14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (3661)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég skal ekki eyða miklum tíma í að svara hv. frsm. meiri hl. Ég þarf þó að leiðrétta það, sem hann sagði um síldareinkasöluna. Ég vildi benda honum á það, með því sem ég sagði, að þegar maður hefir fengið slæma reynslu af einhverju fyrirkomulagi, þá er varasamt að hverfa að því á ný. Það er öllum léðum ljóst, að útgerðarmenn háðu ekki um einkasölu á síld. Þeir vildu aðeins, að þeim yrði hjálpað til þess að styrkja samtök útgerðarmanna til samsölu á svipaðan þátt og fisksölusamlagið er nú rekið, en sósíalistar knúðu framsóknarmenn til þess að taka upp einkasölu í stað samvinnurekstrar.

Fyrsta árið, sem síldareinkasalan starfaði, var síldarverðið mjög sómasamlegt, annað árið var það 9 kr., en síðasta árið aðeins 2/3 kr. að jafnaði.

Á vélbátnum „Svölunni“ fyrir vestan fengu skipverjar fyrst 13 kr., þá kr. 9,50, svo 7 kr. og að síðustu 2 kr., sem ekki var hægt að greiða. Verðið gat verið þolanlegt á meðan ekki var búið að spilla aðalsíldarmarkaði okkar í Svíþjóð, en eftir að búið var að eyðileggja að mestu þennan markað, þá komu vandræðin fyrst fyrir alvöru í ljós, þá var ómögulegt að selja síldina, því að markaðurinn var tapaður. Þennan markað tóku Norðmenn af okkur með sinni frjálsu verzlun.

Hv. þm. getur séð það í ræðu, sem ég hélt 1931, að Norðmenn borguðu miklu hærra verð fyrir síldina þau árin, sem einkasala var, og seinasta ár einkasölunnar fengum við ekki nema 2 kr. fyrir okkar síld; þá borguðu þeir 9,75 kr. norskar.

Markaðstapið var vitanlega miklu tilfinnanlegra fyrir framtíð síldarútgerðarinnar heldur en töpin á síldareinkasölunni voru fyrir síldarútvegsmenn og landsmenn í heild, enda þótt það hafi verið blóðugt síðustu árin að geta ekki einn sinni fengið þessar 2 kr. greiddar, því að raunverulega hefði síldareinkasalan alls ekki getað borgað þetta hefði hún átt að standa við aðrar skuldbindingar sínar, því að þá hefði hún orðið að gefa með hverri tunnu, sem lögð var inn til hennar. Ég skal geta þess, að hv. þm. var ekki forstjóri síldareinkasölunnar síðasta árið. Skilan. síldareinkasölunnar gekk ekki betur að selja síldina, sem ekki var von, þar sem allir markaðir voru tapaðir, enda voru líka allir sammála um að leggja síldareinkasöluna niður, nema jafnaðarmenn. Það var svo að segja enginn á móti bráðabirgðalögunum, þegar þau lágu fyrir þinginu.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að útkoman á rekstri síldareinkasölunnar var milljóna tap, verðlaus framleiðsla og gereyðilagðir síldarmarkaðir.

Að öðru leyti beindist ræða hv. þm. sérstaklega að fisksölusambandinu. Ræðan gekk að miklu leyti út á það að finna þar galla. Ég get ekki nema að litlu leyti svarað fyrirspurnum hv. þm., en ég verð að segja það, að mér finnst undarlegt og ótrúlegt, að umboðsmenn fiskeigenda hafi ekki fengið þær upplýsingar, sem þeir báðu um. Ég veit, að mínir umbjóðendur voru ánægðir með þær upplýsingar, sem ég gaf þeim. Ég sendi umburðarbréf til allra félagsmanna, oft mánaðarlega, en a. m. k. annan og þriðja hvern mán., um söluhorfur, og allar þær upplýsingar eru frá fisksölusambandinu.

