18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

150. mál, fiskimálanefnd

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hefi ekki á þeim þingum, sem ég hefi átt sæti, látið mig sjávarútvegsmálin miklu skipta af skiljanlegum ástæðum. Ég hefi lítil afskipti haft af þeim málum utan þings. En þetta mál, sem hér er um að ræða, er svo sérstætt, að mér finnst ég verða að friða samvizkuna áður en það nær lögfestu, og segja um það nokkur orð, meðfram út af ummælum, sem fullu í síðustu ræðu hæstv. ráðh. — Þessi löggjöf er, að mínu viti, ákaflega hættuleg, að ekki sé meira sagt. Ég undrast það, að hæstv. ráðh. skuli á fyrsta stjórnarári sínu leggja út í slíka tilraun, sem jafnhættuleg getur orðið og afdrifarík fyrir þjóðfélagið. Og ég undrast það því meir, sem ég fæ ekki séð, að þessum málum sé nú þannig komið, að nokkur ástæða sé til tilraunastarfsemi sem þessarar. Hann talar um það, hæstv. ráðh., og stagast á því ræðu eftir ræðu, að fyrirkomulagið á fisksölunefndinni sé algerlega óviðunandi og að mikil óánægja sé meðal þeirra manna, sem falið hafa n. sölu síns fiskjar, sem eru yfirleitt allir stærstu fiskiframleiðendur landsins. En hvernig er nú þessi óviðunandi tilhögun á fisksölun.? Hún er þannig, að þeim mönnum, sem langmesta reynslu og þekkingu hafa á þessum málum allra manna hérlendra, hefir verið falið að annast yfirstjórn saltfisksölunnar. Ég sé ekki annað en að við höfum hér gert nákvæmlega hið sama og aðrar þjóðir hafa gert á undanförnum árum. Þær hafa reynt að nota sína beztu krafta og sérþekkingu í hverju máli til hins ýtrasta. Og við megum vel við una að feta í fótspor þeirra í þessu efni. Síðan fisksölun. tók til starfa, og þeir menn, sem yfir mestri þekkingu og reynslu ráða á þessu sviði, tóku söluna í sínar hendur, hefir orðið gífurleg breyt. á í þessum efnum. Verð á saltfiski hefir farið hækkandi, síhækkandi meira að segja, og ég býst við, að með því verðlagi, sem nú er orðið í heiminum, geti menn ekki búizt við hærra verði fyrir saltfiskinn en verið hefir síðustu ár. Og þessir menn hafa unnið undir eftirliti þeirra peningastofnana, sem aðallega hafa varið fé til lána til sjávarútvegsins, og það eftirlit á að veita fyllstu tryggingu fyrir því, að engin hlutdrægni komi fram í störfum framkvæmdarstjóranna. Enda er ég sannfærður um, að ekki verður með rökum haldið fram, að svo hafi verið. Ég er sannfærður um, og hefi á því nokkurn kunnugleika, að fisksölun. hefir unnið með hag fiskframleiðenda yfirleitt fyrir augum og ekki látið nokkurrar hlutdrægni gæta í störfum sínum. Það er talað um það, að ekki sé lýðræðisfyrirkomulag á skipun n. og frkvstj. hennar, heldur séu þeir sjálfskipaðir. Ég vil nú fyrst spyrja, hvort er meira um vert í þessum efnum, að notaðir séu beztu kraftarnir, eða á hvern hátt þeir eru valdir, þótt ekki sé í vali þeirra farið eftir ákveðnum lýðræðisreglum. Fyrir þá, sem njóta eiga starfs þessara manna, er sannarlega meira um það vert, að hinir hæfustu menn fáist til starfsins en eftir hvaða reglum þeir eru valdir. En þess verður að gæta, að enginn maður er neyddur til þess að vera í þessum samtökum. Hér eru starfandi aðrir fiskkaupmenn, og þó nokkrir framleiðendur selja þeim og standa utan við samtökin. Þessu á að breyta. Nú á að skipa 7 manna n., sem á að fara með yfirstj. fisksölunnar, og eftir ákvæðum 3. gr. frv., sem fjallar um skipun n., hygg ég ekki of mikið sagt, þótt menn geri ráð fyrir því, að meiri hl. n. verði valinn eftir öðrum sjónarmiðum en þeim, hvort fyrir hendi sé þekking eða reynsla á því að selja fisk. Eftir reynslu undanfarinna ára orkar það varla tvímælis, að það, sem fyrst og fremst verður litið á, er, hvar í flokki menn standa og hve mikla verðleika þeir hafa sem slíkir, og hve mikla þörf þeir hafa fyrir bitlinga. Það eru ekki nema 6 ár síðan önnur höfuðgrein sjávarútvegsins, síldarútvegurinn, var sett undir svipað fyrirkomulag og hér á að gera við fisksöluna. Ég á hér við síldareinkasöluna. Og sú reynsla, sem þar fékkst, sýnir ljóslega, að það var annað en þekking á síldarverzlun og framleiðslu, sem mest var tekið tillit til þegar valin var yfirstjórn þeirra mála. Og mun ekki verða svipað þegar búið er að koma á ríkiseinkasölu á saltfiski? Ætli það verði ekki önnur sjónarmið, sem til greina koma, en kunnugleiki manna og æfing í því að selja fisk suður í Miðjarðarhafslöndum?

