05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Ólafur Thors:

Mér gefst ekki kostur á að vera viðstaddur, þegar 1. umr. þessa máls fór fram. Ég vildi því leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá flm. þessa frv., að hvað miklu leyti að baki þess standi óskir þeirra manna, sem við þessi l. eiga að búa, ef þau verða samþ. Ég viðurkenni fyllilega þann eðlismun, sem er á sölu saltfiskjar annarsvegar og sölu síldar hinsvegar, sem frá mínu sjónarmiði liggur aðallega í því tvennu, að ráðstafanir, sem gerðar eru viðvíkjandi síld, hafa ekki neitt svipað því eins viðtæk áhrif á hagsmuni þjóðarinnar eins og þær ráðstafanir, sem gerðar eru á sviði saltfiskssölunnar, og svo hinsvegar í því, að eftir því, sem ég veit bezt til, þá hefir gengið treglega og verið meiri vandkvæðum bundið að skipuleggja frjálst samstarf milli síldarútvegsmanna heldur en saltfiskframleiðenda. En þó það sé nú svo, að vel megi játa, að nokkur vandræði hafi verið á félagsskap með frjálsum samtökum meðal síldarútvegsmanna og að betur mætti fara en raun er á, þá er þó skammt að minnast mjög hraklegra afleiðinga af ráðstöfun ríkisvaldsins á þessu sviði, svo að þm. hafa náttúrlega þar hina mestu aðvörun um að grípa ekki að nauðsynjalausu fram fyrir hendurnar á síldarútvegsmönnum. En áður en ég færi út í að gagnrýna einstök ákvæði þessa frv., sem ég þá eins gæti gert við næstu umr. málsins, vil ég leyfa mér að bera upp þessa fyrirspurn, sem ég gat um áðan, til flm. frv. Ég sé ekki, að grg. frv. geri nein tæmandi skil í þessu efni. En að sjálfsögðu mun það nokkuð marka afstöðu mína til málsins og raunar fleiri þm., hvort upplýsingar liggja fyrir um það, að þeir, sem eiga við þetta að búa, uni þessu frv. eins og það liggur fyrir, og þá samtímis, hvort þeir hafi farið fram á nokkrar sérstakar breyt. á frv., og þá hverjar.