18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Hæstv. ráðh. hefir nú dregið allmikið úr ummælum þeim, sem hann hafði um, að margir í forstjórn þessara fiskimála — nú segir hann sumir þeirra — teldu ekki frv. eða ákvæði þess óaðgengilegt til þess að halda fisksölusambandinu áfram. (Atvmrh.: Ég sagði, að skilyrðin til þess að fá löggildingu sem aðalútflytjandi teldu þeir ekki óaðgengileg). Ef hæstv. ráðh. meinar þetta, þá veit hann, að hér getur verið um að ræða þann mann, sem telur „grúppu-systemið“ heppilegast, því hann gerir vitanlega það, sem hann getur, til þess að eyðileggja fisksölusambandið. Hæstv. ráðh. þykist þá náttúrlega hafa nokkra afsökun, en hann gat ekki með nokkru móti komizt hjá að viðurkenna, að með þessu frv. hefir hann lagt sölusambandið á höggstokkinn. Um það er skýlaus yfirlýsing bæði frá Landsbankanum og fisksölunefndinni í heild, máske að undanteknum bankastjóra Útvegsbankans. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt um þetta efni. Það er vitanlegt, að þegar þeim, sem óánægðir kunna að vera með fisksölusambandið, er heimilað með lögum að hafa annað fyrirkomulag, þá taka þeir því. Þeir, sem vilja einkasölu, hverfa frá fisksölusambandinu, og þeir, sem hafa trú á „grúppusystemi“, líka. Þeir, sem nú óska að fá „grúppusystemið“, hafa um 20 til 30% af framleiðslunni, og þeir mundu til að byrja með fá löggildingu. Ef leitað væri til þessara manna um það, hvort þeir vildu halda fisksölusambandinu áfram, myndu þeir vafalaust engu svara og þar með þegjandi drepa sambandið. Ég sé ekki, hvernig fisksölunefndin getur leitað til fiskeigenda, þegar hún veit fyrirfram, að þannig er í pottinn búið. Ég tel óhugsandi, að hún geri það.

Hæstv. ráðh. spurði, hvernig ríkisstj. hefði átt að mæta, mér skildist þeim vandræðum, sem væru í fisksölumálunum, án laga í þá átt, sem hér er gert með frv. Hún þurfti engum vandræðum að mæta, því það er vitanlegt, að ef þetta frv. hefði ekki komið fram, þá hefði fisksölusambandið haldið áfram og haft nálega sama — líklega meira — fiskmagn en á þessu ári. En þó svo hefði farið, sem vitað er, að ekki hefði orðið, að fisksölusambandið hefði liðazt sundur, þá var hægurinn hjá að gefa út bráðabirgðalög á milli þinga. Allur kattarþvottur þeirra, sem þykjast vilja bæta um fisksölumál okkar Íslendinga, en sem að mínu áliti verður til stórkostlegrar bölvunar, er auðsær. Því hver maður veit, að fisksölusambandið hefði haldið áfram, ef ekki hefði komið fram slíkt frv. og hið góða fyrirkomulag er óhætt að segja, sem á fisksölumálum okkar hefir verið undanfarin ár og hæstv. ráðh. hefir sungið lof í ræðum sínum, var þannig tryggt áfram, ekki sízt vegna þess, að fisksölunefndinni hafði tekizt að fá ábyggilegt samkomulag við innflytjendurna um innflutning á nálega öllum þeim fiski, sem við getum selt til Suður-Evrópu.

Hæstv. ráðh. vildi reyna að telja einhverjum, sem ekki þekkja til, trú um, að innflytjendurnir á Spáni og Ítalíu létu sig litlu skipta, hvort hér væri ríkiseinkasala á fiski eða sölusamtök framleiðenda. Ég hefi áður sýnt honum fram á, hver munur er hér á og hvern mun innflytjendur gera á þessu tvennu. Eins og viðskiptunum hefir verið hagað undanfarið, hafa þeir fundið sig örugga og enga tregðu sýnt á því að kaupa fiskinn föstu verði. Þeir vita, að sölusamlagið er byggt á frjálsum samtökum, og það er trygging fyrir því, að samstarfið verði gott. Það veitir alla þá tryggingu, sem innflytjendurnir þurfa til þess að geta keypt föstu verði; því hagsmunir seljandanna hér eru þeir sömu og þeirra, sem með fiskinn verzla þar syðra. En með stjórnskipaðri einkasölu telja þeir sig ekki hafa neitt öryggi. Slík lög geta orðið felld úr gildi þegar minnst varir, og þeir menn, sem með slíka einkasölu fara, geta verið alveg óhæfir til að hafa það starf með höndum.