Það kom greinilega fram hjá hv. þm., hvers vegna hann vill breyta til í þessu efni. Það var ekki hægt að skilja ræðu hans öðruvísi í því sambandi, þegar hann talaði um fisksölusambandið, heldur en að hann áliti það ófært, að fiskimagnið væri að mestu leyti látið ráða vali framkvæmdarstj., eins og samþ. var á fulltrúafundi í haust. En ég veit það, að til skamms tíma, til 1926, hefir það verið svo í samvinnufél., að þar hefir farið eftir magni, eftir því sem einn af þekktustu kaupfélagsstjórum landsins hefir viðurkennt. (IngP: Það er líka farið eftir magni. Það er gert ráð fyrir því í frv.). Svo er þess að geta, sem viðurkennt var á fundinum, að frv., sem samþ. var, átti að leggja fyrir fiskieigendur og fisksölusamlögin úti um land, og ég tók skýrt fram, að ég bindi ekki mitt atkv. endanlega við þetta frv., sem samþ. var á fulltrúafundinum. Ég vildi, að mínir umbjóðendur gætu gert breyt., ef meiri hl. þeirra óskaði þess, og þá væri hægt að leggja það aftur fyrir fulltrúafund, sem haldast átti snemma ársins 1935. Þetta tók ég strax fram í upphafi, eins og sjá má í fundargerð fulltrúafundarins.

Við höfðum ákvæði um það í okkar fél., að fiskmagnið skyldi ráða, en það var ekki nema í einu einasta tilfelli, sem sé þegar rætt var um það, hvort fisksölusamlag Vestfirðinga ætti að ganga í fisksölusambandið, sem ákvæðið um fiskmagnið var notað, en annars ekki. Ég held, að ekki sé hægt að gefa fiskeigendum meiri eða betri áhrif á kosningu forstjóra, sem vitanlega er bráðnauðsynlegt að sé vel valinn, en á þann hátt, að þeir geti kosið beinum kosningum, og það geta þeir einmitt eftir till. fulltrúafundarins.

Hv. þm. spurði mig, hvers vegna svo mikið af Austfjarðafiskinum lægi eftir óselt. Átti hann þar við Barcelona-verkaðan fisk og Spánar-verkaðan, því að bæði Labradorfiskur og pressufiskur hefir verið tekinn nokkurn veginn eftir hendinni á þessu ári. Vestfirðingar hefðu getað selt fisk við fyrstu afskipun 5. maí og svo 24. og 28. maí, ef þeir hefðu haft fisk til þá. Þeir höfðu þá aðeins 3600 pakka, meira var þá ekki til verkað. Það fengu þeir að láta, en það varð að taka fisk af Suðurlandi, vegna þess að annarsstaðar á landinu var ekki til verkaður fiskur, heldur ekki á Austurlandi. Salan hefir verið mjög lítil síðan, svo lítil, eins og allir vita, að af Spánarfiski hefir sama og ekkert verið selt fyrir utan birgðirnar frá 1933.

Vestfirðingar hafa selt 3600 pakka til Spánar, til Barcelona og lítið eitt til Bilbao, og nú liggja þeir með 30 þús. pakka, sem er jafnmikið og allt það fiskmagn, sem Austfirðingar áttu af allskonar fiski. Síðast þegar tekinn var Barcelonaverkaður fiskur, þá var hann tekinn hjá Austfirðingum, af því að álitið var, að þeir hefðu afskipað minna en aðrir landshlutar, enda þótt svo væri ekki, ef litið er eingöngu á þennan fisk, því að við höfðum meira af Barcelona- og Bilbao-verkuðum fiski liggjandi eftir hjá okkur. Hinsvegar hefir gengið fremur vel með söluna á Ítalíufiskinum, og liggur nú mjög lítið af honum fyrir austan, en þó nokkuð hjá okkur vestra, og talsvert af pressufiski, og stafar það af því, að Austfirðingar hafa verið látnir ganga fyrir um útflutning á pressufiski.

