20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Torfason:

Ég skal byrja með að lýsa því yfir, að ég tek aftur brtt. mína XXI, á þskj. 8l5, sakir þess, að hv. meiri hl. fjvn. hefir komið með brtt. á þskj. 894, þar sem þessi till. mín er tekin upp. Fyrir þetta leyfi ég mér að tjá hv. meiri hl. þakkir. Jafnframt vil ég tjá honum þakkir fyrir það, að hafa tekið upp till. á þskj. 784, undir tölulið 56. d., um að kaupa af Landsbankanum jarðir bankans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta eru miklar jarðir, með mikið landflæmi, sem liggur vel við ræktun. En yfir þessum jörðum hefir legið dauð hönd undanfarið, svo þær hafa ekki notið sín. Með þessum kaupum býst ég við, að svo verði stillt til, að þorpsbúar þarna geti tekið löndin og ræktað þau, eins og þá langar til. Ég er þess fullviss, að hér er um mjög merkilega brtt. að ræða, brtt., sem þó verður merkilegri er stundir líða. Fyrir þessa brtt. vil ég því þakka hv. meiri hl. fjvn., en þó sérstaklega hv. form. fjvn., sem mun hafa átt mestan þáttinn í, að hún var tekin upp. Hann hefir í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum sýnt það, að hann er framsýnni og víðsýnni en flestir aðrir.

Þá eru ekki fleiri brtt., sem ég hefi borið fram sjálfur, en á þskj. 815 er brtt. frá Bændafl., þess efnis, að herða á því að mjólkurbúi Ölfusinga verði greiddur sá styrkur, sem því var heitinn með lögum frá 19. júní 1933. Um þetta þarf ég ekki að fara mörgum orðum, en vil aðeins undirstrika það nú, að með þessum lögum hefir Alþingi gefið þessu mjókurbúi fulla von um, að því yrði greiddur ¼ hluti styrksins til viðbótar því, sem því hafði áður verið greitt. Þegar nú þing og stjórn hefir lýst því yfir, að þetta sé rétt, þá fæ ég ekki annað séð en að efna verði þetta loforð. Vænti ég því fastlega, að ekki standi lengi á því, að þetta loforð verði efnt.

Í þessu sambandi er vert að geta þess, að Mjólkurbú Ölfusinga hefir yfirleitt sætt verri meðferð en hin mjólkurbúin, og á því við nokkra örðugleika að stríða. Þannig eru lánskjör þess og vaxtakjör miklu verri en t. d. Mjólkurbús Flóamanna. Það hafa jafnvel heyrzt raddir um það, að mjólkurbú þetta gæti ekki borið sig, en það er ekki rétt. Það hefir borið sig eins vel og Mjólkurbú Flóamanna, aðeins ekki getað miðlað félögum sínum eins miklu, sem stafar af hinum þungu vaxtakjörum og erfiðu afborgunum, sem það hefir átt við að stríða umfram hitt búið, svo í raun og veru hefir það borið sig eins vel. Ég vænti nú, að Alþingi fari að binda enda á þetta mál.