Hæstv. ráðh. þarf ekki að vera að berja sér á brjóst og segja: Ég er enginn princip-riddari, — því það er ekkert annað en principástæður einar í þessu máli, sem ráða því, að þetta frv. er borið fram og samþ. En það sætir undrum, að þeir menn, sem annars telja sig hafa samvinnu að sínu stefnumáli, skuli ljá lið sitt til slíkra verka. Þeir hafa þó vissulega reynsluna fyrir sér frá síldareinkasölunni, hábölvaðarar minningar. Menn geta verið vissir um það, að „grúppusystemið“ verður ekki lengi notað, og þegar það líður undir lok, verður sama fram undan í fisksölumálunum eins og í síldarsölumálunum á tíma síldareinkasölunnar. Það lítur ekki út fyrir, að sporin hræði í þessu efni.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Það er sýnilegt, að það stefnir í sömu átt á þessu sviði og öðrum, í þjóðnýtingaráttina. En ég hygg það sannmæli, að meiri hluti íslenzku þjóðarinnar sé andstæður slíkri stjórnmálastefnu. Og vissulega var það ekki á prógrammi Framsfl. fyrir síðustu kosningar, að hann ætlaði að vinna að framgangi þjóðnýtingarstefnunnar. Það er áreiðanlegt, að í mörgum þeim kjördæmum, þar sem framsóknarmenn komust að, er meiri hluti kjósenda andvígur þjóðnýtingu í verzlun og atvinnurekstri, ekki sízt á því sviði, sem hér er um að ræða, þar sem hún er áður nokkuð reynd. Framsóknarmenn létu glepjast til þess af jafnaðarmönnum að hoppa inn á síldareinkasöluna, en þeir munu allir sem einn hafa iðrazt eftir það, enda urðu þeir sjálfir til þess að leggja hana niður.

Hér er vissulega um líf eða dauða íslenzku þjóðarinnar að ræða. Takist illa til um fisksöluna, leiðir það til þess, að sjávarútvegurinn bíður þann hnekki, að ekki verður hægt að gera skipin út, jafnvel þó ríkið vildi taka á sig að einhverju leyti áhættuna við útgerðina. Það hefir því miður verið tekið of lítið tillit til þarfa sjávarútvegsins á undanförnum þingum. Það hefir verið tekið of lítið tillit til þess, hvernig ástand hans er og við hversu mikla örðugleika hann hefir átt að stríða. Það hefir verið vaninn, ef ríkissjóður hefir þurft að fá skattauka, að leita til sjávarútvegsins, einkum þorskútgerðarinnar. Og þessi mjólkurkýr ríkissjóðs hefir ekki ennþá lagt upp laupana, þrátt fyrir síhækkandi skatta og ákaflega mikla erfiðleika á öllum sviðum. Það er áreiðanlega vegna þess, að þessi síðustu tvö þrjú ár hefir tekizt vel til með fisksöluna. Það hefir tekizt að stýra framhjá stærsta bölinu á því sviði, umboðssölu fiskjarins, og því böli, sem þar fylgir ávallt með, verðfallinu. Það hefir tekizt að hækka verðið til muna og fá meira öryggi í verzluninni gagnvart markaðslöndunum. Þessu, sem áunnizt hefir, á nú öllu að kasta á glæ, þessu lífakkeri sem þjóðarbúskapurinn hefir hjarað á hin síðustu vandræðaár. Í staðinn á útgerðin að sæta þeim kjörum í fisksölunni, sem þetta frv. skapar, sem að allra dómi hlýtur að vera miklu lakara heldur en það ástand, sem verið hefir síðan fisksölusambandið var stofnað.

Ég hygg, að þó þeir, sem fylgja þessu frv., og þar á meðal hæstv. atvmrh., tali djarflega um, að hann taki á sig ábyrgðina af samþykkt þess, þá fari fyrir þeim eins og mönnunum, sem létu glepja sig til að setja ríkiseinkasölu á síld á sínum tíma, að þá iðri þessa verks. En það er engan veginn nóg fyrir þjóðina. Síldarútvegurinn hafði milljóna og tugi milljóna tap af síldareinkasölunni, og það versta var þó, að hann tapaði síldarmarkaðinum, sem við höfðum haft öruggan í Svíþjóð um mörg undanfarin ár. Hvernig hefði útlitið verið nú, ef þetta óhapp hefði ekki skollið yfir? Það hefði verið nokkuð bjartara heldur en það er nú. Nú er ráðizt að aðalgrein sjávarútvegsins, þorskveiðunum, og þegar þar er komið á sama rekspölinn, sem síldareinkasalan kom síldarútveginum, hvar stöndum við þá? Hvaðan fær ríkissjóður þá tekjur sínar og með hverju borgum við þá þær nauðsynjar, sem við þurfum að fá frá öðrum löndum?

Ég get látið máli mínu lokið að þessu sinni, en þess vildi ég óska þeim ógæfumönnum, sem að þessu frv. standa og framgangi þess, að þeir þurfi aldrei að horfast í augu við þau vandræði, sem af þessu geta leitt, a. m. k. sem fulltrúar þjóðarinnar.