28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (3693)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði nú síðast um endurreisn hinnar frjálsu samkeppni, taka mér í munn þá gömlu setningu: „Mikil er trú þín, kona.“ En út af því, sem hv. þm. vildi bera brigður á, að ákvæðin í till. brezku n. næðu eins langt og væru eins bindandi fyrir síldarútveg Breta og þær ákvarðanir, sem við leggjum til í þessu frv. um síldarútveginn hér á landi, vil ég tilfæra nokkur atriði úr skýrslu brezku n. Þar segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Framleiðsla einstaklinga og hin frjálsa samkeppni hafði fyrir ófriðinn opna leið til sölu á afurðunum og enga þörf til að þróa söluaðferðir sínar, en síðan markaðirnir lokuðust að meira eða minna leyti, er einstökum framleiðendum og hinni frjálsu samkeppni algerlega um megn að leysa úr erfiðleikunum.“ Í framhaldi af þessu segir þar ennfremur: „Útflutninginn þarf að skipuleggja til þess að forðast neyðarsölu til þess að við getum verið jafnvígir sterkum kaupendasamtökum, og til þess að ná aftur töpuðum mörkuðum og auka nýja.

Við mælum með því, að n. taki sjálf að sér ábyrgð á þessu, og við erum vissir um, að við flytjum þar réttilega almennar óskir þeirra, er að þessum atvinnuvegi standa. Við höfum athugað reglur um eftirlit með útflutningi, sem notaðar eru í nýlendunum og annarsstaðar, og höfum séð, að þar er aðalreglan sú, að útflutningseftirlitinu hefir verið gefið lögvald, ekki einasta til þess að koma fram sem umboðsmenn fyrir framleiðendur, heldur einnig til að koma á fót einkasölu. Í framkvæmd er þetta vald sjaldan að fullu notað, þó eftirlit og fyrirskipanir séu gefnar um kaup og sölu, þá kaupa nefndirnar sjaldan sjálfar eða selja.

Með þá nauðsyn einkum fyrir augum, að opna nýja markaði, ráðleggjum við, að síldarnefndinni verði gefið samskonar víðtækt vald til þess að hafa það til vara; en sem venju viljum við gera ráð fyrir, að hún myndi koma fram sem umboðssali um útflutninginn, en ekki sjálf hafa birgðirnar með höndum.

Nefndin ætti að hafa vald til:

a. Að stofna útflutningsdeild, sem hafi með höndum útflutning á allri verkaðri síld og semja um afskipanir, farmgjöld, tryggingar o. þ. h.

b. Að taka umboð fyrir saltendur á öllum samningatilraunum á síldarsölu til Rússlands og á aðra markaði, þar sem slíkt þætti heppilegt. Á einstöku erlendum mörkuðum mætti venjulega leyfa síldarsaltendum sjálfum að leita samninga fyrir sig, ef þeir óska, en ráðstafanir til útflutnings ætti n. ein að hafa með höndum.

c. Að krefjast upplýsinga um alla skilmála og verð í samningum, sem saltendur gera sjálfir, og taka gjald af útflutningi þeirra, eins og hann hefði verið framkvæmdur af nefndinni.

d. Taka að sér umboðssölu til útlanda, eða neita um slíka umboðssölu, nema með því lágmarksverði og útflutningslaunum, sem n. ákveður.“

Ég ætla, að þetta muni vera hliðstætt ákvæðum í frv. þeim, sem nú liggja fyrir þinginu um fiskimálanefnd o. fl. og síldarútvegsnefnd o. fl.

Ég kem þá að eftirfarandi ákvæðum í till. n.: „e. Að útvega fé til notkunar í bili til sölu á erlenda markaði.

f. Útvega umboðsmenn og geymslu erlendis. g. Að gefa undanþágur að nokkru eða öllu leyti, ef um sérstakar verkunaraðferðir er að ræða.

h. Að taka ábyrgð á innheimtu á öllum lánum, sem n. veitir með hverskonar samningum sínum (erlendis).

i. Að örva söluna erlendis með fyrirlestrum, auglýsingum, eða á annan hátt.

j. Að kaupa og selja verkaða síld og taka að sér venjulegar skyldur sölufyrirtækja, en þó aðeins, ef nauðsyn krefur, vegna nýrra markaða eða annara sérstakra ástæðna.“

N. segir, að sér sé það fyllilega ljóst, að með þessum ákvörðunum sé dregið vald úr höndum útflytjenda, en að þjóðarheill krefjist, að svo sé gert. Ég ætla, að hin sama þjóðarnauðsyn knýi til þess einnig hér á landi.

Ég tek það fram, að hér er um lauslega þýðingu að ræða. En ég hygg, að þetta nægi fyllilega til að sýna það og sanna, að aðalatriðin í frv., sem hér liggur fyrir, eru hin sömu og í þessari merkilegu skýrslu brezku n. Sá kafli skýrslunnar, sem hnígur sérstaklega að framleiðslu einstaklinga, ætla ég, að sé orðréttur á þessa leið:

„Framleiðsla einstaklinga hafði fyrir ófriðinn opna leið til sölu á afurðunum og enga þörf til að þróa söluaðferðir sínar, en nú hefir hún engin ráð til að mæta kröftuglega fjárhagsörðugleikunum á núv. mörkuðum, eða til þess að opna nýja markaði.“

Þó að þetta gildi um ástandið í Bretlandi á þessum tímum, þá þarf það ekki þar fyrir að eiga við hér á landi. En ég fullyrði, að allir hinir sömu erfiðleikar séu hér fyrir hendi, nema ef vera kynni í ennþá ríkara mæli.