og hærra yrði ekki farið að því sinni. En jafnhliða þessu býður útflutningsfirma eitt 7 kr. hærra verði í skp. fiskjarins á Austfj. heldur en útflutningsnefndin hafði tilkynnt í upphafi. Þegar hér var komið sögu, fóru nokkrir austfirzkir útgerðarmenn fram á leyfi til þess að fá að selja fiskinn fyrir þetta verð. Þeim var synjað um leyfið, en fengu jafnframt það svar, að nú væri hægt að selja fisk fyrir 5 kr. meira. Það varð þá vitanlega niðurstaðan, að fiskeigendur afhentu sölusamlaginu sinn fisk, og verðið hækkaði um 5 kr. Þetta kom mönnum því undarlega fyrir sjónir. Fyrst og fremst það, að sölusamlagið spurði útgerðarmenn, hvaða verð þeir vildu fá fyrir fiskinn, og eins urðu menn hissa á því, að sölusamlagið skyldi geta greitt 5 kr. hærra fyrir skp. nokkrum dögum eftir að það lýsti yfir því, að það gæti það ekki.

Að vísu getur eðlileg orsök legið þessu til grundvallar. En mér finnst það vekja tortryggni, þegar mönnum er meinað að fá nægilegar upplýsingar.

Ég hefi ekki dregið þessi dæmi fram til þess að álasa sölusambandinu fyrir það, að svo atvikaðist, heldur fyrir það, að engin tilraun var gerð til þess að sýna fram á, að allar þessar ráðstafanir væru óumflýanlegar. Upphaflega hafði ég ekki hugsað mér að fara nákvæmlega út í þetta, hefði hv. þm. N.-Ísf. ekki farið að bregða Austfirðingum um svik. Mér hefir aldrei til hugar komið að bera sölusamlaginu svik á brýn. En óneitanlegu eru mörg atriði í þessu sambandi, sem vekja tortryggni, og það hefir engin tilraun verið gerð til þess að útrýma þeirri tortryggni. Það er það, sem ég álasa sölusambandinu fyrir.

Ég benti á það í fyrri ræðu minni, að ekki hefði alltaf verið fyrir hendi sú reynsla, sem nú virðist vera, bæði hjá sölusamlaginu og hv. þm. N.-Ísf., ef einkasala hefði ekki alltaf verið til staðar, og benti ég þá á bráðabirgðal. frá 1932. Hv. þm. minntist á það í ræðu sinni, hver nauðsyn hefði verið á því að setja þessi lög. Ég vék engu orði að því, að l. hefðu verið óþörf. Þvert á móti lít ég sömu augum á nauðsyn þessara laga og hv. þm. sjálfur. Hv. þm. útskýrði, hvers vegna þá þyrfti ekki að óttast neitt í sambandi við þessa einkasölu. Það var vegna þess, að l. voru sett til þess að fisksölusamlagið gliðnaði ekki í sundur. Þegar um einkasölu er að ræða, sem er sölusamlaginu til hagsbóta, þá þarf ekki að búast við neinu háskalegu. Þetta eru orðrétt ummæli hv. þm. N.-Ísf. (JAJ: Dálitlu er nú sleppt). Nei, það er engu sleppt. Hann sagði, að þetta hefði verið lífsnauðsyn, til þess að fisksölusamlagið gliðnaði ekki í sundur. (JAJ: Til þess að tryggja sölu á þeim birgðum, sem í landinu lágu). Ég skrifaði þessi orð upp eftir hv. þm., svo að þau eru rétt höfð eftir.

Hvers vegna var mikið talað um einkasölu á síðastl. vori? Af því að þá var hugsað um einkasölu til þess að tryggja fisksölusamlagið. (JAJ: Þetta eru vísvitandi ósannindi hjá hv. þm., sem hann ber fram sökum þess, að hann veit, að það er ekki hægt að tala um þetta opinberlega). Það má þó tala opinberlega um bráðabirgðal. frá 1932. Það er staðreynd, sem ekki verður mótmælt, að talað var um einkasölu síðasta vor í sambandi við sölusamlagið.

Ég get þá látið þetta nægja til andsvara ræðu hv. þm. N.-Ísf., því að öðru leyti hefir hæstv. atvmrh. svarað ræðu hans hvað því viðvíkur, að hann hélt því fram, að frv. það, sem hér liggur fyrir, gerði ráðstafanir, sem miðuðu aðallega í áttina til einkasölu.

Hv. þm. sagði undir ræðulokin, að engir sérstakir örðugleikar væru fyrir hendi viðvíkjandi fisksölunni, heldur aðeins hvað snerti markaðinn fyrir fiskinn. Ég er hv. þm. vitanlega alveg sammála um síðara atriðið. En eins og hæstv. ráðh. drap á, gerir þetta frv. ráð fyrir því, að ráðstafanir verði gerðar í þessu efni til þess að skapa nýja markaði og nýjar verkunaraðferðir. Hvað hitt atriðið snertir, að ekki sé um erfiðleika við fisksöluna að ræða, vil ég bara segja það, að ég hygg, að Austfirðingar hafi því miður rekið sig allóþyrmilega á þessa örðugleika.

Á Austfjörðum er nú þannig ástatt, að þótt sæmilega sé aflað og meðalverð sé það hátt, að ástæðulaust sé undan því að kvarta, er útkoman samt þannig, að fjöldi útgerðarmanna er í hreinustu vandræðum með að geta staðið undir daglegum þörfum. Þetta stafar af þeim ástæðum, sem ég hefi áður bent á, að meira en helmingur af fiskmagninu liggur óselt þar. Ég hygg, að þetta stafi a. m. k. að nokkru leyti af söluerfiðleikunum.

Skal ég svo ljúka máli mínu. Seinna mun ég taka til máls, ef tækifæri gefst til þess.