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að þrátt fyrir þessa skipulagningu, sem frv. þetta, ef að l. verður, felur í sér, myndi fisksölun. halda áfram störfum sínum. Svo komst ráðh. í æsingu og talaði um ábyrgðarleysi hjá fisksölun., ef hún hætti störfum vegna þessarar löggjafar. En ef ráðh. má vera að hlusta á mig, þá vil ég leyfa mér að spyrja hann: Hvað á n. að gera, þegar ákvæði frv. þessa eru komin til framkvæmda? Eftir 3. gr. getur atvmrh. falið fisksölun. að úthluta útflutningsleyfum. En samkv. 1. mgr. sömu gr. má enginn bjóða fisk til sölu eða selja til útlanda nema með leyfi atvmrh., sem gert er ráð fyrir í síðari málsl. að verði yfirfært til fiskimálan. Ég get ekki betur séð en ef þetta verður framkvæmt eins og ráð er fyrir gert, og sem telja má víst, að þá verði valdið í þessum málum allt í höndum 7 manna nefndarinnar. Þótt fisksölun. héldi áfram störfum, þá myndi hún ekkert vera nema skrifstofuáhald, sem yfirstjórn fisksölunnar notaði eftir því sem henni byði við að horfa, þ. e. a. s. leyfa henni að gera vissar ráðstafanir, en taka fram fyrir hendurnar á henni hvenær sem n. svo sýndist. Viðhorfið er þá orðið þannig, að yfirstjórnina eiga að skipa menn, sem gera má ráð fyrir, að verði fáfróðir um þau störf, sem þeir eiga að leysa af hendi, en undir þeim standa svo mennirnir með sérþekkinguna og reynsluna, en þeir mega bara ekki hreyfa sig nema að mjög takmörkuðu leyti. Svo tala þessir menn um ábyrgðarleysi hjá þessum mönnum, ef þeir ætla að hætta störfum þegar svona er komið, og atvmrh. segist óhræddur skuli taka á sig ábyrgðina af þessari löggjöf. Það er þægilegt fyrir hæstv. ráðh. að gefa þessa yfirlýsingu, en ég geri. ráð fyrir því, að hún verði heldur létt í vasa, ef til hennar ætti að taka, þegar búið væri að fara eins með þessa grein sjávarútvegsins og farið var með síldarútveginn forðum. Sú einkasala var á 3—4 árum ekki einasta búin að eyða stórfé úr ríkissjóði og frá einstökum framleiðendum, og baka stórtjón með allskonar óhæfilegum ráðstöfunum, heldur var hún búin að eyðileggja sölumöguleikana, leggja atvinnuveginn í rústir. Ef fisksölufyrirkomulagið, sem nú á að koma á, verður búið á 3—4 árum að koma sjávarútveginum í annað eins horf, eyðileggja markaðinn á Spáni, Ítalíu og Portúgal, hvað verður þá úr ábyrgð eins ráðh., sem hér er fram boðin? Þetta er svo hræðileg hugmynd, að menn þora varla að hugsa hana til enda. En allir, sem vilja sjá nokkuð í þessu máli, hljóta að hafa opin augun fyrir því, að ef svo hörmulega tekst til, sem ég er ekkert að fullyrða um, en þó ástæða til að óttast, miðað við þá reynslu, sem bæði við og aðrar þjóðir hafa fengið í þessum efnum, þá er Ísland liðið undir lok sem sjálfstætt ríki. Það væri fullkomin fjárhagsleg eyðilegging fyrir landið. Og þá er lítið varið í ábyrgð eins ágæts ráðh. Hæstv. atvmrh. hefir látið í ljós margsinnis hér, að ekki sé ástæða til þess að gera ráð fyrir einkasölu, þótt frv. gangi fram, að einkasöluheimildin í 12. gr. yrði ekki notuð. En það skiptir ósköp litlu máli, hvort sú heimild verður notuð eða ekki, því að ákvæði 3. gr. gera það að verkum, að strax og l. ganga í gildi er í raun og veru um einkasölu að ræða, og allir ókostir einkasölunnar koma fram á því skipulagi. — Ég get endurtekið það, sem ég sagði í byrjun minnar ræðu, að mig undrar það, að ekki verr en þessum málum er hjá okkur komið, þar sem á undanförnum 3 árum hefir myndazt skipulag, sem hefir reynzt vel, þótt e. t. v. séu nokkuð skiptar skoðanir um útlitið, að hæstv. ráðh. skuli fara að leggja út í glæfralegar tilraunir eins og hér er verið að gera. Það bætir ekkert úr, þótt hann bjóðist til að taka á sig ábyrgðina.