20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1935

Guðbrandur Ísberg:

Ég á hér á þskj. 832 nokkrar brtt. við fjárl., sem ég hefi leyft mér að bera fram. Fyrsta till., undir I, er við 12. gr., um að greiða sjúkrakostnað vegna Norðmannsins Mortons Myklebust. Hér er ekki farið fram á greiðslu til þessa manns, heldur vegna þess kostnaðar, sem hann hefir valdið hér á landi með dvöl sinni. — Maður þessi kom hingað árið 1933, þá til Raufarhafnar, og vann þar stuttan tíma, veiktist síðan skyndilega af garnaflækju og var samstundis gerður á honum holskurður af lækni. Á Raufarhöfn gat hann svo ekki verið til lengdar því að enn frekari skurð þurfti að gera á honum og þess vegna þörf fyrir alveg sérstaklega góða hjúkrun. Var hann því sendur með fyrstu ferð til Akureyrar, á sjúkrahús þar, sem veitti honum móttöku. Þessi maður var umkomulaus sjómaður, sem sjálfur gat ekkert greitt, og þeir aðilar, sem lagt höfðu í kostnað hans vegna, sneru sér því til stjórnarráðsins og reyndu að fá greiðslu í gegnum það. En nú liggur fyrir bréf atvmrh., þar sem skýrt er frá því, að greiðsla fáist ekki frá hlutaðeigendum í Noregi. M. ö. o. sjúkrahúsinu á Akureyri og lækninum á Raufarhöfn, sem tók við manninum, er vísað á það að rífast innbyrðis um það, sem kann að fást seint og síðar meir með langvarandi málaferlum. Nú vill hvorugur þessara aðila fara þá leið, en leita í þess stuð til Alþ. um greiðslu þessa kostnaðar, sem alls er kr. 1875,55. Þar af reikningur sjúkrahússins „Gudmans minnis“ kr. 1378,80. — Ég vil taka fram, og undirstrika í þessu sambandi, að þegar ríkisstj. hleypir svona umrenningi hér á land algerlega umkomulausum, sem við höfum engar skyldur við, og er samtímis þess alveg ómegnug að innheimta sjúkrakostnað, sem dvöl hans hefir í för með sér, þá er það skylda ríkisins að taka að sér greiðslu þessa kostnaðar. Ríkið leggur borgurum sínum þá skyldu á herðar að veita aðstoð og hjálp í svona tilfellum, hvort sem um innlenda eða erlenda menn er að ræða, en það verður naumast með sanngirni heimtað, að menn veiti slíkum umrenningum aðhlynningu nema tryggt sé, að greiddur verði sá kostnaður, sem af því hlýzt. Að öðrum kosti á ekki að hleypa slíkum mönnum á land hér, til kostnaðar og þyngsla fyrir sveitarfélög og einstaklinga. Aðaltill. mín er sú, að greiddur verði allur kostnaðurinn, sem orðið hefir vegna þessa Norðmanns, en til vara till., sem mér hefir verið falið að flytja f. h. sjúkrahússins „Gudmans minnis“, að þangað verði greiddar þessar 1378,80 kr. — Ég tel fullkomlega sanngjarnt, að tekið verði tillit til kröfunnar allrar, en þó a. m. k. sjálfsagt að taka tillit til kröfunnar frá „Gudmans minni“, sem væntanlega getur krafið N.-Þingeyinga um greiðslu, þar sem maðurinn leitaði fyrst hjálpar og styrks.

Þá á ég hér aðra litla till., sem ég leyfi mér að bera hér fram í nýju formi, en mælti fyrir við 2. umr. þessa máls, en hún er um styrk til sundlaugarinnar á Akureyri. Í fjárl. eru kr. 5 þús. ætlaðar til byggingar sundlauga. Nú hefi ég lagt til, að sá liður verði hækkaður upp í 13 þús. kr. og að af þessum 13 þús. fari 10 þús. kr. til sundlaugarinnar á Akureyri. Ég tók það þegar fram við 2. umr., að kostnaðurinn við þetta mannvirki er næstum orðinn 80 þús. kr., og samkv. fastri venju er það skylda ríkissjóðsins að leggja fram vissan hluta á móti. Þetta er skylda, sem ríkissjóðurinn getur ekki til lengdar skotið sér undan. — Við 2. umr. var felld till. mín um að greiða 10 þús. kr. í þessu skyni. Upphæð sú, sem ég nú fer fram á til viðbótar því, sem áður er samþ. er einar 8 þús. kr. Þar sem hún er þetta lægri en áður, er nú nær að hún verði tekin til greina og samþ.

Þá er enn ein till. þess efnis, að Hallgrími Péturssyni á Akureyri verði veittur styrkur, 40 kr. á hverja fullprentaða örk af ritinu „Annáll 19. aldar“. Hér er ekki um neitt „ef“ að ræða í þessu sambandi, hvort þessi maður muni skapa nokkurt andlegt verðmæti. Þetta verðmæti er orðið til, og þarf einungis fé til þess að koma því fyrir almenningssjónir. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þetta Alþ. hefir verið mjög örlátt á persónustyrki, og það til manna, sem auðvitað geta e. t. v. framleitt verðmæti einhverntíma, þótt allt sé það í óvissu. Má þar til nefna tvo menn, Halldór Kiljan Laxness, sem hefir hvorki fengið meira né minna en 5 þús. kr. skáldstyrk, og Þórberg Þórðarson, sem hefir verið færður upp í 2500 kr. vel getur verið, að þessir menn framleiði í framtíðinni einhver andleg verðmæti, ef menn þá geta fengið sig til að kalla klámsögur o. þ. u. l. andleg verðmæti. En „Annáll 19. aldar“ er annars eðlis, og ef menn geta ekki fallizt á að samþ. þennan litla styrk, í mesta lagi 2 þús. kr., þá hygg ég, að rétt sé að athuga á næsta þingi, hvort ekki sé hægt að klípa eitthvað af persónustyrkjunum, til þess að koma þessu riti fyrir almenningssjónir.

Loks á ég brtt. við 16. gr., III á sama þskj. Þar er farið fram á 8 þús. kr. styrk til undirbúnings rannsókna vegna fyrirhugaðrar rafvirkjunar á Akureyri og í nærliggjandi sveitum. Ég bar þetta mál fram við 2. umr. fjárl., og ég vil undirstrika það nú sem þá, að 1930 var þessum styrk heitið með bréfi atvmrh. Það eru því hrein svik við Akureyringa og nærliggjandi sveitir, ef styrkurinn verður ekki greiddur. Ég fór fram á 10 þús. kr. við 2. umr., eins og lofað hafði verið. Nú hefi ég fært upphæðina niður í 8 þús. kr., í von um, að það nægi móti 1/5 annarsstaðar að, og vona ég, að Alþ. skjóti sér ekki undan því að efna loforðið, sem stjórnarráðið gaf í þessu efni.

Ég hirði ekki að fjölyrða frekar um till., þar sem ég mælti fyrir þeim við 2. umr.