28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er aðeins lítil aths., sem ég vildi koma með í sambandi við það, sem hv. þm. Ísaf. sagði um afskipti bankanna af því, að koma mönnum til samstarfs í fisksölumálum. Hann sagði eins og satt er, að bankarnir hefðu látið sér fátt um finnast hvað snertir síldarútveginn og þá, sem að honum standa. Ég vil engan veginn efa, að þetta sé rétt, og ég hefi sjálfur heyrt talsvert um þetta talað, en er því ekki svo kunnugur, að ég geti borið um það af eigin reynd. Hitt, að bankarnir hafi látið sér svo annt um að halda utan að félagslegri starfsemi um fisksöluna, það er rétt og ekki rétt. Það er að vísu rétt, að höfuðbankarnir hér í Rvík hafa látið sig þetta talsverðu máli skipta síðan fisksölusamlagið hér í Rvík var stofnað. En fram að þeim tíma og á þeim tíma, þegar fiskeigendur yfirleitt, sjómenn, útgerðarmenn, kaupmenn og kaupfélagsstjórar tóku höndum saman í veiðistöðvum víðsvegar um landið til þess að mynda fisksölusamlag, til þess að halda saman í þessum efnum, þá létu a. m. k. höfuðbankarnir sig það mál litlu skipta. Árið 1931, þegar mjög erfitt var með fisksöluna, þá knúðum við hart á dyr bankanna hér í Rvík, til þess að fá þeirra aðstoð til að geta gert samtökin styrkari um söluna. Það var algerlega án árangurs á þeim tíma. Ég segi við, því að þetta voru menn bæði fyrir fisksölusamlagið í Rvík, Vestmannaeyjum og víðar frá, t. d. af Austfjörðum, menn, sem voru í hættu staddir vegna þess ástands, sem þá ríkti í þessum málum, og vissu það, að ef bankarnir hefðu viljað veita aðstoð til þess að styðja þessi samtök, þá hefði það munað því, sem dugði.

Þessi fisksölusamlög, sem voru upphafið að fisksölusamtökunum í landinu, voru ekki samvinnufél., heldur frjáls samtök fiskeigenda úti um allt land. Þarna voru menn, sem unnu kauplaust að fisksölunni, bæði fyrir sig og aðra. En rétt er líka að geta þess í þessu sambandi, að sumstaðar á landinu hafa aftur á móti útibússtjórar bankanna leyst talsvert starf af hendi í þessum málum, til þess að halda svona samtökum lifandi og vakandi. Ég get t. d. sagt það um bankaútibússtjórann í Vestmannaeyjum, Viggó Björnsson, að hann hefir árum saman lagt mikið starf í að stuðla að félagsskap útgerðarmanna um fisksölu, löngu áður en sölusamlag ísl. fiskútflytjenda var nefnt á nafn. Svipað er hægt að segja um Sigurjón Jónsson, bankastjóra á Ísafirði. En að höfuðbankarnir hér í Rvík hafi látið sig það verulegu máli skipta, hver félagsleg samtök útgerðarmenn höfðu með höndum, fyrr en sölusamband ísl. fiskframleiðenda var stofnað, geri ég ekki ráð fyrir, að hafi verið. Ég hefi talsverða reynslu í þessum efnum og vissi a. m. k. um það árin 1930 til 31, hvernig útkoman var hvað þetta snertir.

Orsakarinnar er þess vegna ekki að leita í þessu. Þetta er einhvernveginn þannig lagað, því miður, að síldarútgerðarmenn hafa átt miklu óhægara með að koma sér saman í þessu efni en aðrir útgerðarmenn. Ástæðan er e. t. v. sú, að svo margir þeirra eru hvorttveggja í senn, framleiðendur og útflytjendur, eiga jafnvel fiskiskipin líka. Þetta horfir talsvert öðruvísi við en við aðra fiskverzlun. Áður en fisksölusamlagið var stofnað, voru það ekki nema 2 fél. á öllu landinu, sem voru bæði framleiðendur og útflytjendur. Allur fjöldinn var aðeins framleiðendur og hafði þess vegna nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta, hvað þessa verzlun snerti.