14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (3663)

150. mál, fiskimálanefnd

Magnús Guðmundsson:

Það þarf enginn að óttast neitt málþóf frá minni hendi, þó að ég standi upp, því að ég mun aðeins tala stutta stund. Ég hefi hlustað á umr. með athygli og veit, að í Nd. fóru fram miklar umr. um þetta mál, en ég verð að segja það, að ég get ekki skilið afstöðu hæstv. atvmrh. til þessa máls. Ég gat ekki betur fundið á ræðu hans en hann teldi það ákjósanlegt, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda héldi áfram starfi sínu. Hann fór lofsorðum um félagið og sagði, að hann áliti bezt, að félagsskapurinn héldi áfram. En ég verð að viðurkenna, að það kvað við annan tón hjá hv. frsm. meiri hl., en ég ætla, að það sé hæstv. ráðh., sem ræður meiru um framgang frv. en hann og mun ég því snúa máli mínu til hans. Ef hann lítur svo á, að fisksölunni sé bezt komið eins og hún er nú, þá skil ég ekki, hvers vegna hann er að gera kröfur til þess félagsskapar, sem er mjög undir hælinn lagt, hvort félagið getur uppfyllt. Ég skil ekki, að hann skuli gera þetta samtímis og hann lýsir því yfir, að það sé skárst, að félagið haldi áfram að starfa. Ég tók eftir því, að hann skopaðist að því, hvernig fisksölumálum okkar væri komið. En hann getur ekki vel gert þetta samtímis og hann segir, að S. Í. F. hafi leyst starf sitt vel af hendi. Ég skil ekki, hvers vegna hann er að narta í félagið. Hann sér fyrir þann möguleika, að félagið leysist upp, og þá taka við þessar smáfylkingar, sem eiga að flytja út, en þá sagði hann, að tæki verra við, og er ég honum sammála um það. Ég býst við, að það muni sýna sig, að þessar smáfylkingar séu óheppilegar, og hvað kemur þá á eftir? Í 12. gr. frv. eru ákvæði um ríkiseinkasölu á saltfiski, og álíta margir, að það sé kjarninn hjá hæstv. ráðh. Það er vitað, að flokkur hans hefir í mörg ár haldið fram einkasölu á saltfiski og flutt frv. um það. En ég skildi hæstv. ráðh. svo, að hann óskaði ekki eftir einkasölu á saltfiski. Ég vil nú biðja hann um að gefa yfirlýsingu um það, hvort hann álítur einkasölu á saltfiski óheppilega eða ekki. Ef hann gefur ekki yfirlýsingu um það, að hann telji hana óheppilega, þá hlýtur hann að standa undir þeim grun, að það sé einkasala, sem hann stefnir að. Það hefir oft komið fram hjá honum áður á þinginu, að hann óski eftir einkasölu á saltfiski, og er vitanlegt, að það hefir verið stefnuskráratriði hjá flokki hans. Vilji hann ekki gefa þessa yfirlýsingu, þá hlýtur hann að skilja það, að hann verður með réttu grunaður um, að hann vilji vinna að einkasölu á saltfiski. Þessa millileið má þá skoða sem skref að aðalmarkinu, eða til þess gerða að beygja þá menn, sem mest hafa með þessi mál að gera, til fylgis við einkasölu.

Eftir því, sem á undan er gengið, sé ég ekki, að líkur séu til þess, að S. Í. F. gangi að þeim skilyrðum, sem hér eru sett í frv., af þeirri ástæðu, sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi, að stjórn félagsins á að setja undir yfirstjórn fiskimálanefndar. Ég sé þess vegna ekki, að það sé nema ein leið til þess að vernda S. Í. F., og hún er sú, að taka einn eða fleiri af aðalmönnum samlagsins og setja í fiskimálanefnd, því þá verður sameiginleg stjórn á báðum fyrirtækjunum. Mér getur ekki dottið í hug, ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að hann hafi gott traust á S. Í. F., að hann hafi þá á móti því, að einn eða fleiri úr S. Í. F. séu skipaðir í fiskimálanefnd. En þá finnst mér til lítils barizt, og afleiðingin af þessari breyt. sama og engin, og að þetta ákvæði um einkasöluna sé þá aðeins til þess að hræða menn. Það er illa gert af hæstv. ráðh., ef hann er aðeins með þetta sem grýlu til þess að hræða menn, þar sem mjög margir, sem stunda þessa atvinnu, líta á þetta svo sem þarna sé um líf eða dauða að ræða fyrir atvinnu þeirra.