28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. fór eins og köttur í kringum ákvæði 5. gr. frv., sem ég hygg, að séu hin sömu og í tilsvarandi gr. frv. um fiskimálan. Og þó að hv. þm. leggi áherzlu á, að verksvið brezku síldarn. sé talsvert víðtækara en síldarútvegsn. er ætlað að hafa hér á landi samkv. frv., þá er það bara á allt öðru sviði. Hv. þm. kom ekkert inn á það atriði, hvort brezku síldarn. væri gefið það vald, sem ég undirstrikaði, að síldarútvegsn. væri fengið hér samkv. 5. gr. frv., og gerir það að verkum, að hér verður nokkurskonar síldareinkasala. Ég fullyrði ekkert um, hvort tilsvarandi ákvæði eru í till. brezku n., en hv. þm. hefir ekki bent á það. Í þess stað var hv. þm. eitthvað að fjasa um, að hin volduga fríverzlunarþjóð, Bretar, væru að hverfa frá frjálsri samkeppni í viðskiptum. Hv. jafnaðarmenn liggja alltaf á því lúalagi, að nú séu allar þjóðir að hverfa frá fríverzlun og frjálsri samkeppni, en þetta er algerlega rangt hjá þeim, þó að þeir e. t. v. trúi þessu sjálfir, af barnalegri einfeldni. Einstök fyrirbrigði í viðskiptum þjóðanna, sem í fljótu bragði virðast benda í þessa átt, eru miðuð við það neyðarástand, sem nú ríkir í heiminum, og því aðeins tímabundin. Hv. jafnaðarmenn vísu oftast til stefnu og framkvæmda núv. Bandaríkjaforseta, til sönnunar þessum framburði sínum. En nú geta þeir sannfærzt um það eftir nýjustu heimildum, að Roosevelt forseti er alveg að hverfa frá þeirri stefnu sinni, að leggja hömlur á framtak einstaklinga, og að straumurinn er nú að bera hann í öfuga átt við það, sem áður var. Forsetinn er nú farinn að sjá, að hverskonar hömlur í viðskiptalífi þjóðanna og útilokun frjálsrar samkeppni leiðir til bölvunar. hetta er Bandaríkjaþjóðin nú að læra. Það tekur máske nokkurn tíma að koma viðskiptamálunum aftur í lag eftir kreppuna. En það mun takast, og þá eftir grundvallarkenningum okkar samkeppnismanna, sem hv. jafnaðarmenn halda í einfeldni sinni, að séu að hverfa úr sögunni; eða þá að þeir halda því fram meira og minna gegn betri vitund.