Hv. þm. sagði ennfremur, að tiltölulega hefði verið flutt mikið út af fiski frá Faxaflóa. Þetta er rétt, en það stafar af því, að útflutningur á Portúgalsfiski hefir verið mikill, en veðrátta til verkunar á honum hefir verið hagstæð hér á Suðurlandi þetta ár, en mjög andstæð á Austur- og Vesturlandi. Þannig höfum við aðeins getað verkað 2800 pakka af 18 þús., sem við höfðum ákveðið að verka fyrir þann markað. Árið 1932—33 voru Austfirðingar og Norðlendingar langt á undan okkur með útflutning.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að miklir örðugleikar virtust vera á sölunni. Ég er þess fullviss, að ef hinar nýju innflutningshömlur á Spáni hefðu ekki komið til sögunnar, væri allur fiskurinn seldur fyrir löngu. Ég veit, að hv. frsm. meiri hl. viðurkennir þetta. Örðugleikarnir liggja í orsökum, sem við ráðum ekki við, þar sem innflutningstakmarkanir Spánverja eru, en ekki í sölufyrirkomulagi okkar.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl., að við hefðum ekki verið sérstaklega hræddir við einkasölu, þegar bráðabirgðalögin um fisksöluna voru gefin út á, des. 1932. En til þess að sjá, að þar var ekki um neina einkasölu að ræða, þarf ekki annað en að vitna í l. sjálf, þar sem svo segir: „Ráðherra er heimilt að skipa svo fyrir, að frá 1. jan. til 1. apríl 1933 megi ekki nema með samþykki Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda flytja eða selja til útlanda saltaðan fisk, hvort sem hann er verkaður eða óverkaður, ef hann er lagður á land eftir 1. janúar 1933“. M. ö. o. er það bannað að selja nýjan fisk eða fisk frá árinu 1933 nema með samþykki stjórnarráðsins og að fengnum till. fisksölusambandsins, en alveg frjáls sala á öðrum fiski. L. eru aðeins sett til þess að fyrirbyggja, að birgðirnar frá 1932 verði verðlausar vegna framboðs á fiski frá 1933, þ. e. nýjum fiski. Aðalútflytjandinn utan sölusambandsins sendi út tvo farma af saltfiski frá 1932 í jan. og febr. 1933, og datt engum í hug að amast við því. Þetta er óneitanlega dálítið annað en einkasala. Útflutningurinn var aðeins takmarkaður á meðan verið var að selja gamlar birgðir. Í febrúarmán. 1933 var búið að festa sölu á öllum fiski frá fyrra ári, og þá var öll verzlun gefin frjáls. Það er því fjarstæða, að hér hafi verið um nokkra einkasölu að ræða.

Þá kem ég að hæstv. atvmrh. Ég verð að segja það, að ég var dálítið hissa á ræðu hans. Það virðist svo sem hann vildi halda því fram, að fisksölusambandið væri ekki eins nauðsynlegt og ég léti, a. m. k. ekki nú, en öll rök hans hnigu þó að því að sýna fram á, að nauðsynlegt væri, að slíkur félagsskapur væri til. Hann sagðist ekki mundi nota heimildina í 12. gr. nema í ýtrustu nauðsyn, og lagði mikla áherzlu á, að lífsnauðsyn væri að vernda fisksölusambandið. Hann sagði, að ég hefði verið að fleipra um það, að það ætti að drepa „union“. Slíkt næði engri átt. Erfiðleikarnir á fisksölunni væru að vísu miklir nú, en þó ekki óviðráðanlegir, ef núverandi skipulag héldist. Þetta er vitanlega allt saman hárrétt hjá hæstv. ráðh. En hann virtist vera alveg blindaður fyrir þeirri augljósu afleiðingu af samþykkt þessa frv., að fisksölusamlagið hlýtur að gliðna sundur. Það hefir verið sýnt fram á þetta með svo ljósum rökum í Nd., bæði af hv. þm. G.-K. og öðrum, að ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök hér. Í svo stórum félagsskap sem fisksölusambandið er, verða ávallt einhverjir óánægðir. Sumir vilja fara úr samlaginu af pólitískum ástæðum, af því að þeir telja ríkiseinkasölu eina sáluhjálparatriðið. Tökum t. d. bæjarútgerðina í Hafnarfirði, svo að ég nefni dæmi. Er ekki líklegt, að forstjórinn þar vildi fylgja sínum principum og veikja fisksölusambandið í því skyni að fá ríkiseinkasölu? Auk þess eru menn innan fisksölusambandsins, sem áður hafa haft bein viðskipti við fiskkaupmenn í markaðslöndunum. Þessir menn munu sumir vilja losna og munu síður en svo gera neitt til að halda utan um fisksölusambandið. Þetta eru einmitt stórir fiskeigendur, og þegar þeim er gefin von um að geta orðið útflytjendur í „grúppusystemi“ vilja þeir vera lausir. Í þessu liggur hættan fyrir fisksölusambandið, ef frv. verður að lögum, og ég fæ ekki séð, hvernig það á að standast þá hættu.

Þá eru enn sumir óánægðir, t. d. Austfirðingar, yfir því, að fiskur þeirra er ekki farinn og seldur í hlutfalli við sunnlenzka afskipendur. Þeir kenna stjórn fisksölusambandsins um þetta, minnast þess ekki nú, að þeir hafa 1932 og 1933 verið fyrstir til að fá afskipað öllum sínum fiski. Á ástæður fyrir hinni slæmu afskipun hjá þeim líta þeir ekki. Nú er þessum mönnum öllum gefin átylla, sem þeir höfðu ekki áður, til þess að rjúfa sambandið.

Hæstv. atvmrh. sagði, að nauðsynlegt væri að hafa slík samtök sem fisksölusambandið, og yrði að gera allt, sem hægt væri, til að stofna slík samtök, en ef það næðist ekki, yrði að gripa til ríkiseinkasölu. Hann sagði, að samtök væru það eina, sem gæti gefið innflytjendunum tryggingu gegn verðfalli á fiskmarkaðinum, en um leið og hann viðurkennir þetta, reynir hann að koma í veg fyrir, að fisksölusambandið geti haldið áfram. Hann virðist vilja, að sama ástand haldist sem nú er, en þó endilega ganga milli bols og höfuðs á þeim einu samtökum, sem geta haldið fiskverzluninni í núverandi horfi. Hann sagði að vísu einu sinni í ræðu sinni, að núverandi sölufyrirkomulag væri slæmt, en hvarf með öllu frá þeirri órökstuddu staðhæfingu síðar.

Það, sem hann sagði um lögfestingu samtakanna, var fjarri öllum sanni. Við vitum, hve erfitt var í fyrstu að sannfæra Spánverja og Ítali um það, að um frjáls samtök væri að ræða. Þeir töldu, að fisksölusambandið væri grímuklædd einkasala, sem þeir vildu ekki skipta við. Jafnvel þeir, sem áður höfðu skipt við menn, sem áttu sæti í stj. fisksölusambandsins, hættu viðskiptum við Ísland í bili. Það er því enginn vafi á því, að lögþvinguð ríkiseinkasala verður til þess, að Suðurlandaþjóðirnar minnka viðskipti við Ísland.

Ég las um daginn bréf frá einum stærsta fiskinnflytjanda á Spáni. Hann varar eindregið við að lögfesta einkasölu, og segir, að það muni verða til að spilla samstarfi um fiskverzlun, jafnvel þó ríkiseinkasala ekki verði framkvæmd. Ég hefi sýnt fram á það, að engin leið er til þess að fisksölusambandið geti haldið áfram eftir lögfestingu þessa frv. — Þá er það „grúppusystemið“. Ég held, að það fyrirkomulag á fiskverzluninni veiti ekki hina minnstu tryggingu, þar vantar bæði öryggi gegn einkasölu og verðlækkun. Auk þess myndi með þeirri aðferð skapast samkeppni milli útflytjenda um að ná verzlunarsamböndum hver frá öðrum, og er vafasamt, hve holl sú samkeppni yrði, þótt hópar þeirra útflytjenda, 4—5 manna, er þannig slægju sér saman, undirbyðu ekki fiskinn hver fyrir öðrum, væri þó ávallt hægt að bjóða önnur hlunnindi í verzluninni, svo að fisksalan hvíldi ekki á eins öruggum grundvelli og áður.

Það er ekki hægt að segja með nokkrum sanni, að ríkiseinkasala sé ekki fremur lögþvinguð en það skipulag, sem nú er. Það er auðvitað ekkert annað en fjarstæða. Við hliðina á fisksölusambandinu er rekin frjáls verzlun með 1/6—1/5 af útflutningsfiski landsmanna. Þessi frjálsa verzlun er holl til þess að „kontrollera“ fisksölusambandið. Að fisksölusambandið hefir undanfarið haft nægilegt magn, er til að vernda samvinnuna milli fisksölusambandsins og innflytjenda og gefur þeim tryggingu fyrir, að verðið lækki ekki, svo og tryggingu gegn umboðssölu.

Hæstv. ráðh. gaf að lokum yfirlýsingu til að fróa okkur, sem sjáum fram á vandræði fiskverzlunarinnar, ef þetta frv. verður að lögum. Ég náði ekki yfirlýsingu hans orðréttri, en vænti, að hún komi orðrétt hjá skrifurunum, þar sem hann las hana upp af blöðum. Ég skal því ekki fjölyrða um yfirlýsinguna fyrr en ég hefi athugað hana nánar. En taki hann nú ekki í taumana og varni því, að fisksölusambandið gliðni í sundur, verð ég að segja, að yfirlýsingar hans eru lítils virði. — Ég sé, að kl. er að verða 7, og mun ég því slíta ræðu minni að þessu sinni.